Alþingi samþykkti í gær kjörbréf þingmanna þótt vitað sé að kosning margra þeirra fór ólöglega fram. Kosningalög voru brotin í NV-kjördæmi enda hefur lögreglan sektað yfirkjörstjórnarmenn þar fyrir brot gegn lögunum. Hinir seku neita að greiða sektirnar og lögreglan virðist kæra sig kollótta enn sem komið er.
Formaður yfirkjörstjórnarinnar hefur nú enn verið kærður til lögreglu. Það var hann sem sagði: „ef menn ætla að svindla í kosningum þá svindla þeir í kosningum“. Hann er starfandi dómari.
Ekki bara NV-kjördæmi
Fyrir utan vísbendingar um svik í NV-kjördæmi og vitnisburði um brotalamir og lögbrot einnig í öðrum kjördæmum rannsakar lögreglan nú kæru vegna gruns um kosningasvik í SV-kjördæmi. Þar ber þaulvanur umboðsmaður eins framboðsins að hann hafi séð tvær ólíkar gerðir utankjörfundaratkvæðaseðla í talningu. Þingmenn virðast láta sér þá rannsókn líka í léttu rúmi liggja. Kannski þeir telji sig geta treyst því að lögreglan vísi kærunni frá, en það hefur lögreglan ekki gert, ekki enn.
Rifjast nú upp tölvupóstur frá Styrmi Gunnarssyni, þv. ritstjóra Morgunblaðsins, til konu nokkurrar sem kvartaði undan því við hann að skattarassíu gegn Baugsmönnum sem henni fannst liggja á miðaði hægt. Þetta var 2005. Styrmir reyndi að hugga konuna með því að drátturinn gæti átt sér eðlilegar ástæður, skatturinn væri líklega bara að bíða eftir því að Geir Haarde kæmi aftur heim til landsins. Þannig var Ísland þá.
Kosningin í NV-kjördæmi er ógild samkvæmt kosningalögum þar eð galli á framkvæmd kosningarinnar, þar með talin ólögleg meðferð kjörgagna, hafði ótvíræð áhrif á úrslit kosninganna. Áhrifin birtast í því að fimm þingmönnum sem töldu sig hafa náð kjöri eftir að yfirkjörstjórn hafði tilkynnt opinberlega um úrslitin var gert að víkja fyrir öðrum fimm þingmönnum eftir að yfirkjörstjórnin skipti um skoðun og birti nýjar tölur eftir endurtalningu. Þingfulltrúar flokka færðust milli kjördæma þannig að í fimm kjördæmum af sex eiga sumir flokkar nú færri fulltrúa á þingi en eftir fyrri talninguna og aðrir fleiri. Fulltrúar flokka færðust milli kjördæma. Þannig riðluðust valdahlutföll flokkanna í einstökum kjördæmum þótt þau héldust óbreytt á landsvísu. Allt að einu er engin leið að vita hverjir þeirra frambjóðenda sem málið varðar eru réttkjörnir og hverjir ekki.
Að brjóta lög eftir flokkslínum
Aðeins þrír flokkar urðu ekki fyrir neinni röskun á högum kjörinna fulltrúa við síðari talninguna. Það eru einmitt fulltrúar þessara þriggja flokka sem mynda meiri hluta í undirbúningsnefndinni um rannsókn kjörbréfa sem mælir með að síðari talningin skuli standa með lögbrotunum og öllu saman. Þetta heitir að brjóta lög eftir flokkslínum.
Í 120. gr. kosningalaga nr. 24/2000 segir svo:
„Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda ...“
Lögin eru skýr. Alþingi bar því að ógilda kosninguna í NV-kjördæmi. Alþingismenn létu úrslitin standa frekar en að ógilda þau og brutu þar með gegn þessu ákvæði laganna.
Fordæmi frá Austurríki
Ef kosningar mistakast að ekki sé talað um lögbrot og líkur á kosningasvikum er kosið að nýju þannig að jafnræði borgaranna sé virt. Skýrt fordæmi er að finna í Austurríki frá 2016. Eftir forsetakosningarnar þar í maí 2016 kom í ljós að kosningalög höfðu verið brotin í 14 af 117 kjördæmum. Stjórnlagadómstóll ógilti kosninguna og uppkosning fór fram í öllum kjördæmum í desember 2016. Takið eftir þessu: í öllum kjördæmum. Þannig fara menn að í heilbrigðum réttarríkjum.
Óviðeigandi leynd
Undirbúningsnefnd um rannsókn kjörbréfa starfaði undir óviðeigandi leyndarhjúpi. Hún birti engar upptökur af fundum sínum með gestum nema af fundum með þrem lögfræðingum. Nefndin hafnaði ósk hóps gesta á einum fundanna um að vitnisburður þeirra og viðbrögð nefndarmanna við honum yrðu birt á vefsetri Alþingis eða annars staðar. Nefndin reyndi í raun og veru ekki að komast til botns í málinu. Hún óskaði ekki eftir að beitt væri þekktum úrræðum til að leiða sannleikann í ljós.
Formaður yfirkjörstjórnar í NV-kjördæmi sem var einn með kjörgögnum í meira en hálfa klukkustund milli talninga í blóra við lög var ekki svo vitað sé látinn sverja eið að framburði sínum um það sem gerðist milli fyrri og síðari talningar. Hann var ekki heldur látinn þreyta lygapróf svo sem algengt er við rannsóknir áþekkra mála í öðrum löndum, t.d. í Bandaríkjunum, þótt lygamælar séu ekki alltaf teknir gildir sem sönnunargögn fyrir dómstólum. Kjarni málsins er að sakborningum sé þegar við á veittur kostur á að velja milli játningar og meinsæris. Skrifstofustjóri þv. varaforseta Bandaríkjanna kaus meinsæri frekar en játningu og fékk 30 mánaða fangelsisdóm. Þetta gerðist 2005. Nokkrir menn Trumps fv. forseta hafa fengið dóma fyrir að ljúga að alríkislögreglunni FBI. Þannig fara rannsakendur að í sæmilega heilbrigðum réttarríkjum, hvort heldur lögregla eða þingnefndir.
Undirbúningsnefndin vanrækti einnig að kanna með viðeigandi hætti sannleiksgildi framlagðra tölfræðiraka sem virðast benda til þess með óyggjandi hætti að átt hafi verið við kjörgögnin milli talninga. Allt yfirbragð nefndarstarfsins og niðurstaða þess vitnar um alvörulausa leiksýningu.
Fundargerðir undirbúningsnefndarinnar eru rýrar. Þar kemur ekkert fram um hvað var sagt og hver sagði hvað á fundum nefndarinnar. Því er ómögulegt að vita hvort einhverjir nefndarmenn og þá hverjir vildu komast til botns í málinu og hverjir komu í veg fyrir fullnægjandi rannsókn málsins. Eins og til að bíta höfuðið af skömminni var undirbúningsnefndin sjálf síðan gerð að kjörbréfanefnd Alþingis, þ.e. gerð að dómara í eigin sök, frekar en að öðrum þingmönnum væri falið að fara yfir verklag og vinnu undirbúningsnefndarinnar.
Vanræksla undirbúningsnefndarinnar og nú kjörbréfanefndar virðist brjóta gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 enda segir þar í 141. grein:
„Opinber starfsmaður, sem sekur gerist um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári].“
Teljist þingmenn hafa brotið gegn þessu ákvæði laganna þarf að huga að því að þeir frömdu brotið áður en þeir úthlutuðu sjálfum sér þinghelgi.
Innlend ólög
Málsatvikalýsingar og greinargerð undirbúningsnefndarinnar bera með sér að meiri hluti nefndarinnar gaf sér niðurstöðu rannsóknarinnar fyrir fram svo sem margir þóttust sjá fyrir frá fyrsta degi. Lítið sem ekkert tillit er þar tekið til þeirra sautján kæra sem nefndinni bárust. Þar af eru ellefu kærur frá tíu óbreyttum kjósendum, kærur sem snúast um almannahag og skuldbindingar Íslands samkvæmt fjölþjóðlegum mannréttindasáttmálum og einnig um skýr brot gegn kosningalögum, leynimakk og hugsanleg kosningasvik. Hinar kærurnar sex lögðu frambjóðendur fram, þar á meðal þeir fimm frambjóðendur sem misstu þingsæti sín við ólöglega endurtalningu atkvæða.
Einn kærandinn úr hópi frambjóðenda hefur sagt að hann muni kæra málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Líklegt má telja að einhverjir úr hópi kjósenda sem kærðu muni gera slíkt hið sama. Fjölþjóðlegir mannréttindasáttmálar sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða leyfa ekki að þjóðþing úrskurði sjálf um lögmæti þingkosninga. Erlendar mannréttindaskuldbindingar trompa innlend ólög.
Fyrirhugaðar málsóknir virðast sigurstranglegar þar eð gildandi stjórnarskrá frá 1944 er úrelt meðal annars að því leyti að þar segir að „Alþingi sker[i] sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir“.
