Fjárfestar sem voru skilgreindir sem fagfjárfestar og tóku þátt í útboðinu á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka eru skilgreindir sem almennir fjárfestar hjá sumum öðrum verðbréfafyrirtækjum en þeim sem sáu um útboðið. Þetta herma heimildir Stundarinnar. Ein af forsendunum fyrir því að þeir 209 aðilar sem keyptu hlutabréf í útboðinu var sú að þeir væru fagfjárfestar en ekki almennir fjárfestar.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar eru nokkrir af þeim fjárfestum sem koma fyrir á kaupendalistanum í útboðinu skilgreindir sem almennir fjárfestar hjá öðrum verðbréfafyrirtækjum en ekki sem fagfjárfestar. Mögulegt er því að skilgreiningum verðbréfafyrirtækjanna, sem komu að útboði hlutabréfanna, á viðskiptavinunum sem keypti hlutabréfin hafi verið breytt svo hægt væri að tryggja að þeir gætu keypt þau.
Listi þeirra aðila sem fengu að kaupa hlutabréfin í Íslandsbanka hefur vakið hörð viðbrögð eftir að hann var birtur í fyrradag.
Stundin hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra Bankasýslu ríkisins, til að spyrja hann um þetta atriði sölunnar á hlutabréfum. Blaðið hefur ekki náð í Jón Gunnar til að ræða við hann.
Almennir fjárfestar vs. fagfjárfestar
Öll verðbréfafyrirtæki þurfa að skilgreina viðskiptavini sem stunda hlutabréfaviðskipti samkvæmt ákveðnum reglum. Almennir fjárfestar eru þó aðilar sem ekki hafa mikla eða djúpa þekkingu á fjármálagerningum og viðskiptum með þá eða mikla reynslu af hlutabréfaviðskiptum á markaði. Verðbréfafyrirtæki þurfa að halda lista með yfirliti yfir viðskiptavini sína og hvernig þeir eru skilgreindir. Skýrar reglur eru um þetta hjá öllum verðbréfafyrirtækjum.
Hjá Kviku banka, sem tengist efni þessarar fréttar ekki beint, segir meðal annars um tilgang reglnanna: „Reglum þessum er ætlað að tryggja að Kvika banki hf. („Kvika“ eða „bankinn“) flokki viðskiptavini sína í samræmi við lög og að aðeins séu framkvæmd viðskipti sem hæfa flokkun einstakra viðskiptavina.“
Þessi skilgreining á viðskiptavinum verðbréfafyrirtækja er því mikilvæg og hún er sérstaklega mikilvæg af því þetta útboð á hlutabréfum Íslandsbanka átti bara að vera fyrir fagfjárfesta en ekki almenna fjárfesta, það er að segja „venjulegt fólk“ með litla eða enga þekkingu eða reynslu af hlutabréfaviðskiptum.
Miðað við heimildir Stundarinnar þá eru einhverjir af fagfjárfestunum á listanum sem keypti bréfin ekki fagfjárfestar á listum annarra verðbréfafyrirtækja sem ekki tengjast útboðinu.
Útboðslýsingu hefði þurft til að selja almennum fjárfestum
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir að það vakið athygli fjárlaganefndar þegar í ljós kom hversu mikið af minni fjárfestum keypti hlutabréf í útboði ríkisins. „Það kom mér á óvart hversu mikið var minni fjárfestum sem tóku þátt í útboðinu. Þess vegna fannst okkur það vera mikilvægt að listinn yrði birtur til að það lægi fyrir hvaða aðilar þetta væru. Þessi skilgreining á fagfjárfestum var mikilvæg vegna þess að ekki var farið í útboðslýsingu og slíkt. Útboðslýsingu hefði þurft fyrir almenna fjárfesta, ef þetta hefði verið venjulegt fólk með sparibaukana sína eða eitthvað slíkt.“
Haraldur segir aðspurður um hvað hann hafi haldið að margir fjárfestar fengju að taka þátt í útboðinu að hann hafi ekki verið með neina fasta ákveðna tölu í huganum. „Brotalínan í mínum huga er að við ræddum ekki fjárhæðarmörkin á minni fjárfestunum. Ég hélt sannarlega að lægstu fjárhæðirnir í útboðinu yrðu hærri. Við bjuggumst kannski ekki við 1,1 milljón og að þeir sem væru þarna með söluráðgjöf væru að kaupa sjálfir,“ segir Haraldur.
Miðað við svör Haraldar þá kom það honum á óvart hversu margir litlir fjárfestar tóku þátt í útboðinu þrátt fyrir að fjárlaganefnd hafi fengið upplýsingar um það að einhverjir minni fjárfestar kynnu að taka þátt í útboðinu.
140 minni aðilar keyptu 30 prósent bréfanna
Upplýsingarnar um að einhverjir að fjárfestunum sem keyptu í Íslandsbanka séu skilgreindir sem almennir fjárfestar hjá öðrum verðbréfafyrirtækjum eru áhugaverðar í ljósi þess hvernig salan á hlutabréfunum fór fram . Bankasýsla ríkisins kynnti í síðustu viku skýrslu um útboðið á bréfunum í Íslandsbanka. Þar kom meðal annars fram að 140 einkafjárfestar keyptu 30 prósent hlutabréfanna fyrir samtals 16,5 milljarða króna.
Athygli vakti að einkafjárfestarnir 140 keyptu hlut sem var 6,5 prósentum minni, miðað við heildarútboð á bréfunum, en 23 lífeyrissjóðir sem tóku þátt í útboðinu. Lífeyrissjóðir keyptu rúmlega 37 prósenta hluta af bréfunum en einkafjárfestirnir rúmlega 30 prósent hlut.
Samkvæmt skýrslunni var áhugi þessara einkafjárfesta og annarra kannaður með því sem kallast „markaðsþreifingar“. Það er að segja haft var samband við þá og áhugi þeirra á að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka var kannaður.
Um þessar markaðsþreifingar segir í skýrslunni: „Þegar ákvörðun liggur fyrir um að kanna áhuga fjárfesta á mögulegri þátttöku í útboði með tilboðsfyrirkomulagi er ráðist í svokallaðar markaðsþreifingar (e. market sounding). Með markaðsþreifingum er átt við formleg samskipti á milli seljanda eða útgefanda (eða ráðgjafa hans) annars vegar og hugsanlegra fjárfesta hins vegar og felur í sér könnun á áhuga viðkomandi fjárfestis á þátttöku í mögulegu útboði t.d. varðandi hugsanlegt útboðsmagn og –verð.“
Ekki er útilokað, miðað við heimildir Stundarinnar, að skilgreiningum söluaðila bréfanna á þeim einstaklingum sem markaðsþreifað var á með þessum hætti hafi verið breytt skömmu áður eða um það leyti sem hlutabréfin voru seld.
Fjármálaeftirlitið getur kallað eftir því að fá sjá þessa lista með skilgreiningum verðbréfafyrirtækjanna sem um ræðir á þeim viðskiptavinum þeirra sem keyptu hlutabréfin. Þar mun meðal annars koma fram hvort og þá hvenær skilgreiningunum á viðskiptavinunum, „fagfjárfestunum“ sem keyptu hlutabréfin var breytt úr „almennum fjárfestum“.
Stundin hefur ekki náð tali af Sigurði Valgeirssyni, upplýsingafulltrúa FME, til að spyrja hann um málið og hvort stofnunin hafi kallað eftir þessum listum um skilgreiningu fjárfesta hjá fyrirtækjunum sem sáu um útboðið.
Athugasemdir (1)