Flugfélagið Icelandair tók það aldrei fram að félagið væri þáttakandi í viðskiptum í gegnum félag í skattaskjólinu Tortólu, líkt og kemur fram í Pandóruskjölunum. Í svari frá forstjóra Icelandair, Boga Nils Bogasyni, kemur fram að félagið hafi tilgreint að fyrirtækið hafi fjárfest í fyrirtæki sem heitir Barkham árið 2005 en aldrei kom fram í upplýsingagjöf fyrirtækisins að eignarhaldið á fyrirtækinu og þotunum var í gegnum Tortólu.
Tekið skal fram að Bogi var ekki forstjóri Icelandair á þessum tíma heldur Sigurður Helgason. Bogi var hins vegar um tíma stjórnarformaður dótturfélags Icelandair, IG Invest ehf., sem hélt utan um eignarhlutinn í Barkham-félögunum.
Eins og Stundin greindi frá fyrir skömmu þá keypti fyrirtæki í skattaskjólinu Tortóla, sem var í eigu dótturfélags flugfélagsins Icelandair, þrjár Boeing-þotur með lánum frá Íslandsbanka, síðar Glitni árið 2004. Tortólafélagið heitir Barkham Associates S.A. Félagið á Tortóla var í eigu dótturfélags Icelandair, IG Invest ehf., sem aftur var hluti af rekstri flugvélaleigunnar Icelease ehf.
Tortóla kom aldrei fram hjá Icelandair
Í svörum Boga við spurningum Stundarinnar kemur fram að félagið hafi upplýst um fjárfestingu sína í félaginu Barkham árið 2005. Þetta félag var skráð á Írlandi og var notað í viðskiptum félagsins Barkham Associates á Tortólu en það var þetta félag sem keypti Boeing-þoturnar og var lántakandi Íslandsbanka/Glitnis.
Orðrétt segir Bogi í svari sínu: „Líkt og fram kemur í tilkynningu FL Group til Kauphallar hinn 25. maí 2005 þó tók félagið þátt í því að kaupa 49% hlut í þremur Boeing 737-500 flugvélum þar sem eignarhaldið var í gegnum félagið Barkham. Fram kom að hinir eigendur félagsins hafi verið Gunnar Björgvinsson og fleiri aðilar í Liechtenstein og ætlað var að leigja flugvélarnar þrjár til Air Baltic. FL Investment ehf., dótturfélag FL Group, sem hafði flugvélafjárfestingar og leigu þeirra að meginstarfsemi fór með eignarhlutinn í Barkham. Árið 2006 er þessi 49% hlutur svo færður frá FL Investment ehf. til IG Invest ehf., sem var dótturfélag Icelandair Group. IG Invest greiddi FL Investment USD 3.336.263 fyrir 49% hlut í félaginu. Viðskiptin áttu sér stað í tengslum við það að FL Group var leyst upp í þeirri mynd sem það var og starfsemi þess færð yfir til Icelandair Group. Það er getið um þennan eignarhlut í ársreikningum IG Invest ehf. til ársins 2012 þegar hann hafði verið seldur í tengslum við uppgjör við Glitni. Hluturinn var seldur á mun lægra verði en hann hafði verið keyptur eða fyrir USD 24.500.“
„Félagið tók þátt í kaupum á þremur Boeing 737-500 flugvélum með Gunnari Björgvinssyni og fleirum í fyrirtækinu Barkham.“
Félagið IG Invest ehf. sem Bogi vísar til hélt utan um hlutinn í Barkham-félögunum fyrir Icelandair. Þar er sannarlega minnst á Barkham, líkt og Bogi nefnir, en eingöngu Barkham-félagið á Írlandi en ekki Barkham-félagið á Tortólu.
Óljóst af hverju Tortóla var notað
Í tilkynningunni til Kauphallarinnar, frá 2005, sem Bogi vísar til segir orðrétt um viðskiptin með Barkham. „Félagið tók þátt í kaupum á þremur Boeing 737-500 flugvélum með Gunnari Björgvinssyni og fleirum í fyrirtækinu Barkham. Þær eru leigðar til Air Baltic.“
Þannig liggur fyrir að Icelandair sagði frá fjárfestingunni í Barkham á opinberum vettvangi, en bara Barkham á Írlandi og ekki Barkham á Tortólu. Þessar upplýsingar um viðskipti Icelandair á Tortólu lágu ekki fyrir fyrr en þær komu fram í Pandórusskjölunum.
Ekki liggur enn fyrir af hverju Icelandair valdi að taka þátt í viðskiptum þar sem félag á Tortólu var notað. Ein af spurningum Stundarinnar til Icelandair var: „Af hverju var ákveðið að notast við félag á Bresku Jómfrúareyjum vegna þessara viðskipta?“ Þessari spurningu hefur ekki verið svarað. Fyrrverandi fjármálastjóri Icelandair, Halldór Vilhjálmsson, gat heldur ekki veitt miklar upplýsingar um starfsemina í gegnum Tortólu, aðrar en þær að þessi starfsemi hafi verið eðlileg.
Þá spurði Stundin einnig að því hvar Barkham-félagið á Tortólu hefði verið skattlagt og eins hvort Icelandair stundaði einhver viðskipti í skattaskjólum eða á lágskattasvæðum. Svar Boga við þeirri spurningu er birt hér í boxi.
Athugasemdir