Þegar ég var barn voru mér gefnir mjög sterkir skammtar af penisilíni sem klúðruðu algjörlega í mér ónæmiskerfinu og höfðu þannig neikvæð áhrif á heilsu mína til frambúðar. Ég hef glímt við heilsufarsvandamál allar götur síðan.
Penisilínið átti auðvitað að gera mér gott. En á þessum tíma hafði það aðeins verið í almennri notkun á Vesturlöndum í nokkur ár og til að byrja með var lyfið afar breiðvirkandi og notað í miklum styrkleika. Ég fékk fyrstu penisilínsprautuna þegar ég var aðeins tveggja vikna gömul og ástæðan var einfaldlega sú að ég var með eyrnabólgu. Þetta var svolítið eins og að nota sprengju til þess að drepa litla mús og yrði aldrei gert í dag.
En báðir foreldrar mínir voru brenndir af því að hafa misst nákomna ættingja úr sýkingum áður en penisilín kom til sögunnar. Fjórtán ára gömul hafði mamma misst móður sína eftir að kjúklingabein festist í hálsinum á henni og sýking kom í sárið. Einnig hafði systir mömmu misst ungan son sex árum áður en ég fæddist og pabbi hafði misst tveggja ára bróður. Fjölskylda mín tók lyfinu því fagnandi, bæði þegar ég fékk fyrstu eyrnabólguna og alltaf þegar ég veiktist eftir það. Ég skil það vel og hefði eflaust gert það sama í þeirra sporum. En líf mitt hefði orðið öðruvísi ef þessu „undraefni“ hefði ekki verið dælt í mig í barnæsku.“
Athugasemdir