Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Dæmdir nýnasistar frá Norðurlöndum hjálpa þeim íslensku

For­ystu­menn Nor­rænu mót­stöðu­hreyf­ing­ar­inn­ar eru með of­beld­is­dóma á bak­inu og lof­syngja Ad­olf Hitler. Stund­in fjall­ar um heim­sókn þeirra til Ís­lands í sam­starfi við sænska fjöl­mið­il­inn Expo.

Sænskir, norskir og danskir nýnasistar komu til Íslands í byrjun mánaðarins til að styðja við Norðurvígi, íslenskan arm Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar.  Einn þeirra er leiðtogi hreyfingarinnar, hinn sænski Simon Lindberg, sem hefur fengið dóm fyrir hatursglæp og ofbeldi gegn samkynhneigðum. Martin Saxlind, ritstjóri vefs hreyfingarinnar, er einnig með í för, auk tveggja framámanna nýnasista á Skáni, Freddy Nerman og Tobias Malvå. Hafa þeir reglulega komist í kast við lögin og eru samtök þeirra talin hættuleg af lögregluyfirvöldum.

 „Við erum í mjög góðu samstarfi við löggæslustofnanir á Norðurlöndum, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og lögregluna á Suðurnesjum,“ segir Runólfur Þórhallsson, lögreglufulltrúi hjá embætti ríkislögreglustjóra, í samtali við Stundina, en ríkislögreglustjóri nefndi samtökin sérstaklega í skýrslu sinni um hryðjuverk frá árinu 2017. „Við teljum ekki að það sé nein yfirvofandi hætta.“

Nýnasistarnir gengu milli húsa á Kársnesi í Kópavogi á miðvikudag ásamt íslenskum félögum sínum í Norðurvígi og dreifðu áróðri í hús og settu límmiða með merki hreyfingarinnar á ljósastaura í hverfinu. Gerðu íbúar á svæðinu lögreglu viðvart. Á fimmtudag komu þeir saman á Lækjartorgi, veifuðu fánum og ræddu við vegfarendur. Hafði lögreglan afskipti af þeim en útifundinum lauk án átaka, þrátt fyrir orðaskipti við vegfarendur.

„Helvítis kynþáttasvikari,“ sagði Simon Lindberg við Snæbjörn Guðmundsson, sem átti leið hjá og reif bækling sem hann fékk afhentan í sundur í mótmælaskyni við aðgerðir nýnasistanna. „Komdu þér í burtu, kommúnistahyskið þitt.“

Nokkrir Íslendingar hafa verið með gestunum í för. Stundin ræddi við einn þeirra á Lækjartorgi, Arnar Styr Björnsson, sem er guðfræðingur að mennt og fyrrverandi formaður Herjans – félags stúdenta gegn ESB-aðild. Hann sagðist ekki vilja beita sér fyrir fjöldamorðum á Íslandi en lýsti þó hrifningu sinni á Nasistaflokki Þýskalands.

„Ég er mjög hrifinn af því sem þýski þjóðernisfélagshyggjuflokkurinn stóð fyrir,“ sagði Arnar. „Ég held það sé ekki allt satt sem sagt er um helförina ... hef ekkert verið að kynna mér það neitt sérstaklega en ég held það sé mjög mikið logið um það dæmi.“

Vilja miðla áróðri um nasisma

Norræna mótstöðuhreyfingin berst fyrir sameiningu Norðurlandanna í einu hvítu þjóðríki sem losni þannig undan áhrifum „glóbalista“. Er það orð oft notað af þjóðernissinnum yfir gyðinga. Lögregluyfirvöld á Norðurlöndum fylgjast náið með aðgerðum þeirra og voru þrír menn tengdir samtökunum í Svíþjóð dæmdir í fangelsi árið 2017 fyrir sprengjuárás í Gautaborg.

Á heimasíðu samtakanna segir að Norræna mótstöðuhreyfingin sé „byltingarkennd þjóðernis félagshyggin pólitísk baráttu samtök“. Þá segir einnig að meginmarkmið samtakanna sé að miðla áróðri. 

