Sumarið 2017 var ég ásamt kollega mínum kallaður ofan í fjármálaráðuneyti. Erindið var að hitta þar nokkurra manna nefnd sem fengið hafði það hlutverk að skrifa svokallaða hvítbók um fjármálakerfið.
Einn nefndarmanna sat bara hluta fundarins. Formaðurinn, Lárus Blöndal. Þann tíma sem hann var viðstaddur, lagði hann fátt til málanna. Raunar hafði ég orð á því við kollega minn eftir fundinn að ég hefði sjaldan séð mann horfa öðrum eins löngunaraugum út í átt til Seðlabankans og Lárus gerði þennan dag. Þó kann að vera að sumarið hafi togað svona í Lárus.
Í fundarherbergi í Arnarhváli var annars ýmislegt rætt. Þó var aðallega rætt um traust.
Þá staðreynd að jafnvel þó menn vildu láta í það skína að öllum þessum árum eftir hrun, væri búið að girða fyrir að margt af því sem þá gerðist, myndi endurtaka sig, væru enn skýr merki um að menningin væri lítið breytt.
Í þessu sambandi tókum við dæmi af því þegar forsvarsmenn Íslandsbanka urðu þess varir að þrír lykilstarfsmenn bankans, sem höfðu verið fengnir til að selja dýrmæta eign bankans, olíufélagið Skeljung, voru grunuð um að hafa selt það fyrir lítið, gegn því að fá í staðinn verðmæti fyrir slikk.
Þetta plott fór ekki sérstaklega leynt árið 2008. Sérstaklega ekki þegar einn þremenninganna, Einar Örn Ólafsson, sem sá um söluna fyrir Íslandsbanka, var látinn fara vegna trúnaðarbrests og gerðist forstjóri Skeljungs. Fyrirtækisins sem hann hafði selt.
Forsvarsmenn Íslandsbanka virðast strax hafa fyllst grun um að fiskur leyndist undir steini. Strax þarna hófst fjölmennur hvísluleikur um að Einar og hinir tveir samstarfsmenn hjá bankanum, Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Þór Guðjónsson, hefðu líka fengið eitthvað fyrir sinn snúð í þessum snúningi.
Seinna sagðist bankinn hafa látið óháðan aðila skoða söluna, án niðurstöðu. En lengra fór málið ekki að sinni.
Heiður hússins
Mörgum sem fylgst höfðu með þessu máli þótti augljóst að hjá Íslandsbanka hefði „heiður hússins" orðið ofan á. Það hefði augljóslega kostað bankann álitshnekki að fara á fullt eftir grun sínum og fá hann staðfestan. Að hafa mögulega verið rændur innan frá. Aftur.
Því var ákveðið að leggja málinu.
Það var svo ekki fyrr en 2016 sem bankinn loks neyddist til að gera eitthvað í málinu en þá höfðu utanaðkomandi aðilar bent bankanum á upplýsingar sem sýndu að öll þrjú, Einar, Halla og Kári, höfðu öll grætt hundruð milljóna króna á því að selja Skeljung. Þessar ábendingar bárust reyndar bankanum 2013.
Í millitíðinni höfðu þau Einar, Kári og Halla Sigrún, tekið þátt í enn einum umdeildu viðskiptunum. Þremenningarnir höfðu þá keypt laxeldisfyrirtækið Fjarðalax árið 2012. Aftur var bent á sérkennilega aðkomu þeirra að málinu. Halla Sigrún hafði verið starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Straums, sem sá um söluna á Arnarlaxi, og Kári hafði raunar verið starfandi ráðgjafi fyrir kaupendurna.
Sjálf vísuðu þau því á bug að nokkuð væri óeðlilegt við þessi viðskipti þeirra, frekar en Skeljungsviðskiptin. Hjá Straumi var málið allt hið vandræðalegasta og einungis því til að svara að Halla hefði „óhjákvæmilega“ hætt hjá Straumi, þegar ljóst var hvert stefndi með eignina sem hún átti að selja – sjálfri sér. Kaupin á Fjarðalaxi áttu svo sannarlega eftir að reynast þremenningunum verðmæt þegar þau seldu sig út úr rekstrinum nokkrum árum síðar.
Hvorug þessara viðskipta, salan á Skeljungi og Fjarðalaxi, fóru fram í neinni kyrrþey. Og þótt salan á Fjarðalaxi hafi ekki farið lengra þegar upplýst var um hana í nóvember 2013, var þarna kominn skriður á Skeljungsmálið. Upplýsingar um hvað þremenningarnir hefðu eignast hluti í dótturfélagi Skeljungs fyrir lítið, eftir að hafa selt það fyrir bankann, voru farnar að kvisast út.
