Þegar við krakkarnir stóðum á bryggjunni og biðum eftir að togarinn með feður okkar innanborðs legði að bryggju, eða fundum fiskilyktina af mömmu og eldri systkinunum komandi úr frystihúsinu, leið okkur þannig að allt væri eitt og ekkert myndi breytast.
Á níunda áratugnum var Flateyri miðja heimsins, á sinn hátt. Ungar barnafjölskyldur voru uppistaðan í íbúafjöldanum, hvert nýja húsið hafði verið byggt af öðru og fólk kom aðvífandi í vinnu úr öllum heimshornum, frá Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Suður-Afríku og Bretlandi, búandi á verbúðum. Við börnin sáum framtíðina í fjallarammanum sem umlukti okkur alla daga.
Fallega samfélagið í þessu þorpi var á tímabili kallað villta vestrið vegna atburða í tengslum við skemmtanalífið, en var fyrst og fremst fjölskyldubær. Þar virtust allir eitt og allir voru eitthvað.
Smám saman fóru innviðirnir að flosna upp og samfélagið sjálft að leysast upp. Fyrir ungan strák var eitt fyrsta einkennið þegar fótboltaæfingarnar hættu. Svo þegar bakaríið lokaði. Og kaupfélagið. Og vinir fóru, einn af öðrum, áður en maður fór sjálfur í aftursætinu á Subaru skutbíl á leið í hellirigningu fyrir sunnan.
Það eru svo margar ástæður, svo margt sem varð að gerast. Sveigjanleiki. Skilvirkni. Framlegð. Samlegð. Samþjöppun, framsýni, og stundum skammsýni.
En þessi saga er til í tölum. Tölurnar segja þrennt: Hvert fór fólkið, hvert fór sameiginlega auðlindin og svo gamla mantra blaðamanna, hvert fóru peningarnir?
Fólkið
Tökum dæmi. Frá árinu 1998 til 2019 fjölgaði Íslendingum um 30%. Á sama tímabili fækkaði Vestfirðingum um 17%. Fólkið fór. Það voru alltaf sveiflur. Árið 1983, þegar kvótakerfið var lögleitt, voru yfir 500 íbúar á Flateyri. Árið 2021 voru þeir undir 200. Áður voru ekki færri íbúar eftir lok 19. aldar.
Auðlindin
Árið 1991, þegar frjálst framsal kvóta var leyft, voru Vestfirðir með 14,2% af öllum kvóta við Ísland. Á síðasta ári sem Fiskistofa gefur upplýsingar um, árin 2018 til 2019, voru Vestfirðir með helming af þessu, 7,25%.
Rétt eins og fólkið fór og þjappaðist saman á suðvesturhorninu, hefur auðlindin farið til færra fólks. Þrjár kvótablokkir ráða nú yfir 60% aflaheimilda.
Peningarnir
Ein leiðin til að horfa á eignatilfærslur er að sjá hverjir hagnast, hin hverjir tapa. Fólkið sem trúði á framtíðina og byggði húsnæði fyrir vestan uppskar fallandi fasteignaverð eftir kvótann.
Fermetraverð á fjörutíu ára gömlu einbýli á Flateyri er 67 þúsund krónur síðustu fimm ár. Það er 353 þúsund krónur á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabili, eða fimmfalt.
Foreldrar mínir byrjuðu að byggja hús fyrir vestan árið sem ég fæddist, en enduðu á því að horfa á eftir því á uppboði þegar ég náði táningsaldri.
Þetta eru ekki stóru peningarnir, en fasteignir eru þó stærstu fjárfestingar venjulegs fólks.
Árið 1997 varð eðlisbreyting á kvótakerfinu þegar leyft var að veðsetja kvótann gegn lánum. Þannig var fiskurinn í sjónum, „sameign íslensku þjóðarinnar“ samkvæmt lögum, endanlega orðinn innleysanlegir peningar handhafanna.
Áætlað hefur verið gróflega að verðmæti aflaheimilda við Ísland sé 1.200 milljarðar króna. Virði Síldarvinnslunnar, einnar og sér, er um 170 milljarðar króna í íslensku kauphöllinni. Félagið heldur á 9,41% kvótans. Í einfaldaðri víðmynd, sem horfir fram hjá öðrum eignum og áhrifaþáttum hlutabréfaverðs, endurspeglar Síldarvinnslan að handhafar kvótans séu samtals 1.800 milljarða króna virði.