Nýja stjórnarskráin sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 leiðréttir þessa villu því þar segir:
„Alþingi kýs landskjörstjórn til þess að úrskurða um gildi forsetakosningar, kosninga til Alþingis svo og þjóðaratkvæðagreiðslna. Landskjörstjórn gefur út kjörbréf forseta og alþingismanna og úrskurðar hvort þingmaður hafi misst kjörgengi. ... Úrskurðum landskjörstjórnar má skjóta til dómstóla.“
Fjölþjóðlegir mannréttindasáttmálar sem Ísland er aðili að eru æðri innlendum lögum sem verður því að breyta til samræmis. Stjórnlagaráð hafði skilning á þessu 2011. Hefði nýja stjórnarskráin verið staðfest á Alþingi eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 svo sem vera bar hefði klúðrið í NV-kjördæmi ekki þurft að vinda svo upp á sig nema í ljós komi munstur skipulegra kosningasvika.
Munstur?
Sjálftaka stjórnmálamanna í krafti refsileysis er áberandi munstur í okkar samfélagi. Hrunið afhjúpaði samsekt stjórnmálamanna, embættismanna og brotlegra bankamanna. Rannsóknarnefnd Alþingis nafngreindi sjö stjórnmálamenn og embættismenn sem hún taldi hafa sýnt af sér vanrækslu í skilningi laga auk fjölda bankamanna og annarra sem voru dæmdir til fangavistar fyrir hruntengd lögbrot.
Stjórnmálamenn voru svo laskaðir og lamaðir af ótta fyrst eftir hrunið 2008 að þeir treystu sér ekki til að standa gegn stofnun rannsóknarnefndarinnar og ekki heldur gegn stofnun embættis sérstaks saksóknara. En þeir máttu ekki heyra það nefnt að erlendir menn fengju sæti í rannsóknarnefndinni enda hefðu útlendingarnir þá væntanlega spurt óþægilegra spurninga til dæmis um umsvif rússneskra mafíósa á Íslandi fram að hruni.
Þegar landið tók að rísa úr rústum hrunsins fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins óx stjórnmálamönnunum aftur afl og þor og þeir tóku þá að atast í nýjum og öflugum forstjóra Fjármálaeftirlitsins sem hafði undir hans stjórn afhjúpað fjölda efnahagsbrota. Þeir tóku einnig að grafa undan sérstökum saksóknara með skertum fjárveitingum og tóku um leið upp harða baráttu gegn nýju stjórnarskránni sem sker upp herör gegn sjálftökumunstrinu. Þeir samþykktu eftir dúk og disk rannsókn á einkavæðingu bankanna 1998-2003 en þeir létu hana samt ekki fara fram. Þeir þóttust vilja rannsaka framfylgd tillagna Rannsóknarnefndar Alþingis með því að skipa nefnd til að skrifa skýrslu. Og hverjum fólu þeir að semja maraþonskýrslu um málið? – skýrslu á 375 síðum sem enginn virðist hafa lesið. Nafnlausum embættismönnum ráðuneytanna sem rannsóknarnefndin hafði gagnrýnt harðlega fyrir slaka stjórnsýslu! Þetta er eins og að fela Al Capone að skrifa skýrslu um framfylgd skattalaga.
Hálfgildingsglæpasamtök
Allt er þetta á eina og sömu bókina lært. Gömlu helmingaskiptaflokkarnir hegða sér eins og hálfgildingsglæpasamtök og laða smærri flokka til samstarfs á víxl eins og til að veikja viðnámsþrótt þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn áttu hvor flokkur sinn formanninn í Panama-skjölunum eins og ekkert væri sjálfsagðara og enn hefur ekki verið greint frá hreyfingum á þessum reikningum þeirra, hvað kom inn og hvaðan og hvað fór út. Þegar nv. formaður Framsóknarflokksins var spurður álits á afhjúpun Panama-skjalanna 2016 sagði hann bara: „Einhvers staðar verða peningarnir að vera.“
Saga beggja flokka og förunauta þeirra er löðrandi í lögbrotum langt aftur í tímann, til dæmis ólöglegum símahlerunum og öðrum njósnum sem aldrei var beðizt afsökunar á og enginn veit með vissu hvenær var hætt eða hvort þær halda áfram.
Ef menn komast upp með slíkt framferði áratug fram af áratug án þess að telja sig þurfa að óttast afleiðingar gerða sinna og brotaviljinn gengur í arf innan flokkanna kynslóð fram af kynslóð, hvers vegna skyldu þeir þá ekki einnig hafa rangt við í kosningum? – einkum þegar samanlagt fylgi þeirra í alþingiskosningum er sokkið úr 80% 1931 niður í 37% 2017 og stefnir neðar.
Athugasemdir (5)