Ætli þetta hafi ekki verið sumarið 1965?
Ég var skólastrákur í byggingarvinnu og kynntist þar verkamönnum sem ég fékk mætur á. Einn þeirra hét Ingvar Þorkelsson (1918–2001) og fékkst einnig við fornbókaverzlun. Ingvar var áhugasamur um þjóðfélagsmál og eftir því fús til að uppfræða mig um þau, óharðnaðan unglinginn. Hann færði mér meðal annars sérprent úr Nýju dagblaði frá 1942, fjögurra greina syrpu eftir ónafngreindan höfund undir yfirskriftinni „Sannleikurinn um Sjálfstæðisflokkinn – og lygin um Sósíalistaflokkinn“. Þegar greinasyrpan birtist sat að völdum samsteypustjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, allra þingflokka nema Sósíalistaflokksins. Hermann Jónasson var forsætisráðherra og Ólafur Thors var atvinnumálaráðherra.
Nýtt dagblað var þannig til komið að hernámslið Breta sem steig hér á land vorið 1940 stöðvaði útgáfu Þjóðviljans, málgagns Sósíalistaflokksins, og hneppti ritstjórana, þá Einar Olgeirsson og Sigfús Sigurhjartarson, í fangelsi. Séra Gunnar Benediktsson hljóp þá í skarðið með því að stofna nýtt málgagn flokksins og ritstýra því og fékk útgáfan að vera í friði fyrir Bretunum, en henni var hætt þegar Þjóðviljinn fékk leyfi til að koma út aftur vorið 1942, ári eftir að Bandaríkjamenn tóku við vörnum landsins af Bretum og ritstjórar Þjóðviljans voru leystir úr haldi.
Beint í hjartastað
Lýsing Nýs dagblaðs á Sjálfstæðisflokknum 1942 er mögnuð meðal annars fyrir þá sök að hún hittir flokkinn beint í hjartastað enn þann dag í dag.
Höfundur syrpunnar segir í upphafi máls síns:
„Á hverjum sunnudegi birtir Morgunblaðið Reykjavíkurbréf. ... Á s.l. sunnudag voru bréf þessi óvenjulega hreinskilin ... höfundurinn ... birtir, þó að nokkru leyti undir rós sé, ... sannleikann um Sjálfstæðisflokkinn, og auðvitað um leið lygina um höfuðandstæðinginn, Sósíalistaflokkinn, sem hann kallar kommúnistaflokk.“
Nýtt dagblað rekur dæmi um illmælgi Morgunblaðsins þar sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eru sakaðir um að „berjast með kjaftinum, baknaga, rógbera og níða náungann“ og kallaðir „lágskríll“ og öðrum illum nöfnum. Í syrpunni í Nýju dagblaði eru Ólafur Thors og Jónas frá Hriflu á móti kallaðir „lítilfjörlegar og þröngsýnar smásálir“ og þeim líkt við „andleg úrhrök“, „vesæl þý“ og „auðvirðileg skriðkvikindi“.
Nýtt dagblað rekur í syrpunni dæmi um fjárhagsóreiðu sjálfstæðismanna eins og „ ... þegar Kveldúlfur skuldaði bönkum þjóðarinnar 8-10 milljónir króna – það var þegar Landsbankinn var búinn að fá einni fjölskyldu tvöfalt stofnfé sitt til umráða“... og tók að sér „það hlutverk að bjarga völdum einnar fjölskyldu, völdum hennar yfir fé og framleiðslutækjum“.
Og áfram heldur Nýtt dagblað:
„Hvert sporið öðru stærra hefur verið stigið í þessa átt. Skattfrelsi stórútgerðarinnar, verðfelling krónunnar, bann við kauphækkunum o.s.frv. og nú þegar markinu er náð ... kemur nöðrukyn Sjálfstæðisflokksins rægjandi, níðandi og bakbítandi hvern þann sem ekki stígur dansinn frammi fyrir altari Kveldúlfs.“
Kommarnir kunnu að svara fyrir sig fullum hálsi. Gífuryrðin voru gagnkvæm. Takið eftir þessu með skattfrelsi stórútgerðarinnar.
