Ef hið óhugsandi gerist, hver á þá flestar kjarnorkusprengjur?
Kjarnorkusprengjum hefur fækkað mjög í vopnabúrum helstu stórveldanna síðustu áratugi. En vonandi fækkar þeim brátt enn meira og hverfa loks alveg.
Kjarnorkueldflaug til sýnis á Rauða torginu 2020.Af einhverjum ástæðum þykir sumum herveldum nokkuð í það spunnið að sýna styrk sinn með því að flagga kjarnorkusprengjunum.
Í fyrsta sinn í langan tíma þarf fólk að gera ráð fyrir þeim möguleika að kjarnorkustyrjöld kunni að brjótast út. En hvernig er staðan í vopnabúrum stórveldanna þegar kemur að þessum ægilegu vopnum?
Á vefsíðunni Visual Capitalist var fyrir skömmu birt myndræn útfærsla á fjölda kjarnorkuvopna allt frá 1945 (sjá hér) þegar fyrstu vopnin af þessu tagi voru fullgerð. Upplýsingarnar eru komnar frá Federation of American Scientists og eru áreiðanlega harla marktækar.
Engin tilraun er gerð í þessum útreikningi til að meta spengimagn eða aðra eiginleika kjarnorkusprengjanna, það er fjöldinn einn sem allt snýst um hér.
1949tókst Sovétmönnum að smíða sína fyrstu atómbombu en þá höfðu Bandaríkjamenn þegar smíðað 181 sprengju.
1953hafði heldur betur verið gangur í sprengjusmíði Bandaríkjanna og Sovétmenn höfðu smíðað rúmleg 120 á fjórum árum. Og nú komu Bretar til sögu líka.
1963eða árið þegar kjarnorkustríð hafði nærri brotist út vegna Kúbudeilunnar. Bandaríkjamenn áttu átta sinnum fleiri vopn en Sovétmenn. Vopnum Breta hafði fjölgað ört á þessum áratug og Frakkar og Kínverjar voru komnir til skjalanna.
1967hafði hægst mjög á fjölguninni hjá Bandaríkjamönnum, enda vandséð hvað þeir höfðu yfirleitt að gera við meira en 30 þúsund kjarnorkusprengjur. Þetta var ár sex daga stríðsins og Ísrael var orðið kjarnorkuveldi þótt alltaf hafi verið ógurleg leynd yfir kjarnorkuvopnasmíði þeirra.
1978hafði vopnum Bandaríkjamanna fækkað töluvert í nokkur ár en Sovétmenn höfðu verið óstöðvandi í bombusmíðum og voru komnir fram úr Bandaríkjamönnum í hinu óskemmtilega kjarnorkuvopnakapphlaupi. Stöðugar viðræður um takmörkun vopnanna höfðu lítið að segja.
Hér ber svo að geta þess að Indverjar prófuðu kjarnorkusprengju 1974 en síðan varð nokkur bið á áframhaldandi smíði hjá þeim.
1984hélt æðið áfram, Bandaríkjamenn héldu í horfinu en Sovétmenn smíðuðu sprengjur sem aldrei fyrr. Og hvítir Suður-Afríkumenn í heljargreipum óttans við svarta meirihlutann barði saman nokkrar sprengjur til að eiga upp í erminni.
1986virðist hafa verið metárið — og full ástæða til að þeir Reagan og Gorbatsjov hittust í Reykjavík til að reyna að hafa hemil á smíðinni. Nærri 64.500 sprengjur (!) og þar af áttu Sovétmenn nærri tvo þriðju.
1991eða við hrun Sovétríkjanna hafði sprengjum þeirra þegar fækkað mikið og sprengjum Bandaríkjamanna reyndar líka. Og vopn Suður-Afríkumanna höfðu blessunarlega verið tekin sundur.
1998hafði vopnunum fækkað heilmikið. Rússland hafði tekið við kjarnorkusprengjunum sem staðsettar voru í öðrum fyrrverandi Sovétlýðveldum, þar á meðal Úkraínu, og í staðinn átti Úkraína að fá öryggi undan Rússum. Prívat vopnakapphlaup var nú hafið á Indlandsskaga og nágrenni.
2014 hafði vopnunum enn fækkað mikið og Bandaríkin og Sovétríkin áttu nærri jafnmargar sprengjur. En nýtt kjarnorkuveldi var komið til sögu - Norður-Kórea!
Í fyrravar ástandið einhvern veginn svona. Rússar eiga sýnu fleiri sprengjur en ekki munar þó miklu. Og sprengjurnar í heild eru komnar undir 10.000 í fyrsta sinn síðan 1958!
Og svo er bara að vona að ekkert þessara 9.440 vopna verði nokkru sinni notað.
— — —
Fyrstu árin eftir að kjarnorkuvopn komu til sögu þótti Bandaríkjunum ástæða til að hreykja sér af þeim og tilvist þeirra í vopnabúri þeirra. Hér má sjá snotra köku sem bökuð var í tilefni af kjarnorkutilraunum árið 1946.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Almenningur hefur viðhaldið Stundinni og Kjarnanum með áskriftum og styrkjum síðan 2013. Með því að kaupa áskrift að Heimildinni styrkir þú sjálfstæða rannsóknarblaðamennsku.
Athugasemdir