„Við endurtekin tilfelli höfum við fengið upplýsingar um þegar það var lagt á ráðin að skjóta mig en ég hef verið með góða, vopnaða lífverði,“ segir Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu og uppljóstrari í Namibíumálinu þar í landi, í viðtali við sænska dagblaðið Gautaborgarpóstinn í dag.
Jóhannes segir á öðrum stað í viðtalinu s að hótanirnar gegn honum hafi fyrst og fremst komið frá Namibíu og namibískum valdamönnum sem hafi óttast þær upplýsingar sem hann bjó yfir um greiðslur frá íslenska útgerðarfélaginu Samherja.
Tilefni viðtalsins við Jóhannes eru verðlaun sem hann tók á móti í Gautaborg í síðustu viku. Um var að ræða verðlaun vegna uppljóstrana Jóhannesar um háttsemi Samherja í Namibíu, mútugreiðslur útgerðarinnar til þarlendra ráðamanna i skiptum fyrir hestamakrílskvóta. Fyrirsögn viðtalsins er: „Uppljóstrarinn sem opinberaði svindl í fiskveiðiheiminum er hundeltur - hefur lent í nokkrum morðtilraunum.“
Verðlaunin heita Win Win Gothenburg sustainability award og hafa verið veitt frá árinu 2000. Yfirskrift verðaunanna í ár var baráttan gegn spillingu og nam verðlaunaféð 1 milljón sænskra króna.
Segir frá tilrauni til mannráns
Í viðtalinu við Gautaborgarpóstinn segir Jóhannes frá því að reynt hafi verið að ræna honum í eitt skipti en að öryggisverðirnir sem hafa unnið með honum hafi stoppað það. „Í eitt skipti reyndi einhver að ræna mér úr húsinu þar sem ég bjó. Öryggisverðirnir mínir voru hins vegar vopnaðir,“ segir Jóhannes í viðtalinu.
Blaðamaður Gautaborgarpóstsins spyr Jóhannes framhaldsspurningar um þetta atriði: „Þeir [öryggisverðirnir] hótuðu sem sagt einhverjum með byssum sem komu til að ræna þér?“ Svar Jóhannesar við þessu er: „Já, það er rétt.“
Blaðamaður Gautaborgarpóstsins segir frá því að Jóhannes búi og starfi á Íslandi þar sem hann geri engar sérstakar öryggisráðstafanir þar sem hann telji að það séu fyrst og fremst namibískir aðilar sem hafi viljað gera honum mein. „Hann býr nú á Íslandi og vinnur ennþá að því að upplýsa málið. Flestar af þeim tilraunum sem gerðar voru til að ryðja honum úr vegi áttu sér stað áður en greint var frá málinu í fjölmiðlum árið 2019. Hann segir að það séu fyrst og fremst aðilar í Namibíu sem hafi viljað gera honum mein.“
„Við höfum haft eftirlit á stöðunum sem hann hefur verið á“
Jóhannes hefur ekki sagt opinberlega að útgerðarfélagið Samherji hafi reynt að vinna honum mein en einhverjir kunna að hafa túlkað orð hans þannig. Þorsteinn Már Baldvinsson hefur meðal annars kært Jóhannes fyrir rangar sakargiftir vegna þessa.
Öryggisaðgerðir til að verja Jóhannes í Gautaborg
Í viðtalinu kemur fram að Jóhannes Stefánsson hafi fyrst og síðast varann á sér og óttist um öryggi sitt þegar hann ferðast erlendis. Í viðtalinu er haft eftir einum af skipuleggjendum verðlaunanna að Jóhannes hafi búið undir dulnefni á hótelinu í Gautaborg, að hann hafi verið sóttur á flugvöllinn undir dulnefni auk þess sem lögreglan í borginni hafi verið meðvituð um samastað hans og dagskrá meðan hann var gestur í borginni og aldrei verið langt frá Jóhannesi, jafnvel þó honum hafi ekki verið fylgt við hvert fótmál.
Í viðtalinu er haft eftir Jonas Borgström, yfirmanni í lögreglunni í Gautaborg: „Við höfum haft eftirlit á stöðunum sem hann hefur verið á, það er segja að við höfum verið í nágrenni við hann og við höfum verið í sambandi við Nathalie [Bödtker Lund, einn af skipuleggjendum verðlaunaafhendingarinnar] ef eitthvað skyldi gerast,“ segir hann.
Athugasemdir