„Meginverkefni samtakanna um þessar mundir er að miðla áróðri til fólksins. Okkar meginmarkmið með okkar áróðri er ekki einungis að ráða stóran hóp af fólki, heldur er það að draga til okkar hágæða, skarpa og hliðholla einstaklinga. Í stærra samhengi notum við þennan áróður til að veita almenningi jákvæða ímynd af Norrænu mótstöðuhreyfingunni og þjóðernisfélagshyggju, svo að almenningur mun fúslega styðja og á þeim degi er við náum völdum á Norðurlöndunum.“

Í bæklingi sem þeir hafa dreift í hús og til vegfarenda segir meðal annars að fólki og landi sé stjórnað af sjálfskipaðri alþjóðaelítu sem hafi með gríðarlegu fjármagni náð stjórn á bönkum, fjölmiðlum og skemmtanaiðnaði í vestrænum samfélögum. „Þar af leiðandi hefur þeim tekist að halda fólkinu í járngreipum þrælavaxta, menningarmarxisma og úrkynjaðar ómenningar.“

Dæmdir ofbeldismenn með í för

Simon Lindberg er leiðtogi Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar. Lindberg segist hafa sömu grunnhugmyndafræði og Adolf Hitler. Hann telur samkynhneigða ýta undir barnaníð og fékk þriggja mánaða fangelsisdóm árið 2006 fyrir að veitast að meðlimum samtaka hinsegin fólks sem dreifðu smokkum. Hann afneitar því að helförin hafi átt sér stað með þeim hætti sem almennt er viðurkennt. „Það skiptir ekki máli,“ sagði hann í viðtali við Sydsvenskan. „Þetta var fyrir sextíu árum. Og það eru vísbendingar um að þetta hafi ekki verið svona umfangsmikið.“

Simon LindbergLeiðtogi hreyfingarinnar var dæmdur í fangelsi fyrir árás gegn samkynhneigðum.

Í fyrra var Lindberg svo dæmdur fyrir hatursáróður gegn minnihlutahópum, fyrir að hafa í ræðu sem hann hélt í miðborg Stokkhólms árið 2016 kallað nasistakveðjuna „Sieg Heil“ á sænsku.

Annar sænskur nýnasisti sem tók þátt í aðgerðunum er Freddy Nerman, 29 ára fyrrverandi hermaður frá Skáni. Hann hefur að eigin sögn verið meðlimur hreyfingarinnar frá 2008, þegar hann var 17 ára að aldri, og var hann því yfirlýstur nýnasisti á meðan hann gegndi herþjónustu.

Meðlimir hreyfingarinnarFreddy Nerman heldur á fána til vinstri á myndinni, andspænis Simon Lindberg.

Nerman var í mars á þessu ári kærður fyrir að dreifa hatursáróðri á samfélagsmiðlinum VK, sem kallaður hefur verið rússneska Facebook. Um var að ræða tvær myndir með nasískum boðskap. Hann sætir einnig ákæru vegna átaka við lögreglumann.

Sneri baki við nasisma og hélt fyrirlestra í skólum

Annar nýnasisti sem sjá mátti á Lækjartorgi, Tobias Malvå, sætir nú ákæru vegna ofsókna í garð gyðinga og samkynhneigðra á netinu.

Tobias MalvåTobias snéri tímabundið baki við þjóðernishyggju.

Hann hefur einnig verið dæmdur fyrir ofbeldi, hótanir og þjófnað. Í lok tíunda áratugarins vakti athygli þegar hann tilkynnti um að hann hefði yfirgefið þjóðernishreyfinguna. Í framhaldinu vann hann með samtökunum Exit, sem styðja við fyrrverandi meðlimi hægri öfgasamtaka. Hann flutti fyrirlestra í skólum um líf sitt og hvernig hann sneri baki við haturssamtökum en nokkrum árum síðar sneri hann aftur til starfa fyrir þjóðernissinnuð samtök og beitir sér nú innan Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar.

Loks er Martin Saxlind, ritstjóri hreyfingarinnar, staddur hérlendis. Hann heldur utan um vefsíðuna Nordfront og hefur jafnframt umsjón með útvarpsþætti. Saxlind var dæmdur fyrir ofbeldi á mótmælum í útjaðri Stokkhólms árið 2013. Þá hlaut hann jafnframt dóm fyrir hatursorðræðu vegna lofgreinar sem hann skrifaði um Adolf Hitler á síðunni árið 2015.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár