Vladimir Pútín er ekki genginn af göflunum. Hann er sennilega ekki með heilakrabbamein, þrátt fyrir orðróm um annað og getgátur misspakra geðlækna og áhugafólks um sálfræði forsetans í fjölmiðlum. Slíkar vangaveltur dreifa aðeins athyglinni frá hinni lykilstaðreynd að frá sjónarhóli Rússa eru gjörðir harðstjórans aðeins hluti af rökréttri atburðarás.
Þeir sem fá sínar fréttir frá rússneskum fjölmiðlum líta margir á gjörðir Pútíns sem fullkomlega eðlilegar. Samkvæmt rússneskum fréttum eru herdeildir þeirra að frelsa Úkraínumenn undan oki nasista og bjarga íbúum Donbass frá þjóðarmorði Úkraínumanna.
Samkvæmt hinni óháðu stofnun Levada Analytical Center segjast 68% aðspurðra Rússa jákvæðir út í „sérstöku hernaðaraðgerðirnar“ eins og þær eru jafnan kallaðar þar í landi. Hver myndi ekki vera sama sinnis ef þeir tryðu að strákarnir þeirra væru að berjast fyrir svo göfugan málstað? Flestir fá jú upplýsingar sínar fá ríkisfjölmiðlum Rússlands. Fyrir Vesturlandabúum hljóma réttlætingarnar á stríðinu í Úkraínu órökréttar þar sem ekkert þjóðarmorð hefur átt sér stað á Rússum búsettum í Úkraínu og Zelensky forseti, sem var kjörinn í frjálsum kosningum, er sjálfur gyðingur. Það var engin lögmæt ástæða til innrásar samkvæmt alþjóðalögum.
„Í Sovétríkjunum voru Eistar flokkaðir sem ribbaldar og þjóðernissinnar“
Þetta hljómar mér allt mjög kunnuglega þar sem foreldrar mínir bjuggu við nákvæmlega sama áróður í Sovétríkjunum. Fyrir foreldrum mínum er málið flóknara þar sem við erum eistnesk að uppruna og þjóðerni. Þegar leiðtogar Sovétríkjanna fluttu inn fólk frá Rússlandi til Eistlands voru hinir nýju gestir gjarnir á að kalla innfædda fasista og varð það í raun annað nafn fyrir Eistlending í þeirra augum. Í Sovétríkjunum voru Eistar flokkaðir sem ribbaldar og þjóðernissinnar. Alveg eins og rússneskir fjölmiðlar segja um Úkraínumenn í dag. Ef yfirvöld, skólakerfið, fjölmiðlar og dómskerfið endurtaka sömu lygar kynslóðum saman byrjar áróðurinn að verða viðurkenndur sannleikur.
Rússar þurftu aldrei að gera upp fortíðina á sama hátt og Þjóðverjar gerðu eftir fall Þriðja ríkisins. Því lifa gamlar kreddur. Og það var auðvelt að endurvekja þær til að búa til óvininn sem Pútín þurfti til að styðja stríðsrekstur sinn. Að misnota minningu helfararinnar hjálpaði þessum málstað hans.
Ég varð sjálf vitni að þessari taktík þegar Eistland varð fyrir margvíslegum árásum árið 2007. Þau okkar sem vorum að skrifa um söguna sem lá að baki hersetu Eistlands urðum að venjast því að ljósmyndir af okkur gengu á meðal manna á netinu þar sem var búið að setja nasistamerki og hakakrossa á okkur og við kölluð fasistar og nasistar.
Stuðningsfólk Pútíns gekk um götur með spjöld með myndum af okkur þar sem var búið að krota merki SS-sveita nasista yfir okkur, þetta var á útifundum. Í Finnlandi voru Pútínistar sem lýstu yfir endalokum sjálfstæði Eistlands, afneituðu brottflutningum Sovétmanna á sínum tíma og stóðu fyrir mótmælum gegn Eistlandi. Fyrir utan víðtæka herferð þeirra á samfélagsmiðlum gáfu þeir út bækur á prenti, héldu ráðstefnur og notuðu alltaf helförina og nasista til að útmála okkur sem sambærilegan óvin, myndir af fangabúðum og girðingum og gaddavír.
Vegna þessarar áróðursherferðar tóst að dreifa lygum um meinta aðskilnaðarstefnu í Eistlandi um allan heim. Hvar sem Pútínistar koma saman á netinu endurtaka þeir skilaboðin að Eistar séu að reisa einangrunarbúðir fyrir rússneskumælandi fólk í landinu.
Eistneskir og finnskir blaðamenn hreinlega hlógu að þessum fáránlegu ásökunum en rússneskir fjölmiðlar hikuðu ekki við að taka viðtöl við fólk sem dreifði svona ásökunum út í loftið.
