Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra gerði starfslokasamning við Hjört Braga Sverrisson, fráfarandi formann kærunefndar útlendingamála, þrátt fyrir að hann hefði tilkynnt um yfirvofandi starfslok og að hann myndi biðjast lausnar. Þetta staðfestir ráðuneytið í svari við fyrirspurn Stundarinnar. Samningurinn kveður á um 10 mánaða launagreiðslur, en almennur uppsagnarfrestur embættismanna er þrír mánuðir.
Í vor skoðaði dómsmálaráðuneytið „samskipti og ágreining“ innan kærunefndar útlendingamála og meðal starfsfólks hennar. „Málin voru komin í þann farveg að ráðuneytið taldi nauðsynlegt að láta fara fram úttekt utanaðkomandi aðila á stjórnun og starfsháttum innan kærunefndarinnar,“ segir í svari ráðuneytisins. „Í tölvupósti til ráðuneytisins 15. apríl síðastliðinn tilkynnti Hjörtur Bragi að honum hefði boðist starf erlendis sem hann hefði þegið og því reikni hann með að biðjast lausnar síðar á árinu með þriggja mánaða fyrirvara.“
Eins og Stundin greindi frá í maí hafði kærunefndin leynt fjölda úrskurða nefndarinnar um tæplega eins árs skeið í stað þess að birta þá opinberlega eins og lög segja til um. Gerði ráðuneytið opinberlega athugasemdir vegna þessa.
Ráðuneytið er tvísaga hvað varðar starfslok Hjartar Braga, en í svari við fyrirspurn Stundarinnar í maí sagði ráðuneytið hann þegar hafa óskað lausnar og minntist ekki á starfslokasamninginn. „Hirti Braga bauðst starf erlendis sem hann hefur þegið og óskaði hann því lausnar frá embætti sínu sem formaður kærunefndar útlendingamála,“ sagði í svari dómsmálaráðuneytisins 18. maí.
Nú segir ráðuneytið starfslokasamninginn hafa verið gerðan án lausnarbeiðni vegna ágreiningsins innan nefndarinnar. „Í ljósi alls þessa þótti farsælast að semja við hann um ljúka störfum fyrr en hann hafði ráðgert til að unnt væri að skapa stöðugleika hjá nefndinni sem fyrst, en lausnarbeiðni lá þá ekki fyrir,“ segir í svarinu nú.
„[...] þótti farsælast að semja við hann um ljúka störfum fyrr en hann hafði ráðgert til að unnt væri að skapa stöðugleika hjá nefndinni“
„Samkomulag var gert við Hjört Braga Sverrisson um starfslok sem formaður Kærunefndar útlendingamála í lok apríl,“ segir í svari ráðuneytisins. „Við samningsgerð voru 42 mánuðir eftir af skipunartímanum auk biðlauna og orlofsréttar. Þá hafði forstöðumaðurinn unnið sér inn rétt til launaðs námsleyfis. Samningurinn fól í sér launagreiðslur í um 10 mánuði. Ráðuneytið hafði samráð við kjara- og mannauðssýslu ríkisins við gerð samningsins.“
Leyndi úrskurðum kærunefndarinnar
Kærunefnd útlendingamála úrskurðar í málum um alþjóðlega vernd þegar umsækjendur, oft nefndir hælisleitendur, kæra niðurstöðu Útlendingastofnunar í málum sínum. Var Hjörtur Bragi skipaður formaður nefndarinnar árið 2014.
Ekki kemur fram í svari dómsmálaráðuneytisins hvers eðlis ágreiningurinn innan kærunefndar útlendingamála og meðal starfsfólks hennar var. Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafði ekki verið samstaða í nefndinni í vor um tilhögun birtingu úrskurða hennar.
1. júní 2020 undirritaði Hjörtur Bragi nýjar verklagsreglur og dró í kjölfarið verulega úr birtingu úrskurða nefndarinnar, sem nefndin á samkvæmt lögum að birta opinberlega og með ópersónugreinanlegum hætti. Stundum birtust aðeins einn eða tveir úrskurðir á mánuði, en árið 2019, áður en verklagsreglurnar voru settar, hafði nefndin birt að meðaltali um 50 á mánuði.
Blaðamaður Stundarinnar óskaði í febrúar eftir að fá úrskurðina afhenta, en nefndin synjaði beiðninni. Kærði hann því niðurstöðuna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem komst að þeirri niðurstöðu 11. maí að fella niður ákvörðun kærunefndarinnar. Tómas Hrafn Sveinsson, þá starfandi formaður kærunefndarinnar eftir starfslok Hjartar Braga, sagði það sína skoðun að birta ætti úrskurðina opinberlega og að vinna væri í gangi við endurskoðun á fyrra verklagi við birtingu þeirra.
Gagnrýndi störf Hjartar eftir að samningur var undirritaður
Eftir að Hjörtur Bragi baðst lausnar snupraði Áslaug Arna kærunefndina á Alþingi í svari við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um birtingu úrskurðanna og verklagsreglurnar sem Hjörtur Bragi undirritaði. Sagði ráðherra „rétt að hugað sé að því hvort umræddar reglur þarfnist endurskoðunar“ og að ráðuneytið hefði „nú til skoðunar ýmis atriði er varða birtingu úrskurða og fyrirkomulag þar að lútandi“. Svarið var birt sama dag og úrskurðarnefnd upplýsingamála komst að niðurstöðu í kærumáli blaðamanns Stundarinnar. Hafði starfslokasamningurinn við Hjört Braga þá þegar verið undirritaður.
„[...] til þess fallið að draga verulega úr trúverðugleika og hlutleysi nefndarinnar“
Embættið formanns var auglýst laust til umsóknar 8. maí og sóttu sjö um. Í ágúst skipaði svo Áslaug Arna Þorstein Gunnarsson, staðgengil forstjóra Útlendingastofnunar, í embætti formanns kærunefndar útlendingamála. Fjöldi félagasamtaka og einstaklinga sendu í kjölfarið frá sér sameiginlega yfirlýsingu og gagnrýndu skipun Þorsteins vegna starfa hans fyrir Útlendingastofnun, hvöttu hann til að segja af sér og vildu að Áslaug Arna gerði grein fyrir ferlinu við ráðningu hans.
„Sú ákvörðun að ráða aðila sem gegndi stöðu staðgengils fyrir forstjóra ÚTL í 10 ár sem formann nefndar sem hefur umsjónar- og eftirlitshlutverk gagnvart þeirri sömu stofnun er til þess fallið að draga verulega úr trúverðugleika og hlutleysi nefndarinnar gagnvart ÚTL,“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni.
Gerði 57 milljóna starfslokasamning við ríkislögreglustjóra
Áslaug Arna hefur áður í ráðherratíð sinni gert starfslokasamning við embættismann, en í nóvember 2019 undirritaði hún samning við Harald Johannessen, þá ríkislögreglustjóra, upp á 57 milljónir króna. Mikill ágreiningur hafði ríkt um störf Haraldar og höfðu átta af níu lögreglustjórum landsins, auk formanns Landssambands lögreglumanna, lýstu vantrausti á hann.
Samningurinn hljóðaði upp á að Haraldur fengi launagreiðslur í sem nemur 27 mánuðum eftir starfslok. Á tímabilinu fær Haraldur rúmar 47 milljónir króna og er honum einungis skylt að hafa fasta viðveru í þrjá af þessum 27 mánuðum. Við það bætast tæplega 10 milljónir króna í launatengd gjöld.
Athugasemdir