Síðustu 10 ár hefur rekstrarhagnaður sjávarútvegsins verið 372 milljarðar króna.
Þegar við fylgjum peningunum inn í gámana komum við meðal annars að því að einn maður, Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, á 56 milljarða króna inni í félagi hans og fyrrverandi eiginkonu hans.
Að gefa eigur sínar
Um það leyti sem verið var að festa kvótakerfið í sessi, árið 1985, kom Jónas Kristjánsson, þá ritstjóri DV, í viðtal við lífsstílstímaritið Luxus. Það sem Jónas sagði þá kann að hljóma eins og sjálfgefin hagfræðileg sannindi og hefur verið á dagskrá helstu stjórnarandstöðuflokka síðustu alþingiskosningar.
„Sé aðsóknin að þessu svo mikil að búa þurfi til alls konar kerfi, til þess að skipuleggja sóknina, eins og að banna mönnum að vera á sjó einhver tímabil, eða banna þeim að veiða umfram ákveðinn tonnafjölda, nú þá finnst mér miklu nær að selja aðgang að þessari takmörkuðu auðlind,“ sagði Jónas.
Sú leið að endurheimta kvótann, sameignina okkar, var reynd eftir hrun, þegar útgerðir voru margar á heljarþröm, þar sem veðsetning sameignarinnar var ein helsta uppspretta skuldsettra viðskiptaævintýra og núverandi forstjóri Samherja var meðal annars stjórnarformaður Glitnis banka.
Börnin
Fólk úti á landi reis upp gegn tilraunum vinstri stjórnarinnar, einna helst á forsendum þess að þetta væri augljóst dæmi um að höfuðborgin ætlaði að sjúga til sín fé frá landsbyggðinni. Alveg eins og þingið tók fiskinn fyrir vestan og borgin fólkið.
Á borgarafundi í Neskaupstað í maí 2012 með þáverandi sjávarútvegsráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, sýndi forstjóri Síldarvinnslunnar myndir af börnunum sínum og sagði: „Gerum þetta þannig að hún færi börnunum okkur líka framtíð.“ „Hvað höfum við gert ykkur?“ spurði ein kona í bænum aðkomumennina.
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins á fundinum, og fyrrverandi stjórnandi fjárfestingarbanka, reyndi að hughreysta forstjórann og áhyggjufullt fólkið. „Það er ekki nema rúmt ár þangað til það koma ný stjórnvöld sem geta auðveldlega breytt þessu veiðigjaldi.“
Nú, tæpum tíu árum síðar, er framtíð barna útgerðarmanna tryggð. Börn eigenda Samherja hafa nefnilega fengið stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins afhent frá foreldrum sínum, og þar með hlutdeild í ríflega fimmtungi sameiginlegrar auðlindar okkar Íslendinga, að meðtöldum tengdum félögum.
Forstjóri Síldarvinnslunnar þurfti síðan að senda kauphöllinni afkomuviðvörun í vikunni. Í henni kom fram að tilkynningin bæri vott um sveiflur og erfið rekstrarskilyrði. Fyrirtækið var nefnilega að hagnast um tveimur milljörðum meira en horfur höfðu verið á.
Allt er gott sem endar vel.
Takk fyrir lánið
Þorsteinn Már Baldvinsson kynnti í fyrra að hann vildi ná betri sátt um sjávarútveginn með því að Samherji myndi selja hlut í Síldarvinnslunni, en saman áttu félögin tengdu um 17% kvóta við Ísland, vel umfram 12% hámark tengdra aðila. Forstjóri Brims vildi síðan ná fram sambærilegri sátt með því að selja sínu eigin útgerðarfélagi hluta af kvóta Brims, þar sem Brim var með meira en 13% kvótans.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru nú í auglýsingaherferð í sjónvarpi, sem andsvar við þáttaröðinni um Verbúðina, þar sem sagt er: „Það þarf sko allt að smella til að halda úti einum hagkvæmasta sjávarútvegi í heimi.“
„Það veltur svo ótrúlega margt á íslenskum sjávarútvegi,“ segir í auglýsingunni, sem sýnir fólk að störfum í fataverslunum, tilraunastofu, skrifstofu og veitingastöðum.