Í byrjun náðu þessar lygar þó fótfestu í okkar eigin fjölmiðlum af því að Vesturlönd höfðu ekki enn áttað sig á lygum Rússa hvað þetta varðar, þessi tuttugustu og fyrstu aldar áróðurstækni var okkur og Finnum framandi. Fáir fordæmdu gjörðir Pútínista, þrátt fyrir að afneitun á þjóðarmorði gegn Eistum sé hæglega hægt að bera saman við að afneita helförinni og nasismi hefur aldrei verið hluti af eistneskri hefð.
Á meðan fyrsta eistneska lýðveldið stóð var staða gyðinga í landinu góð en auk yfirvalds Rússa þurfti þjóðin einnig að búa undir hersetu þýskra nasista um tíma. Noregur, Danmörk og Frakkland eru líklegast einu löndin sem Þjóðverjar hersátu án þess að Pútín haldi því fram að nasismi hafi þar grafið um sig til lengri tíma – önnur lönd sem Þjóðverjar réðu yfir um tíma virðast enn lituð af fasisma samkvæmt honum.
Tilraunabrölt sem Rússar stóðu fyrir í Eystrasaltsríkjunum voru prófsteinn á hvernig vestrænar þjóðir myndu bregðast við og komust Kremlverjar að þeirri niðurstöðu að misnotkun á orðræðu um þjóðarmorð fór aðallega fyrir brjóstið á vestrænu fólki sem svo vildi til að gæti rekið ættir sínar til Austur-Evrópu, frekar en hinum almenna Vesturlandabúa.
„Með afskiptaleysi sínu tókst vesturveldunum að sannfæra Pútín um að orðræða hans um Rússland og nágrenni væri ásættanleg“
Skal þá einhvern undra að Pútín hafi búist við að svipaðir lygar myndu virka á Úkraínu árið 2022? Með afskiptaleysi sínu tókst vesturveldunum að sannfæra Pútín um að orðræða hans um Rússland og nágrenni væri ásættanleg. Í lok febrúar kvartaði Úkraína til Alþjóðlega glæpadómstólsins undan tilraunum Rússa til að grafa undan sannleikanum um helförina og nota það sem yfirskin til innrásar.
Rangar fullyrðingar rússneskra ráðamanna er aðhlátursefni margra á Vesturlöndum en ættingjar mínir hafa ekki efni á að hlæja þar sem þau muna þegar bannað var með lögum að andmæla opinberum lygum ráðamanna. Rétt eins og í Rússlandi Pútíns í dag.
Í Sovétríkjunum var eistnesk þjóðernishyggja talin merki um andstöðu við kommúnistabyltinguna og því ólögleg. Þeir sem voru handteknir fyrir slíkar sakir voru líka stundum sendir á geðspítala og greindir sem „silalegir geðklofar“ eins og það var þá kallað. Til að vera lokaður inni fyrir þær sakir var nóg að sýna stuðning við þjóðir sem höfðu verið leystar upp eða að nota merki þeirra að fána, eða gera athugasemdir við lögmæti hersetu Sovétmanna. Einnig var bannað að dreifa upplýsingum um leynilegan hluta Molotov-Ribbentrop samningsins frá sínum tíma. [Þegar Stalín samdi við Hitler um skiptingu Evrópu áður en Sovétmenn urðu fyrir innrás nasista.]
„Ættingjar mínir hafa ekki efni á að hlæja þar sem þau muna þegar bannað var með lögum að andmæla opinberum lygum ráðamanna“
Eina þjóðernisástin sem þótti eðlileg var að elska Sovétríkin. Í áróðri Pútíns er þjóðerniskennd Úkraínumanna eitthvað sem hann þarf sem messías að hreinsa þá og lækna af til að þeir geti aftur orðið heilbrigður hluti af slavnesku fjölskyldunni.
Að útmála Úkraínumenn sem þjóðernissinna er mikilvægt fyrir Pútín af því að orðið hefur álíka neikvæða merkingu í eyrum margra Rússa og hugtakið nýnasisti í til dæmis norrænum löndum. Með ófrægingarherferð sem slíkri er hægt að beita tungumáli til að gera andstæðinginn ómennskan, sem gerir auðveldara að drepa hann og eyðileggja heimili hans og yfirtaka land hans – allt siðferðisleg vandamál sem þá eru úr sögunni. Í raun á fórnarlambið skilið hvernig fer fyrir honum. Fræ ofsókna finna alltaf frjóan jarðveg þegar ákveðinn hópur er skilgreindur sem ómennskur.
Það má líka hæglega finna dæmi um mismunun gegn Úkraínumönnum frá tímum keisaradæmis Rússlands. Nikolai Gogol, í dag virtur rithöfundur sem fæddist inn í Úkraínu-mælandi fjölskyldu, þurfti að berjast lengi til að öðlast virðingu rússneskra kollega sinna. Tveimur öldum síðar fór kollegi minn í blaðamennsku á blaðamannafund um Gogol þar sem spurningum hennar á úkraínsku var svarað eins og hún væri illa gefin – og henni alltaf svarað á rússnesku. Svipaðar spurningar á ensku fengu hins vegar góðan hljómgrunn þeirra Rússa sem héldu fyrirlesturinn.
„Með ófrægingarherferð sem slíkri er hægt að beita tungumáli til að gera andstæðinginn ómennskan, sem gerir auðveldara að drepa hann og eyðileggja heimili hans og yfirtaka land hans“
Að útrýma rasisma hefur aldrei verið markmið Rússa, engin hefð er fyrir slíku þar. Sovétríkin voru að nafninu til gegn rasisma en beindu fyrst og fremst slíkri gagnrýni gegn Bandaríkjunum.
Hin hrokafulla framkoma Rússa (sem líta á sig sem drottnara) í garð Úkraínumanna kann að hafa hjálpað þeim síðarnefndu í stríðinu þrátt fyrir allt. Rússar bjuggust ekki við að Úkraínumenn gætu sýnt slíka mótspyrnu, en það fór á annan veg.
Það sem kalla mætti bísanskt tilkall Rússa fyrr á öldum til yfirráða var erft af Sovétríkjunum, sem réttlætti hersetu Eystrasaltsríkja með því að þeir væru að frelsa innfædda frá fasistum, þrátt fyrir að gengið hafi verið frá landamærum ríkjanna í Molotov-Ribbentrop sáttmálanum.
Meira að segja þessi goðsögn um frelsun landsins var notuð til að styrkja baráttuvilja hermanna gegn Finnum í vetrarstríðinu árið 1939, þeir væru að berjast við nasista og valdaræningja!
Og nú hefur Rússland Pútíns, sem fylgir stríðstilskipunum Stalíns, tekið upp þessi sömu nánast trúarlegu rök til réttlætingar innlimunar. Samkvæmt Stalín snerist réttlátt stríð um að frelsa en ekki leggja undir sig. Í Sovétríkjunum sá skólakerfið til þess að kynslóð eftir kynslóð ólst upp í þeirri trú að árásir Rússa og herseta hafi verið réttlátur málstaður.
Á síðasta áratug síðustu aldar leyfði menntakerfið fleiri röddum að heyrast varðandi söguna en Pútín-tímabilið hefur fært okkur aftur til þess tíma sem sagan var endurskrifuð og nú er aftur búið að þrengja að pólitískri umræðu. Að gera athugasemdir við hina opinberu útgáfu af frelsisstríðinu mikla gegn Þýskalandi er nú orðið ólöglegt á ný og í mars setti rússneska þingið strangar reglur um hvernig fjölmiðlar mættu fjalla um stríðið í Úkraínu. Raunar er nú alveg bannað að kalla stríðið sínu rétta nafni eða tala um árás Rússa. Þeir fjölmiðlamenn sem kalla þetta innrás eða stríð geta átt yfir höfði sér fimmtán ára fangelsi. Þá er bannað að styðjast við aðrar heimildir en sjálf rússnesk yfirvöld við fréttaflutninginn.
Í Sovétríkjunum var námsefni og söguskoðun einsleit og stjórnað af ríkinu. Nýtt áróðursefni var sífellt í framleiðslu og áratugum saman mátti sjá ný myndskeið af börnum að gefa sovéskum hermönnum blóm. Þegar Rússar innlimuðu Krímskaga mátti sjá nánast eins myndir úti um allt. Það er ekki skrýtið að Pútín hafi búist við svipuðum viðbrögðum í Úkraínu, sem leiddi til þess að hann steig á eigin jarðsprengju. Hans eigin lygar hafa sannfært hann sjálfan – hann trúir þeim. Þetta er nákvæmlega það sem gerist þegar þú hlustar á eigin falsfréttir of lengi án þess að leita til annarra sjónarhorna eða miðla.
Áður en stríðið hófst var nokkuð frjálst flæði upplýsinga á milli landanna sem hafði ekki áhrif á álit Rússa á Úkraínu. Yngri kynslóðir notuðu internetið grimmt til að afla frétta handan landamæranna. Hin óháða rannsóknarstofnun Levada Analytical Center segir að þeir yngri hafi mest sótt í netið en orðræða þeirra hafi verið mest sú sama og þeirra sem eldri voru. Hvað kom til að yngri kynslóðir, með betri tengingu við umheiminn, virtust ekki setja spurningarmerki við áróður yfirvalda sem hefði verið hægt að hrekja á netinu?
