„Þetta er bara fyrirsláttur og leið til að henda Bankasýslunni fyrir rútuna í stað þess að reka forsvarsmenn hennar, eins og fjármálaráðherra getur alveg gert. Ef honum væri alvara með að Bankasýslan hefði brugðist hlutverki sínu þá væri rétt að láta þá bara víkja, og það væri eðlilegt að gera að mínu viti.“ Þetta eru viðbrögð Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata og 2. varaformanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í morgun um söluna á hlutum í Íslandsbanka, þar sem meðal annars kemur fram að leggja eigi niður Bankasýslu ríkisins.
Í yfirlýsingunni kemur fram að ljóst sé að „framkvæmd sölunnar stóð ekki að öllu leyti undir væntingum stjórnvalda, m.a. um gagnsæi og skýra upplýsingagjöf“. Því sé þörf á að endurskoða lagaumgjörð og stofnanafyrirkomulag, vegna þeirra annmarka sem komu í ljós við söluna. Þetta segir Þórhildur Sunna að sé klassísk afvegaleiðing. „Þarna er verið að kenna lagaramma og stjórnsýslunni um það sem að öllu leyti er á ábyrgð fjármálaráðherra. Lögin sem þarna er lagt til að breyta gera þegar ráð fyrir að öllum þessum atriðum, sem ríkisstjórnin segir að hafi ekki verið nógu vel sinnt, sé sinnt. Það er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á því að sinna því að gagnsæi sé tryggt, að samráð við Alþingi sé raunverulegt. Hann hefur hins vegar ekki gengist við þeirri ábyrgð. Eina ábyrgðin sem Bjarni hefur gengist við er að hafa ekki beðið pabba sinn fyrirfram um að kaupa ekki í bankanum.“
Skýrt að ráðherra ber lagalega ábyrgð
Þórhildur Sunna bendir á að skýrt sé að það sé lagaleg ábyrgð fjármálaráðherra að fara yfir öll tilboð og samþykkja þau eða hafna. Í 4. grein laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum segir eftirfarandi: „Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“
„Fjármálaráðherra ber því lokaábyrgð á því hverjir urðu kaupendur í þessu ferli“
„Fjármálaráðherra ber því lokaábyrgð á því hverjir urðu kaupendur í þessu ferli. Annað hvort vissi Bjarni að pabbi sinn, auk annarra úr hruninu, voru að kaupa í bankanum og varð þar með vanhæfur til að taka þessa ákvörðun, út af fjölskyldutengslum, eða að hann vissi það ekki og fór þar með gegn lögunum. Miðað við þær tilkynningar sem hafa komið frá fjármálaráðuneytinu þá var það hið síðara. Þar segir að Bjarni hafi ekki skoðað tilboðin neitt en honum ber að gera það samkvæmt lögunum og því hefur hann brotið lög,“ segir Þórhildur Sunna.
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er tilgreint að bæði hafi Ríkisendurskoðun hafið rannsókn á því hvort salan í Íslandsbanka hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum og eins hafi fjármálaeftirlit Seðlabankdans hafið rannsókn á tilteknum þáttum sölunnar. Í yfirlýsingunni segir enn fremur að „komi fram þörf fyrir frekari rannsóknir þegar niðurstöður Ríkisendurskoðunar og Seðlabankans liggja fyrir mun ríkisstjórnin beita sér fyrir slíku á vettvangi Alþingis.“
Lýsir viðhorfi ríkisstjórnarinnar í garð Alþingis
Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur hins vegar þegar kallað ítrekað eftir því að rannsóknarnefnd á vegum þingsins verði skipuð til að fara yfir söluna, án þess að við því hafi verið orðið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.
„Mér finnst þetta lýsandi fyrir viðhorf ríkisstjórnarinnar í garð eftirlitshlutverks Alþingis. Enn ætlar hún að standa í vegi fyrir því að Alþingi geti sinnt sínu eftirlitshlutverki, enn er þetta allt á forsendum ríkisstjórnarinnar, sem að auðvitað ætti að víkja svo að þingið geti rannsakað söluna á sínum forsendum,“ segir Þórhildur Sunna.
„Það er ekki tækt að fjármálaráðherra sem er staðinn að þessari vanhæfni, og lögbrotum, stjórni því hvernig hann er rannsakaður, hvenær það er gert og hvaða þættir verða rannsakaðir. Það er síðan til að bíta höfuðið af skömminni að segja svo að ef ríkisstjórninni þóknist svo þá muni hún nota þingið til að rannsaka söluna. Þau bera bara nákvæmlega enga virðingu fyrir þinginu sem eftirlitsaðila gagnvart framkvæmdavaldinu.“
Í ljósi yfirlýsingarinnar segir Þórhildur Sunna að augljóst sé að ekki standi til að setja á fót neina rannsóknarnefnd. „En við þurfum svo sem enga rannsóknarnefnd til að sjá að Bjarni verður að víkja. Það er ekki hægt að selja pabba sínum hluta í ríkiseign og sitja svo bara áfram eins og ekkert hafi í skorist.“
Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
http://herdubreid.is/hinir-osnertanlegu/
"130 milljarðar voru afskrifaðir hjá fjölskyldufyrirtækjum Bjarna Benediktssonar"
"Benedikt Sveinsson tók yfir á annað hundrað milljónir af einkaskuldum sonar síns, meðal annars vegna veðmála"
"Í miðju Hruni var Bjarni ennþá að færa stórfé úr landi til að borga fyrir fasteignabrask á Flórida"
Síðar var Bjarni Ben gerður að fjármálaráðherra í þrígang !!!