Aðalmeðferð fór fram í skaðabótamálum Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja og eins aðaleiganda Samherja Holding, og Samherja gegn Seðlabankanum. Héraðsdómur hafði áður sýknað bankann af kröfu útgerðarinnar en dæmt Þorsteini Má sjálfum skaðabætur. Báðum málunum var áfrýjað til Landsréttar og voru þau tekin fyrir hvort á eftir öðru hjá dómnum í dag.
Að loknu þinghaldinu fullyrti Þorsteinn Már að ný gögn hefðu komið fram í málinu en Stundin fékk ekki tækifæri til að spyrja hann hvaða gögn það hefðu verið. Fyrir liggur að vitni var leitt fyrir dóminn í máli Þorsteins Más en þinghaldið var lokað. „Ég hef ekki áhuga á að tala við þig, eins og þú hlýtur að skilja. Ég held að þú hljótir að gera þér grein fyrir því að ég vil ekki tala við þig,“ sagði hann við blaðamann fyrir utan dómsal. Stundin leitaði viðbragða og óskaði viðtals vegna málsins eftir að hann hafði veitt Ríkisútvarpinu viðtal.
Mál útgerðarinnar gegn Seðlabankanum snýst um bætur til handa Samherja vegna rannsóknar gjaldeyriseftirlits Seðlabankans á meintum brotum útgerðarinnar á gjaldeyrishöftum. Í aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi kom fram að málið snérist um tekjur fyrirtækisins af veiði og sölu á fiski í Afríku, þar sem Samherji hefur verið stórtækt.
„Ég held að þú hljótir að gera þér grein fyrir því að ég vil ekki tala við þig“
Rannsókn bankans hverfðist um veiðar Kötlu Seafood sem var þá í eigu Samherja í gegnum dótturfélög. Taldi bankinn útgerðina ekki hafa staðið skil á um 85 milljarða gjaldeyristekjum.
Stundin hefur á undanförnum árum fjallað um Afríkuveiðar Samherja og starfsemina á Kýpur, þar sem fram hefur komið að fiskur frá Íslandi hafi gengið kaupum og sölum í tugmilljarða viðskiptum í gegnum Kýpurfélag útgerðarinnar.
Mál Seðlabankans vegna þessa gjaldeyris sem starfsmenn hans töldu átt að hafa ratað til Íslands var fellt niður þar sem ekki hafði verið rétt staðið að setningu gjaldeyrisreglnanna sem rannsóknin byggði á, en undirritun Björgvins G. Sigurðssonar, þáverandi viðskiptaráðherra, vantaði á reglurnar og öðluðust þær því ekki gildi eins og vera bar. Allar sektir sem höfðu verið lagðar á vegna þessara reglna féllu niður, þar á meðal sekt sem bankinn hafði gert Þorsteini Má að greiða persónulega. Um þá sekt snýst skaðabótamál hans gegn bankanum, sem líka var til meðferðar í Landsrétti í dag.
Þetta hafa flestir vitað allan tímann, en þið sósíalistarnir bullið út í eitt.