Taka verður hótanir Pútíns Rússlandsforseta um hugsanlega beitingu kjarnavopna alvarlega, segir Vera Knútsdóttir öryggis- og varnarmálasérfræðingur. Margt bendir til að gangur stríðsins í Úkraínu og þær efnahagslegu, menningarlegu og pólitísku þvinganir sem alþjóðasamfélagið beitir Rússa nú séu búnar að hrekja ráðamenn í Rússlandi út í horn. Í því ljósi aukast líkur á að kjarnavopnum verði beitt samkvæmt kenningum þar um.
„Pútín er eins og fjárhættuspilari. Hann tekur gríðarlegar áhættur í því sem hann gerir og það hefur gengið upp fyrir hann, hingað til. Við sjáum það á stríðinu við Georgíu árið 2008, við sjáum það á innlimun Krímskagans árið 2014, við sjáum það á árásum sem gerðar hafa verið á einstaklinga á erlendri grundu. En núna virðist fjárhættuspilið ekki ganga upp, í það minnsta ekki ennþá,“ segir Vera.
Spurð hvað beri að lesa í yfirlýsingar Pútíns um að búið sé að setja þær sveitir rússneska hersins sem fara með kjarnavopn í viðbragðsstöðu, og eins yfirlýsingar Seirgei Lavrov utanríkisráðherra sem varaði við því að ef þriðja heimsstyrjöldin brytist út yrði um gereyðingarstríð háð með kjarnavopnum að ræðar, segir Vera að taka verði því alvarlega þegar hótanir þar um séu settar fram, þó vitanlega verði að hafa á því ákveðinn fyrirvara. „Mér finnst þetta benda til að Rússar séu komnir í þá stöðu að þeir sjái ekki aðra leið færa en að hóta notkun þessara vopna. Efnahagsþvinganirnar gegn Rússum eru svo víðtækar að þær eru þegar farnar að þrengja að. Ég held líka að þarna skipti máli hvernig hernaðurinn gengur, og hann gengur alls ekki eins og við var búist í Moskvu. Þessar yfirlýsingar benda því til að ráðamenn í Rússlandi séu komnir út í horn. Þess vegna er þetta síðasta hálmstráið. Af þeim sökum eru NATO ríkin líka treg til að fara í beinar hernaðaraðgerðir til að aðstoða Úkraínumenn, það vill enginn fara í beint stríð við Rússa af þessum sökum.“
Pútín gæti misst stuðning olígarkanna
Vera veltir því jafnframt fyrir sér varðandi hugsanlega beitingu kjarnavopna hvort Pútín hafi stuðning við slíka ákvörðun í æðstu lögum rússnesks stjórnkerfis og í hernum. Notkun kjarnsvopna er ekki með þeim hætti að einn maður geti ræst kjarnaodda eða tekið slíkar ákvarðanir. Hún bendir á að Sergei Sjoígú varnarmálaráðherra Rússlands hafi ekki mikið verið í fréttum og mögulegt sá að hann eða aðrir gætu virkað sem hemill gegn Pútín, ætli hann sér virkilega að beita kjarnavopnum. Þá sé einnig spurning hvort hermenn á úkraínskri grund myndu framfylgja slíkum skipunum.
„Það verður að taka ógninni alvarlega, ef það er ekki gert er verið að bjóða hættunni heim“
Það má líka velta fyrir sér hvort Pútín sé að missa, eða muni missa, stuðning efnamanna í Rússlandi, ólígarkanna, en hann hefur auðvitað setið við völd í þeirra skjóli. Í Rússlandi Pútíns hafa þeir getað fyllt bankareikninga sína en nú þegar að viðskiptaþvinganir eru jafn harðdrægar eins og raun ber vitni hefur það áhrif á þessa menn. „Það gæti farið að fjara undan þeim stuðningi eftir því sem efnahagsþvinganir bíta meira. Hvað verða olígarkarnir tilbúnir til að kóa með honum lengi í þeim aðstæðum? Ég hugsa að það þurfi jafnvel ekki mikið til að hann verði svikinn af slíkum innanbúðarmönnum,“ segir Vera.
