Verulegrar óánægju gætir hjá foreldrum iðkenda knattspyrnu hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar, FH, sökum þess að Eggert Gunnþór Jónsson sé og hafi verið meðal þjálfara í yngri flokkum félagsins. Eggert Gunnþór var kærður á síðasta ári, ásamt Aroni Einari Gunnarssyni fyrrverandi fyrirliða karlalandsliðsins í knattspyrnu, fyrir að hafa nauðgað konu í Kaupmannahöfn árið 2010.
Samkvæmt því sem foreldrar sem Stundin hefur rætt við var Eggert Gunnþór einn þjálfara yngri flokka FH í knattspyrnu, bæði eftir að greint var frá ásökunum á hendur honum áður en kæra var lögð fram en einnig eftir að lögreglukæra var lögð fram á hendur Eggerti Gunnþóri.
Foreldri barns sem æfir með FH sendi erindi á formann Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), Vöndu Sigurgeirsdóttur, í lok síðasta árs þar sem óskað var svara um afstöðu KSÍ til starfa Eggerts Gunnþórs sem þjálfara, í ljósi þess að fyrir lá kæra á hendur honum fyrir kynferðisbrot. Svar við því erindi barst ekki fyrr en 20. janúar síðastliðinn. Í október á síðasta ári, þegar Vanda var kjörin formaður KSÍ á aukaþingi sambandsins, var hún sérstaklega spurð að því hvort fólk sem sakað hefði verið um ofbeldisbrot mætti leika með landsliðum KSÍ. Svaraði Vanda því til að hún teldi að fólk ætti að víkja ef mál sem þeim tengjast væru til skoðunar hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Engin svör frá KSÍ
Í ljósi þess að ekkert svar hafði borist frá KSÍ sendi sama foreldri erindi á Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, í byrjun árs þar sem liðsinnis hennar var óskað. Sigurbjörg sendi erindi til stjórnar og siðanefndar FH 5. janúar síðastliðinn þar sem lagðar voru fram spurningar um stöðu Eggerts Gunnþórs; hvernig á því stæði að hann væri ekki látinn stíga til hliðar á meðan kæra á hendur honum fyrir kynferðisbrot væri til rannsóknar hjá lögreglu.
„Félagið mun ekkert aðhafast fyrr en framkvæmdastjórn ÍSÍ kemur með skýrt vinnuferli varðandi mál sem þessi“
Svar við því erindi barst loks síðastliðinn mánudag, eftir nokkra eftirgangssemi, frá Elsu Hrönn Reynisdóttur framkvæmdastjóra FH.
„Aðalstjórn FH ásamt formanni Siðanefndar FH hefur á undanförnum vikum og mánuðum fjallað um og skoðað mál Eggerts Gunnþórs Jónssonar, hvað skal gera og þá einnig hvað við getum gert.
Niðurstaða okkar er sú að félagið mun ekkert aðhafast fyrr en framkvæmdastjórn ÍSÍ kemur með skýrt vinnuferli varðandi mál sem þessi í framhaldi af vinnu starfshóps þeirra. Að sögn framkvæmdastjóra ÍSÍ eru niðurstöður vinnuhópsins væntanlegar nú í mars.“
Málið komið til ákærusviðs
Greint var frá því að í lok febrúar síðastliðins að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði lokið rannsókn á máli þeirra Eggerts Gunnþórs og Arons Einars. Málið væri komið til ákærusviðs lögreglunnar. Ekki hafa borist upplýsinga um hvers er að vænta varðandi framhald málsins.
Í frétt Stundarinnar 22. október á síðasta ári kom fram að Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH, hefði verið upplýstur um ásakanir á hendur Eggerti Gunnþóri þegar síðastliðið sumar. FH brást ekki við þeim upplýsingum með þeim hætti að setja Eggert Gunnþór til hliðar.
Spurður hvort hann teldi eðlilegt að senda leikmann í leyfi ef mál væri til rannsóknar á hendur honum sagði Viðar að gera þyrfti félaginu formlega viðvart um að slík rannsókn væri í gangi. „Lögreglan verður þá að láta mig vita. Það er enginn búinn að láta okkur vita, ekki samskiptaráðgjafi, ekki lögreglan. Hver annar ætti að láta okkur vita? [...]„Ef slík tilkynning bærist myndi félagið setja málið strax í ferli í samráði við samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.“
Upplýst var í fjölmiðlum að lögregla hefði tekið mál Eggerts Gunnþórs og Arons Einars til rannsóknar í september á síðasta ári, áður en að samskipti Stundarinnar við Viðar fóru fram.
Athugasemdir (1)