Fyrirtæki í skattaskjólinu Tortóla, sem var í eigu dótturfélags flugfélagsins Icelandair, keypti þrjár Boeing-þotur með lánum frá Íslandsbanka, síðar Glitni. Tortólafélagið heitir Barkham Associates S.A. Félagið á Tortóla var í eigu dótturfélags Icelandair, IG Invest ehf., sem aftur var hluti af rekstri flugvélaleigunnar Icelease ehf. Aldrei var minnst á tilvist Tortólafélagsins í ársreikningum Icelandair eða tengdra félaga, svo vitað sé.
Lánið til flugvélakaupanna var veitt árið 2004 og tók Glitnir veð í þotunum til að tryggja það. Forstjóri Icelandair á þessum tíma var Sigurður Helgason en hann stýrði félaginu frá 1985 til 2005. Þáverandi fjármálastjóri Icelandair, Halldór Vilhjálmsson, settist í stjórn Tortólafélagsins og var í því hlutverki þar til árið 2009 þegar Kári Kárason, núverandi framkvæmdastjóri og einn af eigendum Icelease ehf., tók við því hlutverki hans.
Athugasemdir