En hversu líklegt er þá í raun og veru að Pútín hyggist, og vilji, beita kjarnavopnum?
„Það er milljarða króna spurningin. Það er mjög erfitt að segja en það er aldrei hægt að útiloka að kjarnavopn verði notuð á meðan þau eru til staðar. Að Pútín muni taka ákvörðun um að nota þau, það getur alveg gerst. Hann tekur gríðarlega áhættu, Pútín er að spila rússnesku rúllettu. Ég held að það sé ekki hægt að svara þessu öðruvísi en með því að segja kannski. En það verður að taka ógninni alvarlega, ef það er ekki gert er verið að bjóða hættunni heim. Þar með er ég ekki að segja að Vesturlönd eigi að láta af efnahagsþvingunum eða hætta að styðja Úkraínumenn með hergögnum og annarri aðstoð, það verður að halda áfram.“
Ísland ætti að fullgilda kjarnorkuafvopnunarsamninginn
Ef til kæmi að kjarnavopnum yrði beitt eru mestar líkur til þess að það yrði gert í hernaðarskyni í Úkraínu. Rússar búa yfir taktískum kjarnavopnum sem beita má á takmarkaðan hátt í hernaði sem slíkum. „Spurning er hvort Pútín átti sig á að það myndi þýða endalok valdatíðar hans. Raunar telja margir að stríðsreksturinn sjálfur sé upphafið að þeim endalokum.“
En hvað gerist þá, hvaða viðbragða er að vænta til dæmis frá NATO ríkjunum?
„Það er spurningin. Úkraína er auðvitað ekki NATO-ríki. Stefna Bandaríkjanna segir til um kjarnavopn geti verið notuð sem svar við árás á bandaríska jörð eða árás á bandamenn. Þá er spurning hvernig Bandaríkin skilgreini Úkraínu, hvort þau skilgreini landið sem bandalagsríki. Myndi það þá þýða að Bandaríkin væru tilbúin að svara í sömu mynt? Við vitum að það myndi þýða allsherjar kjarnorkustríð og það vill enginn. Ég tel ólíklegt að það yrði svarað í sömu mynt en það er mjög erfitt að segja til um það.“
En er ekki einn vandinn sá að ef Pútín myndi beita þessum vopnum og því yrði látið ósvarað, þá myndi ógnin um beitingu kjarnavopna aukast og vofa yfir til framtíðar?
„Ef að þannig færi myndi maður vonast til að það myndi sýna þeim þjóðum sem búa yfir kjarnavopnum fram á að það borgi sig hreinlega ekki. Fælingarmátturinn er kannski í raun of mikill. Kjarnavopn koma ekki í veg fyrir stríðsátök eins og þau áttu að gera, stríð verða þrátt fyrir að ríki heims haldi á gríðarlegum birgðum kjarnavopna. Besta leiðin væri sú að menn myndu átta sig á því. Auðvitað gæti svarið verið að NATO-ríkin myndu fara í bein stríðsátök við Rússa, vegna þess að þeir teldu ólíklegt að Rússar myndu beita kjarnavopnum gegn þeim í ljósi þess hvaða afleiðingar það myndi hafa, allsherjar kjarnorkustríð. Fyrir Pútín snýst allt um að halda völdum og hann myndi tæpast viljandi grípa til aðgerða sem myndu valda því að hann missti völd.“
Ísland er ekki aðili að kjarnorkuafvopnunarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Vera segir að hennar mat sé að Ísland ætti að fullgilda samninginn sem allra fyrst. „Ég held að þjóðir séu öruggari standi þær utan kjarnorkuverndarhlífa, í stóra samhenginu. Þetta er úrelt kaldastríðspólitík.“
Athugasemdir