Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Mennirnir sem viku vegna ásakana

Á síð­ast­liðnu ári hafa fjöl­marg­ir menn vik­ið í kjöl­far ásak­ana um kyn­bund­ið of­beldi. Hverj­ir eru þess­ir menn, hvað voru þeir sak­að­ir um og hvað varð þess vald­andi að þeir ann­að­hvort viku sjálf­ir eða misstu stöðu sína vegna þess?

Mennirnir sem viku vegna ásakana

Á síðustu tólf mánuðum hefur að minnsta kosti 31 nafngreindur karlmaður sagt af sér, verið vikið frá störfum, stigið til hliðar, verið hafnað í ábyrgðarstöður og landsliðsverkefni eða verið afbókaðir úr verkefnum vegna ásakana á hendur þeim um ósæmilega hegðun, áreitni, kynbundið ofbeldi eða kynferðisbrot. Hið sama má segja um í það minnsta þrjá aðra karlmenn, sem ekki hafa verið nafngreindir enn sem komið er. Svo virðist sem viðhorfsbreyting sé orðin í málum af þessu tagi en hvort sú breyting muni endast eða hafa áhrif til langrar framtíðar er enn óvíst.

Mestur fjöldi slíkra mála hefur risið frá því að nýjasta bylgja #MeToo mála hófst hér á landi í maí á síðasta ári, með máli Sölva Tryggvasonar fjölmiðlamanns. Eitt nýjasta dæmið um karlmann sem uppvís hefur orðið að ósæmilegri hegðun af þessu tagi er Einar Hermannsson sem vék sem formaður SÁÁ með yfirlýsingu um að hann hefði gerst sekur um að svara vændisauglýsingu, þegar Stundin upplýsti að hann hefði á árunum 2016 til 2018 keypt vændi af konu sem var og er skjólstæðingur samtakanna.

Frásagnir af ofbeldi og ósæmilegri hegðun hafa þó ekki í öllum tilfellum haft afleiðingar, utan umtals og í sumum tilfellum ærumissis fyrir þá karlmenn sem um ræðir. Þannig eru þess að minnsta kosti þrjú dæmi að sagt hafi verið frá ásökunum um ofbeldi af hálfu nafngreindra karlmanna án þess að þeir hafi þurft að sæta ábyrgð með því að missa stöðu sína eða status.

Dæmi um slíkt eru til að mynda knattspyrnumaðurinn Eggert Gunnþór Jónsson, en mál hans var til rannsóknar hjá lögreglu, og tónlistarmaðurinn Megas, sem var sömuleiðis kærður til lögreglu. Frásagnir af framferði þeirra hafa að því er best er vitað ekki haft verulegar afleiðingar fyrir þá. Umræða myndaðist á Alþingi Íslendinga um réttmæti heiðurslauna Megasar en ákveðið var að hann héldi þeim þrátt fyrir frásögn Bergþóru Einarsdóttur af háttsemi hans. Þá var formaður Flokks fólksins upplýst um sögur af ofbeldi sem frambjóðandi flokksins hefði beitt en formaðurinn, Inga Sæland, kaus að aðhafast ekkert vegna þessa.

Mennirnir sem um ræðir, þeir sem hafa þurft að víkja, hafa allir verið í áhrifastöðum af ýmsu tagi, hver í sínum geira. Er um að ræða framámenn í viðskiptalífinu, í íþróttum, listum og fjölmiðlum, auk annars. Ýmist er um að ræða valdamikla menn eða áhrifamikla, í sumum tilfellum vellauðuga einnig. Hér verður ekki fjallað um menn sem hlotið hafa dóma vegna fyrrgreindrar hegðunar heldur einvörðungu um menn sem hafa vikið eða orðið að víkja vegna þess að frásagnir um hegðun þeirra urðu opinberar.

Stundin gerði tilraunir til að ná sambandi við flesta mannanna sem hér eru til umfjöllunar, ýmist símleiðis, í tölvupósti eða með skilaboðum. Í fæstum tilfellum svöruðu mennirnir. Þar sem við á verður greint frá viðbrögðum þeirra.

Sendi óviðeigandi skilaboð

Leifur S. Garðarson

  • Hvenær: Byrjun árs 2020
  • Ásökun sett fram: 27. janúar 2021
  • Afleiðingar: Tekinn af dómaraskrá KKÍ í byrjun árs 2020. Fór í ótímabundið leyfi sem skólastjóri Áslandsskóla í febrúar 2021 og hætti þar 1. apríl sama ár.