Nýtt dagblað vitnar áfram í Reykjavíkurbréf þar sem segir:
„Aðalframleiðslugreinar vorar, sjávarútvegur og landbúnaður, þurfa að geta unnið saman, svo óskyldar sem þær eru í eðli sínu. Sjávarútvegurinn verður að vera þess megnugur að styðja landbúnaðinn. Þeir sem í sveitunum búa og vinna þar hin erfiðu störf, sem oftast gefa lítið í aðra hönd, verða að nota vald sitt og aðstöðu í þjóðfélaginu til þess að tryggja frjálst athafnalíf þeirra, er sjóinn sækja. Með gulli hafsins og engu öðru verður framtíð sveitanna tryggð.“
Nýtt dagblað spyr:
„Hvað á höfundur Reykjavíkurbréfanna við, þegar hann talar um „frjálst athafnalíf þeirra er sjóinn sækja“? ... Það vita allir, að þegar leiðtogar Sjálfstæðisflokksins tala um frjálst athafnalíf, meina þeir ótakmarkað athafnafrelsi til handa stóratvinnurekendum, samfara stórfelldum takmörkunum á athafnafrelsi verkalýðsins og annarra launþega ...“
Þessi ábending hittir í mark. Jónas Haralz hagfræðingur, ráðgjafi margra ríkisstjórna, lýsti því hversu tregur Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, var til að sækja fundi með norrænum starfsbræðrum sínum þar sem formenn annarra íhaldsflokka höfðu áður spurt hann óþægilegra spurninga um hafta- og skömmtunarbúskapinn sem þreifst á Íslandi undir handarjaðri Sjálfstæðisflokksins allar götur fram að 1960.
Nú er svo komið að Sjálfstæðisflokkurinn á ekki lengur samleið með norrænum íhaldsflokkum. Sjálfstæðisflokkurinn skipaði sér lengi vel á vettvangi Evrópuþingsins í sveit með hófsömum systurflokkum í Noregi, Svíþjóð og Þýzkalandi, en hann sagði sig úr samfélagi þeirra 2011 og gekk þá til liðs við hálffasíska flokka eins og Sanna Finna, Svíþjóðardemókrata og Lög og rétt, stjórnarflokkinn í Póllandi, sem traðkar svo á mannréttindum að Evópusambandið sér sig nú knúið til að hugleiða brottvísun Póllands úr sambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn hvarf úr þessum félagsskap fyrr á þessu ári og hallar sér nú heldur að Bandaríkjunum. Þangað sækir formaður flokksins ásamt fylgdarliði fundi hjá Repúblikanaflokknum og hefur gert það um skeið. Ætli þau heimsæki menn Trumps í steininn líka?
Hvaða vald? Hvaða aðstaða?
Nýtt dagblað spyr enn:
„Hvaða „vald“ og hvaða „aðstaða“ er það, sem sveitirnar eiga að nota? ... „Vald“ þeirra og „aðstaða“ á vettvangi stjórnmálanna byggist á því, að kjördæmum er þannig skipt í landinu, að eitt atkvæði í sveit hefur margfalt meiri áhrif á skipan Alþingis en eitt atkvæði í kaupstað.“ ... Sósíalistaflokkurinn og Alþýðuflokkurinn hafa verið sammála Sjálfstæðisflokknum um að slík leiðrétting væri sannarlegt réttlætismál. Meginþorri sanngjarnra manna úr sveit og við sjó hefur einnig verið þessu sammála, andstaðan gegn réttlætismálinu hefur öll komið frá leiðtogum Framsóknarflokksins, sem eiga völd sín á þingi ranglætinu að þakka.“
Blaðið heldur áfram:
„ ... leiðtogum Sjálfstæðisflokksins er orðið ljóst, að barátta þeirra fyrir hagsmunum stríðsgróðamannanna er svo andstæð vilja alls almennings einnig innan Sjálfstæðisflokksins, að þeir eiga þess enga von að geta haldið þeim völdum, sem þeir nú hafa í þjóðfélaginu, nema með því að styðjast við rangláta kjördæmaskipan. Og hvernig hugsa þeir sér að framkvæma þetta?
Blátt áfram með því að gera bandalag við afturhaldið innan Framsóknarflokksins gegn „réttlætismálinu“ og tryggja sér um leið atbeina þess sama afturhalds, í baráttunni gegn hagsmunum launastéttanna og fyrir hagsmunum stríðsgróðamannanna. ... stríðsgróðaklíka Sjálfstæðisflokksins ætlar nú að leita á náðir Framsóknarflokksins um atbeina til þess að halda völdum í landinu ... [og] sölsa undir sig ennþá meira af auðæfum þjóðarinnar, fleiri skip, fleiri verksmiðjur, fleiri jarðir. Svo eiga bændurnir einn góðan veðurdag að vakna við þann vonda draum, að jarðirnar þeirra séu komnar í eign þessara sömu millljónamæringa, þær hafa verið keyptar fyrir „gull hafsins“ og þegar svo er komið, geta milljónamæringarnir sagt „haf þú bóndi minn hægt um þig““.
Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Áður en þessi spásögn Nýs dagblaðs náði að rætast 1950 höguðu atvikin því svo að höfuðandstæðingarnir, Sjálfstæðisflokkur og Sósíalistaflokkur, tóku höndum saman ásamt Alþýðuflokki í nýsköpunarstjórninni 1944–1947 undir forustu Ólafs Thors, eyddu stríðsgróðanum í þolanlegri sátt og samlyndi eftir allt orðaskakið sem á undan var gengið og unnu sigur í alþingiskosningunum 1946, einkum Alþýðuflokkurinn. Það liðkaði fyrir myndun nýsköpunarstjórnarinnar 1944 að flokkarnir þrír höfðu unnið saman að stjórnarskrárbreytingunni 1942 til að draga úr misvægi atkvæða gegn harðri andstöðu Framsóknarflokksins á Alþingi. Sáttin tók tíma því áður en nýsköpunarstjórnin var mynduð 1944 sat utanþingsstjórnin 1942–1944, lifandi tákn óstarfhæfs Alþingis. Og sáttin stóð stutt, eða til 1947 þegar ágreiningur um varnarmál varð nýsköpunarstjórninni að falli.
Flokkur allra stétta?
Nýtt dagblað ræðst einnig gegn þeirri „takmarkalausu fölsun, sem felst í öllu tali Sjálfstæðisleiðtoganna um „flokk allra stétta“ ... því ... engum sem sjáandi sér getur blandazt hugur um fyrir hvaða stétt flokkur þessi berst. Og það sem verkin segja er þetta: Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir sérhagsmunum og þjóðfélagsforréttindum hinna auðugustu. ... Við sósíalistar beygjum okkur fyrir þeim röksemdum reynslunnar, að atvinnufyrirtækin hafa ekki veitt verkalýðnum sæmilega afkomu á undanförnum áratugum.“
Blaðið heldur áfram:
„Við spyrjum hvað þessu valdi. ... Togararnir í Reykjavík eru reknir til þess að vissir menn, sem kallast eigendur þeirra geti grætt, en ekki til þess að fullnægja atvinnu- og framfærsluþörfum verkamanna og sjómanna hér í bæ. ... Af þessum ástæðum hefur „gulli hafsins“ verið sólundað á hinn viðurstyggilegasta hátt, af drambgjörnum og illa menntuðum útgerðarmönnum. Af þessum ástæðum hefur öllum afrakstri góðáranna verið sólundað á fávíslegasta hátt en töp hinna erfiðari ára verið þjóðnýtt. Á þessu þarf að verða breyting, segjum við sósíalistar. ... Á þessu vilja Sjálfstæðismenn engar breytingar af því að þeir vilja stórgróða einstaklinga án alls tillits til þess hvað líður hag heildarinnar.“
„Þessi texti Nýs dagblaðs frá 1942 um drambgjarna útgerðarmenn kallast á við nútímann þar sem sjálfstæðismenn og fleiri sitja og standa á Alþingi eins og útvegsmenn bjóða þeim.“
Þessi texti Nýs dagblaðs frá 1942 um drambgjarna útgerðarmenn kallast á við nútímann þar sem sjálfstæðismenn og fleiri sitja og standa á Alþingi eins og útvegsmenn bjóða þeim. Nú er svo komið að saksóknari í Namibíu getur ekki fengið þrjá yfirmenn Samherja framselda til Namibíu svo að þeir geti borið vitni í glæpamáli sem er svo alvarlegt að margir menn, þar á meðal tveir þarlendir fyrrum ráðherrar, hafa í tvö ár setið í varðhaldi og bíða dóms. Fyrir liggja vitnisburðir um mútur, skattsvik, skjalafals og fjárböðun.
Úr því að Alþingi fæst ekki til að leyfa framsal þremenninganna (til þess þarf undanþágu frá lögum eða ný lög), hvers vegna er namibíska saksóknaranum þá ekki boðið að koma hingað til lands og yfirheyra mennina hér heima? Við hvað eru menn hræddir? Spurningin svarar sér sjálf.
Utan garðs og innan
Nýtt dagblað fer á flug þegar böndin berast að menningarmálum og vitnar enn í bersöglisræðu höfundar Reykjavíkurbréfsins:
„ ... þeir menn, sem helga líf sitt hinum andlegu störfum, ... verða líka að skilja að það er þeirra líf og þeirra hagur, að frjáls og heilbrigð efnahagsstarfsemi fái að njóta sín í landinu“.
Nýtt dagblað gerir sér mat úr þessu og segir:
„Alþingi hefur falið Menntamálaráði, undir forustu Jónasar Jónssonar [frá Hriflu], að meta afrek þessara manna, og launa þau af fé þjóðarinnar. ... Heift hans í garð þeirra listamanna, sem honum hefur einhvern tíma sinnazt við er í fullu samræmi við brjálæðiskennda langrækni hans. Viðleitni hans til að fótum troða og svelta þá listamenn, sem honum eru andvígir í skoðunum, viðleitni hans til að vista alla slíka menn „utangarðs“ í þjóðfélaginu, og öll sú heift, sem fram hefur komið í þessari viðleitni hans, er í fullu samræmi við hina þjóðkunnu, sjúklegu heiftrækni hans. ... En nú er okkur birtur sá sannleikur, að veikleiki Jónasar hefur vitandi vits verið tekinn í þjónustu valdaklíkunnar í Sjálfstæðisflokknum. Nú vitum við að allt tal leiðandi Sjálfstæðismanna um svívirðilega framkomu Jónasar í garð listamanna hefur verið fals eitt og fláttskapur; nú vitum við að Jónas hefur með allri sinni baráttu gegn róttækum listamönnum aðeins verið að framkvæma vilja Thorsklíkunnar í Sjálfstæðisflokknum. ... Allt þetta hefur höfundur Reykjavíkurbréfanna opinberað.“
Nýtt dagblað spinnur vefinn áfram:
„Þjóðin þarf að „eiga sér menningarlíf sem veitir henni borgararétt í samfélagi þjóðanna“, segir höfundur Reykjavíkurbréfa mikið rétt. En mennirnir sem eiga að veita henni þennan „borgararétt í samfélagi þjóðanna“, skáldin og listamennirnir, þeir verða líka að „skilja það að það er þeirra líf og þeirra hagur að frjáls og heilbrigð efnahagsstarfsemi fái að njóta sín í landinu“, svo segir höfundur Reykjavíkurbréfa. ... Listamönnum á samkvæmt þessu því að eins að vera líft í landinu að þeir „skilji“ og boði í „list“ sinni stefnu Morgunblaðsmanna í atvinnumálum. Þeir eiga að syngja einkaframtakinu lof og dýrð í ræðu og riti. ... Þeir eiga að boða skoðanir þeirra, sem ráða í þjóðfélaginu, vinir ríkisstjórnarinnar eiga að vera vinir listamannannna, óvinir hennar þeirra óvinir, skoðanir hennar þeirra skoðanir. Og sjá, ef allt þetta verður þá verður Jónas Jónsson látinn gefa þeim á garða, en vei þeim sem ekki krýpur fram í auðmjúkri lotingu, hans hlutverk er hið ömurlegasta, honum verður hárað á gaddinn „utangarðs“ í þeirri von að sterkviðri og stórhríðar kenni honum að betur sé líkamanum borgið með því að syngja föður Ólafi og syni hans lof og dýrð í Síonskór „innangarðsmanna“ ... Þessi varnarbarátta afturhaldsins gegn framsókn skálda, listamanna, spekinga og spámanna heitir fasismi ... hin andlega pest nútímans“.
Nýtt dagblað dregur lýsinguna á Sjálfstæðisflokknum saman:
„ ... höfundur Reykjavíkurbréfa ætlast til að hægt sé að kaupa sveitirnar fyrir „gull hafsins“ til þess að nota „vald sitt og aðstöðu“ til framdráttar fjölskyldusjónarmiðum Thorsættarinnar og hvernig hann með takmarkalausri hugtakafölsun ætlar að reyna að blekkja nokkurn hluta hinnar vinnandi stéttar við sjóinn til þjónustu við sama sjónarmið og loks hvernig hann í anda Hitlers og að fyrirmynd Jónasar ætlar að koma sér upp málaliði hagyrðinga og myndgerðarmanna, en svelta skáld og listamenn“.
Þessi lýsing kallast einnig á við nútímann eins og Ólína Þorvarðardóttir rithöfundur lýsir glöggt í bók sinni Spegill fyrir Skuggabaldur (2020). Þar segir hún meðal annars söguna af aðstoðarmanni forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hringdi í skáld til að tilkynna „að hann myndi ekki hljóta listamannalaun á meðan téður herra fengi einhverju ráðið um úthlutanir slíkra launa“ (bls. 113). Þetta var um aldamótin síðustu. Áður hafði skáldinu verið ráðið að ganga í flokkinn; „eina leiðin“, sagði borgarstjóri flokksins, og „vænsti kostur“, sagði ritstjóri Morgunblaðsins.
Kaup kaups
Enn vitnar Nýtt dagblað í Reykjavíkurbréf.
„Kommúnistar eru farnir að tala um samstarf við aðra flokka. En ... þeir hafa aldrei verið, eru ekki og verða aldrei í augum íslenzkra manna annað en erindrekar erlendra einræðisherra. Þeir hafa verið hlýðnir flugumenn Moskva-stjórnarinnar ... Allur áróðurinn um hinn íslenzka „lágskríl“ – sósíalistana og fylgismenn þeirra – er sunginn með undirleik, sem opinberar á listrænan hátt, sannleikann um Sjálfstæðisflokkinn, og sá sannleikur er margfalt ljótari en lygin um Sósíalistaflokkinn.“
Nýtt dagblað heldur áfram og nú hitnar í kolunum:
„Morgunblaðið á enga ósk heitari en að rauði herinn bíði ósigur í baráttunni við nasistahersveitir Hitlers. ... stríðsgróðamenn Morgunblaðsklíkunnar eiga ekkert föðurland. Allir vita að ekkert er til þessa heims né annars, sem þessir herrar selja ekki hiklaust ef hagnaður er í aðra hönd. ... Hver getur látið vera að minnast þess að þessir herrar hafa hafið málaferli og ofsóknir gegn mönnum fyrir að „tala illa“ um Hitler og Mussolini!? Hver er það er ekki man öll hróp þeirra um að markaðir okkar væru í veði í Þýzkalandi og Ítalíu ef sannleikur var sagður um Hitler og Mussolini? Hver er sá sem ekki man tryllingsóp þessara manna, þegar íslenzk alþýða vildi sýna hug sinn til lýðræðissinnanna á Spáni, með því að senda nokkrar krónur til þess að styrkja þá í baráttunni gagn fasistanum Franco? Hversu þrotlaus var þá ekki söngur Morgunblaðsins um landráð þeirra, sem vildu vinna lýðræðinu á Spáni gagn? ... Þessir aumingjar skríða nú um stund fyrir auðdrottnum Bretlands og Bandaríkjanna, en með hálfu meiri auðmýkt og hálfu meiri ánægju myndu þeir skríða að fótum Hitlers, ef hann hefði völdin hér á landi.“
Nýtt dagblað herðir skrúfuna:
„Úr því að Morgunblaðið velur þann kostinn að syngja stöðugt sama lygaóðinn um sósíalista, ... þá verður það að vera við því búið að sannleikurinn verði sagður um flokk þess og starfsmenn þess og það alveg afdráttarlaust. Að þessu sinni skal nokkuð undan dregið, þó ef til vill sé það ekki rétt, en eigi að halda umræðunum lengur áfram í þessum tón, þá skulu þjónar Hitlers verða leiddir út úr herbúðum Morgunblaðsins mann fyrir mann og afhjúpaðir án allrar vægðar. Morgunblaðið getur valið. Ef það vill taka upp siðaðra manna vinnubrögð og láta af sínum þrotlausu lygum um Sósíalistaflokkinn, þá þykir rétt eftir atvikum að láta sumt af því sem satt er um Sjálfstæðisflokkinn kyrrt liggja, því sannleikurinn um Sjálfstæðisflokkinn er margfalt ljótari en lygin um Sósíalistaflokkinn.“
Einnig þessi lokaskvetta kallast á við nútímann. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 31. maí 2008 segir svo:
„Úr því að Kjartan Ólafsson vill fá afsökunarbeiðni vegna símahlerana eigum við þá ekki öll, stríðsmenn kalda stríðsins, að taka höndum saman og óska eftir því að öll gögn verði lögð á borðið ... Er Kjartan Ólafsson tilbúinn til þess? Er hann reiðubúinn til að segja þá sögu, sem hann þekkir ... ? Það væri þá kannski hægt að sjá til þess að sambærilegt framlag kæmi úr hinum herbúðunum!“
Þetta Reyjavíkurbréf frá 2008 er eins og bergmál frá 1942. Og það jafngildir játningu. Með því að leggja ólöglegar símahleranir Sjálfstæðisflokksins að jöfnu við meint brot sósíalistanna var ritstjórinn í reyndinnni að segja þetta: Við brutum af okkur, gott og vel, og við skulum játa það á okkur gegn því, að þið sviptið þá einnig hulunni af ykkar afbrotum, og síðan göngum við saman syngjandi inn í sólarlagið í sameiginlegri baráttu gegn inngöngu Íslands í ESB.
Og nú sitja þau aftur saman í ríkisstjórn alsæl að sjá.
Mun Katrín mótmæla meðferðinni á Assange? Það eru reyndar engar raddir uppi í VG til slíks svo það er ekki von að hún hafi til þess frumkvæði. Assange braut ekkert af sér í USA, þar fyrir utan hafa bandaríkjamenn ekki lögsögu - eða hvað?