Það eru svo margar leiðir til að bregðast við aðstæðum, aðrar en að reyna að kaupa álit fólks. En í stað þess að sýna auðmýkt hafa íslenskar útgerðir undanfarin ár meðal annars verið staðnar að mútugreiðslum til erlendra stjórnmála- og embættismanna, sagt seðlabankastjóra að „drulla sér í burtu“, áreitt og nítt blaðamenn, niðurgreitt starfsemi fjölmiðils til að vinna að hagsmunum sínum og gert enn frekara tilkall til sameiginlegrar eignar okkar.
Tilkallið
Í vikunni var dómfest mál útgerðarfélags í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum gegn ríkinu, þar sem farið er fram á að þjóðin greiði 540 milljónir króna til útgerðarinnar. Sjö útgerðir fara fram á samtals 10 milljarða króna í skaðabætur úr sameiginlegum sjóðum okkar fyrir að hafa ekki fengið úthlutað nægilega miklu af sameiginlegri eign okkar, án endurgjalds.
Eðlilega kemur upp í huga fólks að sýna útgerðarmönnum þakklæti fyrir framlag þeirra, rétt eins og við ættum að þakka sjómönnum, fiskvinnslufólki og fleirum. En sannkallaður lykill að því að útgerðin smelli saman er sú leið, sem við höfum farið sem samfélag, að lána sumu auðugasta fólki landsins, og börnunum þeirra, eign okkar án raunverulegs endurgjalds. Kannski væri við hæfi að þiggjendurnir sendu okkur öllum annan boðskap í næstu herferð, sem væri einfaldlega: Takk.
Sú saga sem sögð er í þáttaröðinni Verbúðin, er samanþjöppuð enda mikið efni, og það sama er hér uppi á teningnum, enda engin önnur leið til að koma þessari sögu til skila, til ungu kynslóðarinnar, nú um 30 árum eftir að hún gerðist.
Hinsvegar er nákvæmlega núna að gerast saga, þar sem Samherjafjölskyldan er að gefa börnunum sínum fyrirtækið, framhjá öllum lögum og reglum um erfðafjárskatt.
I öllum siðuðum löndum flokkast þetta sem skattasniðganga, en yfirmaður skattamála er BjarN1, formaður Sjálfgræðisfokksins og virðist ætla að vera það að mestu leyti síðan Steingrímur hafði það embætti. Fjársvelti eru örlög þeirrar stofnunar sem á að sjá um skattrannsóknir.
Umboðssvik myndi það heita, væri ég ráðherra ef ég ætti hagsmuna að gæta hjá Samherja og beitti mér til að koma í veg fyrir rannsóknir skattsvika.
Maður spyr sig,á útgerð að vera á spena ríkisins.
Útgerð sem skilar öllum þessum miljörðum í tekjur.
Hvar endar þetta,á þjóðin alltaf að borga meira.
Ein athugasemd þó. Ég veit ekki betur en fimm af þeim sjö fyrirtækjum, sem getið er um í greininni, hafi fallið frá málarekstri við ríkið vegna makrílkvótans. Hæstiréttur viðurkenndi skaðabótaskyldu íslenska ríkisins gagnvart Hugin og Ísfélagi Vestmannaeyja. Jú eftir stendur Vinnslustöðin með Hugin ehf., en Vinnslustöðin eignaðist öll hlutabréf þess á síðasta ári. Krafa Hugins, eftir matsgerð óvilhallra aðila sem sátt var um, er 547 milljónir. Mat liggur ekki fyrir í máli Vinnslustöðvarinnar. Eru það svo bara Eyjamenn sem standa í þessum ömurlega málarekstri? Veit ekki betur en bæði Kaupfélag Skagafjarðar og Brim eigi væna hluti í sjávarútvegsfyrirtækjum í Vestmannaeyjum. Hvað segja þessir hluthafar við þessum ömurlega málarekstri? Þegar makrílveiðar stóðu sem hæst fyrir nokkrum árum var útflutningsverðmæti makríls metinn á 25 milljarða. Ætli það séu ekki 50 milljarðar í dag.
"Í vikunni var dómfest mál útgerðarfélags í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum gegn ríkinu, þar sem farið er fram á að þjóðin greiði 540 milljónir króna til útgerðarinnar. Sjö útgerðir fara fram á samtals 10 milljarða króna í skaðabætur úr sameiginlegum sjóðum okkar fyrir að hafa ekki fengið úthlutað nægilega miklu af sameiginlegri eign okkar, án endurgjalds.".
Takk fyrir.