Niðurstöður rannsóknar á því hvort börn hafi verið beitt ofbeldi eða illri meðferð á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, verður ekki kynnt ráðherrum á morgun eins og til stóð. Skýrsla nefndar sem falið var að rannsaka starfsemi meðferðarheimilisins er enn til meðferðar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, þrátt fyrir að henni hafi verið skilað fyrir um mánuði síðan.
Til stóð að kynna niðurstöður skýrslunnar fyrir félags- og vinnumarkaðsráðherra og mennta- og barnamálaráðherra á sameiginlegum fundi á morgun en þó hafði sá fundartími ekki verið staðfestur að fullu. Nú er orðið ljóst að af þeim fundi verður ekki. Ástæðan mun vera sú að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur enn ekki lokið yfirferð sinni yfir skýrsluna. Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar er verið að rýna skýrsluna, meðal annars út frá persónuverndarsjónarmiðum.
Ekki hefur verið fastsettur nýr fundartími til að kynna skýrsluna í ráðuneytunum. Heimildir Stundarinnar herma að óþolinmæði sé farið að gæta þeim megin en á móti hafi félagsmálaráðuneytið, sem Gæða- og velferðarstofnun heyrir undir, ekki boðvald yfir stofnuninni í efnum sem þessum og vilji ekki skipta sér af skilum á skýrslunni þó æskilegt væri að þau yrðu sem fyrst enda sumarfrí framundan.
Upphaflega stóð til að skýrslunni yrði skilað um síðustu áramót. Þegar ekki varð af því var þeim skilum frestað til mars mánaðar og síðan til loka aprílmánaðar. Skýrslunni sjálfri var skilað af hálfu rannsóknarnefndarinnar um síðustu mánaðamót. Stundin óskaði svara um hvenær til stæði að gefa skýrsluna út og hvað ylli hinum miklu töfum á þeirri útgáfu með tölvupósti 28. júní til Gæða- og eftirlitsnefndar. Ekki hafði borist svar við póstinum þegar fréttin var birt.
Athugasemdir (1)