„Ef það er einfaldlega hættulegt að gera athugasemdir við pólitískt landslag og stríð reyna foreldrar að letja börn sín til að taka þátt í pólitískri umræðu“
Ein ástæðan er að ef það er einfaldlega hættulegt að gera athugasemdir við pólitískt landslag og stríð reyna foreldrar að letja börn sín til að taka þátt í pólitískri umræðu eða nota gífuryrði sem gætu kostað heimsókn frá yfirvöldum. Menntakerfið fylgir alveg ríkislínunni. Þannig að eina leiðin fyrir yngra fólkið er að spyrja þá sem eldri eru og hvísla sín á milli á heimilum.
Hugmyndir okkar um frelsi, eins og þær birtast á Vesturlöndum, eru einfaldlega ekki lengur gildar í landi þar sem minnishyggju-ræðið hefur tekið yfir. Þar sem ríkið hefur tekið upp gamlar kreddur Sovétríkjanna. Marxism-lenínismi tók ekki afstöðu til þess hvort afstæðar eða raunverulegar aðstæður væru fyrir hendi. Bókstaflega allir landsmenn vissu að kosningar í Sovétríkjunum voru ekki frjálsar. En samt lét fólk eins og niðurstöður þeirra væru bara staðreynd.
Fyrir flestum Rússum er því nóg að réttlætingin fyrir stríðinu hljómi kunnuglega og passi við það sem þjóðin vill heyra: Að Pútín muni endurvekja stórveldisdrauma Rússa og bjarga um leið nokkrum stríðshrjáðum bræðrum sínum til vesturs. Rússar hafa haldið þessu leikriti sínu mikla til streitu síðan Pútín sölsaði undir sig fjölmiðlana snemma á valdatíð sinni. Tímabilið upp úr 1990 var óeðlilegt í sögu Rússlands þar sem landið hefur verið einræðisríki öldum saman. Czarinn hefur alltaf rétt fyrir sér og þeir sem eru ósammála fara í fangabúðir eða í útlegð.
Jafnvel þó að Pútín missi stjórnartaumana, eða þeir verði aðeins lausari, verður það ekki nóg til að taka í sundur þá sögusköpun sem Rússland hefur gert að sinni þjóðartrú og upphafsmýtu. Kerfið og gildin sem því stýra eru ekki undir einum neinum manni komið.
Að óbreyttu mun valdakerfi Pútíns lifa eftir hans dag og mun halda áfram að sölsa undir sig meira land og völd. Það væri hægt að koma í veg fyrir þetta ef minnishyggju-stjórnkerfi þyrfti að sitja undir dómi alþjóðlegra dómara fyrir heimsvalda- og útþenslustefnu sína. Það er hins vegar aðeins lítill og minnkandi hluti Rússa sem lítur yfir höfuð á sögulega glæpi Stalíns sem sérstakt vandamál. Stalín er að verða ofurstjarna á ný.
Ef við hugsum um hversu lengi og hversu mikið vesturveldin hafa reynt að gera upp fyrir sína dökku nýlendusögu er auðveldara að skilja hvers konar risaverkefni það yrði fyrir Rússa að sættast við sögulega andstæðinga sína. Mér finnst líklegra að sjálft rússneska sambandslýðveldið liðist í sundur áður en það gerist.
Þýðandi: Gunnar Hrafn Jónsson
Mér finnst einnig merkilegt að alþjóðasamfélagið hafi ekki fyrir löngu komið sér upp beltum og axlaböndum, innan alþjóðalaga, til að fyrirbyggja að slíkir einstaklingar í líkingu við Hitler, Pútín, Mussolini o.s.frv. fái að setja af stað svona gjöreyðingu sem drepur fólk eins og það sé ekkert annað eða merkilegra en illvíg bakteríusamfélög í ræktunarskálum tilraunastofa.
Ég geri mér grein fyrir því að slíkar varnir eru gríðarlega flóknar og erfiðar í smíðum, uppsetningu og framkvæmd, en þetta gengur ekki svona; að ein manneskja geti látið slátra og limlesta þúsundir/milljónir manna, nánast í einu vetfangi. Mér finnst að sértæk, þar til gerð, yfirþjóðleg stofnun ætti að geta tekið valdamikla einstaklinga úr umferð sem allar líkur benda til að séu færir um svona brjálæði. Núverandi fyrirkomulag er fullkomlega ólíðandi.