Hvalur hf. mun að öllum líkindum veiða hvali í sumar í fyrsta skipti frá árinu 2018. Annað af hvalveiðiskipum félagsins, Hvalur 9, er nú í slipp í Reykjavíkurhöfn. Stöðvarstjóri hvalstöðvar fyrirtækisins í Hvalfirði, Gunnlaugur Gunnlaugsson, segir óljóst hvenær verði farið í fyrsta túrinn. „Það hefur ekkert verið ákveðið neitt hvenær við förum. Þetta er allt í skoðun bara. Það er ýmislegt í deiglunni,“ segir Gunnlaugur.
Hvalveiðar Íslendinga, eða nánar tiltekið hvalveiðar Hvals hf., hafa vakið talsverða athygli í gegnum tíðina þar sem veiðarnar virðast ekki vera arðbærar út frá ársreikningum fyrirtækisins. Kostnaðurinn við veiðarnar er meiri en hagnaðurinn af þeim.
„Það þarf að hafa hann í standi ef til kemur“
Þá hefur verið andstaða við þessar veiðar Íslendinga verið nokkur hér á landi sem og í alþjóðasamfélaginu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur meðal annars lýst yfir efasemdum um veiðarnar í viðtali við Stundina: „Ég hef haft miklar efasemdir um að veiðar á langreyðum við Íslandsstrendur geti talist sjálfbærar út frá umhverfis-, samfélagslegum og efnahagslegum sjónarmiðum. Þá hef ég einnig efasemdir um að veiðiaðferðirnar uppfylli þær kröfur sem við gerum um velferð dýra.“ Árið 2014 gagnrýndi Barack Obama, þáverandi forseti Bandaríkjanna, til dæmis Ísland fyrir þessar veiðar.
Eina fyrirtækið sem ennþá stundar hvalveiðar á Íslandi er Hvalur hf. Þrátt fyrir þessa andstöðu og fjárhagslegt tap af hvalveiðunum þá hefur forstjóri Hvals hf., Kristján Loftsson, viljað halda veiðunum áfram. Kristján verður 80 ára gamall á næsta ári.
Ekkert veitt út af Covid
Aðspurður um hvort Hvalur 9 sé ekki í slipp til að gera skipið sjófært fyrir sumarið segir Gunnlaugur. „Það þarf að hafa hann í standi ef til kemur. Annars er það bara Kristján sem veit þetta allt,“ segir Gunnlaugur.
Gunnlaugur segir að það sem mæli með því að fara núna sé að Covid-faraldurinn sé að mestu yfirstaðinn öfugt við í fyrra og hitteðfyrra þegar skip Hvals hf. héldu ekki til veiða. „Það var náttúrulega Covid í fyrra og árið þar á undan og ekkert hægt að gera.“ Aðspurður um birgðastöðuna í hvalkjötinu segir Gunnlaugur. ,,Það er engin birgðastaða hjá okkur, það er lítið sem ekkert kjöt til," segir hann en hvalkjöt fyrirtækisins er selt til Japan sem eru ein af fáum þjóðum í heiminum þar sem hvalkjöt þykir herramannsmatur.
Stundin hefur gert árangurslausar tilraunir til að ná tali af Kristjáni Loftssyni til að spyrja hann út í málið.
Sextán ára saga
Hvalur hf. hóf aftur hvalveiðar árið 2006 eftir 20 ára langt hvalveiðibann. Þegar fyrsta langreyðurin kom til hafnar 2006 voru teknar myndir af Kristjáni Loftssyni og Einari Kristni Guðfinnssyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra, þar sem þeir stóðu glaðir yfir dýrinu. Kristján sást snerta skrokk hvalsins á nokkrum myndum og haft eftir honum að þetta væri stór stund: „Þetta er stund sem ég hef beðið eftir lengi.“
Síðan þá hefur Hvalur stundum veitt langreyði og stundum ekki. Árið 2016 ráðgerði Kristján til dæmis að hætta veiðunum alveg vegna þess hversu þungt í vöfum embættismannakerfið í Japan væri. Allar hvalaafurðir Hvals eru seldar þangað. Kristján fór ekkert að veiða sumarið 2016 vegna þessa. „Við höfum bara verið í viðhaldsstörfum og verðum áfram fram í júní. Svo hættum við þessu bara, ef ekkert breytist hjá þeim í Japan. Embættismannakerfið í Japan er bara þannig að þeir þora ekki að breyta neinu. Stjórnmálamenn ráða nær engu í Japan, því það er embættismannakerfið sem stjórnar landinu,“ sagði Kristjan þá.
Hvalur hf. hefur heimild til að veiða hvali nú í sumar og á næsta ári og getur nýtt sér þá heimild ef vilji stendur til. Eftir sumarið 2023 þurfa stjórnvöld svo að ákveða hvort hvalveiðar verði heimildar áfram eða ekki.
Þessum forna sið, sem án nokkur minnsta efa má nú kalla algjöran ósið og í raun siðlausan glæp gegn móður Náttúru, verður að kasta endanlega fyrir róða í eitt skipti fyrir öll. Hættum þessum viðbjóðslegu drápum á hvölum. Ef við gerum það ekki þá erum við að fremja glæpi sem munu fylgja sögu þjóðarinnar, allt til enda, okkur til ævarandi skammar.