Óvænt upphefð
Mánuði eftir að Halla Sigrún hætti störfum í Straumi, eftir að hafa selt sér og félögum sínum Fjarðalax, skipaði hins vegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hana stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins. Margir hváðu við en aðra renndi kannski í grun að ráðherrann hefði fengið ábendingu um þessa reynslumiklu konu, frá viðskiptafélaga hennar, vini Bjarna, Einari Erni Ólafssyni.
Einar Örn hafði, auk þess að vera vinur Bjarna, þjónustað hann í viðskiptum hans og fjölskyldu hans við Glitni, sem fjölskylda Bjarna átti þá ráðandi hlut í, en líka átt samtöl um FME við Bjarna, þá þingmann, í tengslum við aðgerðir yfirvalda vegna yfirtöku á Glitni.
„Bjarni ben segir að fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna,“ sagði Einar Örn í pósti til yfirmanna sinna hjá Glitni 6. október 2008, nokkrum tímum áður en tilkynnt var um setningu neyðarlaganna og þjóðnýtingu Glitnis. Einar var á þessum tíma líka skráður fyrir stuðningsmannahópi framboðs Bjarna Benediktssonar.
Hvað svo sem stýrði vali Bjarna á stjórnarformanni FME í desember 2013, var ljóst að hann þurfti ári síðar að finna annan formann í hennar stað. Í nóvember 2014 var enda upplýst um það í fjölmiðlum að Halla hefði haft hundruð milljóna króna verðmæti út úr Skeljungssölu hennar og félaga hennar fyrir Glitni. Jafnvel þótt hún teldi málið misskilning, ætlaði hún að víkja úr stjórnarformannsstóli FME, en bara þegar skipunartími hennar rynni út. Rúmum mánuði síðar.
Á þetta féllst Bjarni og sagðist ekki ætla að aðhafast frekar, jafnvel þó ljóst væri að stjórnarformaðurinn sem enn sat í umboði hans ætlaði ekki að víkja strax.
Það var svo ekki fyrr en 2016 sem Íslandsbanki hafði sig í það að leggja fram kæru á hendur þremur fyrrverandi starfsmönnum sínum, Höllu, Kára og Einari, vegna gruns um alvarleg lögbrot þeirra þegar þau seldu þeim Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundi Þórðarsyni Skeljung árið 2008.
Árið 2018 fóru svo fram húsleitir og handtökur á þeim Svanhildi Nönnu og Guðmundi, auk þess sem þremenningarnir voru yfirheyrð. Öll fimm hafa þau réttarstöðu grunaðs vegna ætlaðra umboðssvika, skilasvika, mútubrota og fleiri brota sem varðað geta allt að sex ára fangelsi. Málið bíður nú þess að saksóknari ákveði hvort ákært verði í málinu.
Traustabönd
En aftur að fundinum í Arnarhváli sumarið 2017. Þar sem hann horfði til veðurs hann Lárus Blöndal. Formaðurinn, sem skilaði sannarlega Hvítbók sumarið 2018. Þar sem mikið var rætt um traust. Ekki vegna umræðnanna þennan klukkutíma sem við, ég og kollegi minn, vörðum hjá nefndinni. Heldur af því að mig grunar að flestir ef ekki allir viðmælendur nefndarinnar hafi gert það.
„Hlutverk ríkisins er að tryggja umgjörð sem stuðlar að verðskulduðu trausti. Vegna samfélagslegs mikilvægis fjármálakerfisins eru almannahagsmunir fólgnir í því að ríkið styrki umgjörðina um fjármálakerfið og dragi þannig úr óhóflegri áhættu og stuðli að því að fjármálakerfið öðlist traust,“ stendur stórum stöfum í Hvítbókinni.
Formaður Hvítbókarnefndarinnar er í dag stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins. Þar situr hann í umboði Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra; í því sem kallað er armslengdarfjarlægð frá manninum sem hann hefur stutt með ráðum og dáð í stjórnmálum.
Á dögunum fól Bjarni svo Lárusi að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem verið er að einkavæða, nú í annað sinn, eftir að hafa farið á hausinn og hafnað í fangi ríkisins, eftir brambolt í höndum kröfuhafa.
Fyrir ári síðan var fyrsti skammtur bankans seldur þegar ríflega þriðjungur af hlutafé bankans skipti um hendur í almennu hlutafjárútboði. Þó vissulega hafi verðið sem boðið var verið gagnrýnt var það svo að mörgum þótti vel takast til.