Í janúar á síðasta ári var greint frá því að körfuknattleiksdómarinn Leifur S. Garðarsson hefði verið tekinn af dómaraskrá Körfuknattleikssambands Íslands eftir að hafa orðið uppvís að því að senda óviðeigandi skilaboð til leikmanns í meistaraflokki kvenna. Leikmaðurinn kvartaði til Körkuknattleikssambandsins vegna skilaboðanna. Í samtali við Mannlíf þann 27. janúar í fyrra sagði Hannes Jón Jónsson, formaður sambandsins, að um leið og málið hefði komið upp hefði nafn Leifs verið tekið út af niðurröðun dómara á leiki og hefði hann ekki dæmt á vegum KKÍ í rúmt ár. „Við líðum enga svona hegðun,“ var haft eftir Hannesi.

Leifur, sem einnig var skólastjóri Áslandsskóla í Hafnarfirði, var sendur í ótímabundið leyfi frá störfum sínum þar í febrúar vegna málsins. Hann lét af störfum sem skólastjóri 1. apríl síðastliðinn, að eigin ósk.

Hafnað af flokksfélögum

Ágúst Ólafur Ágústsson

  • Hvenær: Sumarbyrjun 2018
  • Ásökun sett fram: 7. desember 2018
  • Afleiðingar: Vék tímabundið af þingi eftir áminningu trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar í desember 2018. Náði ekki einu af efstu sætunum á lista Samfylkingarinnar og tók ekki sæti á listanum í janúar 2021.

Í janúar fór fram uppstilling á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir alþingiskosningar sem fóru fram á síðasta ári. Haldin var skoðanakönnun meðal félaga í flokknum í desember árið 2020 sem meðal annars var stuðst við þegar stillt var upp á lista flokksins. Í þeirri skoðanakönnun náði Ágúst Ólafur Ágústsson, sitjandi þingmaður, ekki einu af efstu sætunum.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (6)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • ÁHG
    Árni Hafþór Guðnýjarson skrifaði
    Af hvaða ástæðu er Orra Páls Dýrasonar ekki getið í þessari grein er hér einungis skrifað um þá er brjóta af sér innanlands,má brjóta erlendum konum er um vina tengsl milli stundarinnar og eigin konu Orra eða hvaða önnur ástæða er fyrir þessu?
    -1
    • Lukka Sigurdardottir Mermer skrifaði
      Einmitt, en það var ekki tilfellið í máli Gylfa Þórs Sigurðssonar, hans brot á sér stað á Englandi. Og ekki er það orðið "of gamalt" þar sem greinin fjallar líka um brot Egils Einarssonar. Svo mig grunar illilega þessi vinatengsl sem þú nefnir. Hann virðist vera yfir þessa umfjöllun hafinn. Hér er enn eitt dæmið um gerendameðvirkni og það af hálfu Stundarinnar. Orðatiltækið um Jón og Séra Jón á víst vel við hérna.
      -1
    • Lukka Sigurdardottir Mermer skrifaði
      María Lilja sambýliskona Orra vann á Stundinni við pistlaskrif þar til metoo bankaði uppá á heimili þeirra. Það virðist að minnsta kosti vera líklegri kostur en yfirsjón af hálfu greinarhöfundar.
      -1
    • Emm Ell Ká skrifaði
      Já einmitt. Hér er augljóslega konu sem hefur ekkert með þetta mál að gera, um að kenna. Flott vegferð hjá þér Steinunn Lukka. Kemur svo augljóslega frá réttum stað.
      5
  • Elín Kona Eddudóttir skrifaði
    Takk fyrir þessa góðu og þörfu umfjöllun.
    1
  • Kristín Sólveig Bjarnadóttir skrifaði
    Takk Freyr Rögnvaldsson og Stundin. Væntanlega þarf framhaldsgrein síðar.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Viku vegna ásakana

„Það er ekki endilega fengur að því að fá þessa menn aftur“
GreiningViku vegna ásakana

„Það er ekki endi­lega feng­ur að því að fá þessa menn aft­ur“

„Ekk­ert af þessu er þannig að þol­andi sé ein­hvers stað­ar að poppa kampa­víns­flösku,“ segja sér­fræð­ing­ar um þá þró­un að sí­fellt fleiri karl­menn víkja vegna ásak­ana um óá­sætt­an­lega fram­komu gagn­vart kon­um. Alls hafa 31 nafn­greind­ir menn þurft að sæta af­leið­ing­um á síð­asta ári, en leið­in til baka velt­ur á við­brögð­un­um og þarf að ger­ast í sam­ráði við þo­lend­ur.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár