Í byrjun árs 1722 – um svipað leyti og Ísland var farið að jafna sig eftir stórubólu en Árni Magnússon var flúinn úr landi með handritin – þá sigldu þrjú hollensk skip suður fyrir suðurodda Ameríku og inn á Kyrrahaf. Leiðangursstjóri hét Arent Roggeveen, lögfræðingur sem vart hafði migið í saltan sjó fyrr á ævinni en var kominn inn á hafið endalausa til að uppfylla gamlan draum föður síns um að finna hið mikla meginland sem menn þóttust þá vita að væri sunnarlega í Kyrrahafinu.
Fyrst var siglt upp með Tjíle-ströndum og síðan lagt út á hafið mikla og síðdegis þann 5. apríl, sem var páskasunnudagur, komu útkikksmenn á fremsta skipinu auga á land fyrir stafni. Hollendingar vonuðu í fyrstu að þar væri komið Suðurlandið mikla en sáu fljótt að þetta var bara fremur lítil eyja, heldur lágreist þótt nokkur fell mætti sjá við strendurnar, og gróðurlítil.
Athugasemdir