Fáum þó eins rosalega vel og Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur, sem í gegnum velgjörðarfélag sitt, 1881, og ásamt fjölmiðlinum Innherja, valdi söluna viðskipti ársins í íslensku viðskiptalífi, á miklum galadinner í upphafi árs. Við verðlaununum tóku Bjarni Benediktsson og Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka.
Þessa sama banka og kærði Svanhildi Nönnu og fjóra aðra fyrir fjölda lögbrota.
„Ríjúníon“ Rannsóknarnefndar
Þegar selja átti í bankanum nú í annað sinn í mars var hins vegar önnur leið valin. Nú átti að bjóða hlutinn hæfum fjárfestum. Fagfjárfestum. Og af því að armslengdin er mikilvæg var ákveðið að láta nokkur fjármálafyrirtæki um framkvæmdina.
Meðal hæfra fjárfesta sem keyptu af þeim Bjarna og Lárusi, voru þeir Einar Örn Ólafsson og Kári Þór Guðjónsson. Já og pabbi Bjarna. Menn sem sæta rannsókn vegna efnahagsbrota og félög tengd mönnum sem jafnvel voru gerðar húsleitir hjá degi eftir kaupin, vegna gruns um að þeir hefðu stolið eignum undan milljarða gjaldþrotum sínum. Meðal annars félaginu sem degi fyrr keypti í Íslandsbanka.
Upplýsingarnar um þennan kaupendahóp fengum við ekki frá Íslandsbanka. Ekki heldur Bankasýslunni. Og raunar ekki heldur frá fjármálaráðuneytinu sem birti lista yfir 207 kaupendur í útboðinu.
Nei, það þurfti nefnilega talsverða vinnu til að setja saman raunverulegan lista yfir þá sem fengu að kaupa í útboðinu. Listinn sem fjármálaráðuneytið birti, hráan frá söluaðilum bréfanna, þeim sömu og var eftirlátið að skilgreina hverjir mættu og hverjir ekki, innihélt ekki þær upplýsingar að hægt sé að gera eins og Bankasýslan og ráðherra hafa gert, að fullyrða um að kaupendalistinn sé góður og gildur.
Það er einfaldlega ekki hægt.
Ekki fyrr en búið er að fletta upp og rýna eignarhaldið að baki félögunum sem keyptu, er hægt að segja nokkuð til um hvort þar fari hæfir fjárfestar. Og stundum er það ekki einu sinni hægt, vegna þess að félög sem skráð eru fyrir kaupunum finnast ekki einu sinni á skrá.
Bankasýslan virðist ekki hafa af því miklar áhyggjur, frekar en öðru í þessu ferli. Enda liggur núna fyrir að stór hluti þessara fagfjárfesta allra er búinn að selja lífeyrissjóðunum bréfin sem þeir fengu að kaupa. Erlendu fjárfestingasjóðirnir sem fengnir voru að borðinu líka, rétt eins og þeir gerðu í fyrra.
Enda er það bjargföst trú þeirra Bankasýslumanna og fjármálaráðherrans, að þetta hafi barasta verið fínt. Um einhver smá atriði eins og það hverjir keyptu, vísast til trausts.
„Menn geta haft skoðanir á þeim sem koma upp á listanum en við verðum að treysta þessum fjármálafyrirtækjum,“ segir forstjóri Bankasýslunnar í úttekt Stundarinnar í dag.
Og á þá líkast til við að þegar fáir innan stjórnarflokkanna, nema ef til vill í þingflokki forsætisráðherrans, treysta sér lengur til að lýsa yfir trausti á Bankasýslunni og fjármálaráðherra í málinu, sé eins gott að leggja allt sitt traust á fjármálafyrirtækin.
Það gekk svo vel síðast.
Væri ekki snjallt að vekja áhuga erlendra fjölmiðla á nýjasta íslenska bankaráninu ?
Þar gæfist Bjarna gott tækifæri til þess að útskýra málið !!
http://herdubreid.is/hinir-osnertanlegu/
"130 milljarðar voru afskrifaðir hjá fjölskyldufyrirtækjum Bjarna Benediktssonar"
"Benedikt Sveinsson tók yfir á annað hundrað milljónir af einkaskuldum sonar síns, meðal annars vegna veðmála"
"Í miðju Hruni var Bjarni ennþá að færa stórfé úr landi til að borga fyrir fasteignabrask á Flórida"
Síðar var Bjarni Ben gerður að fjármálaráðherra í þrígang !!!