Hagtölur frá ári til árs – svo sem tölur um tekjur á mann, atvinnu og fleira – duga ekki til fullnaðarlýsingar á vexti og viðgangi samfélagsins til langs tíma litið. Meira þarf til. Það er lítill vandi að halda uppi tekjum heimilis með því að selja fjölskyldusilfrið, en slíkt ráðslag endist yfirleitt ekki nema skamma hríð. Galdurinn er að afla tekna án þess að ganga á eignir, hvort heldur áþreifanlegar eignir eins og auðlindir náttúrunnar eða óáþreifanlegar eignir eins og velferð fólksins, heilbrigði, lýðræði og menntun.
Afli og floti
Tökum dæmi. Heildarafli íslenzkra fiskiskipa af öllum miðum er nú aðeins um helmingur þess sem hann var um aldamótin síðustu í tonnum talið þótt fiskiskipaflotinn hafi minnkað um bara fimmtung (mynd 1). Hlutdeild sjávarútvegs í landsframleiðslu er nú innan við 7% sem er aðeins um helmingur þess sem hún var 1997. Samt halda Alþingi og ríkisstjórn áfram að skjálfa á báðum beinum frammi fyrir eigendum útvegsfyrirtækja sem hegða sér enn sem jafnan fyrr eins og ríki í ríkinu. Ætla má að minnkandi afli stafi að einhverju leyti af brottkasti sem stjórnvöld hafa ekki enn fengizt til að viðurkenna þrátt fyrir vitnisburði margra fiskimanna. Brottkast er ólöglegt af því að það er skaðlegt.
Fólk og fé
Tökum annað dæmi. Sauðfjárstofn bænda um landið hefur dregizt saman um meira en helming frá 1980 (mynd 2). Þessa sér stað hringinn í kringum landið og inn til sveita þar sem nú blasa víða við sjónum grænar hlíðar þar sem áður voru gráir melar. Minni bústofn og minni lausaganga leggja léttari byrðar á landið. Bændur verðskulda þakkir fyrir þessa framför. En betur má ef duga skal því kindakjötsframleiðslan er um það bil þriðjungi meiri en nemur neyzlunni innan lands. Kjötneyzla er á undanhaldi. Því er eðlilegt að bændur beini kröftum sínum að öðrum verkum í auknum mæli svo sem ferðaþjónustu og hrossarækt. Atvinnuhættir breytast með tímanum. Siglfirðingar salta ekki lengur síld heldur plokka þeir rækjur og ferðamenn.
Grænir reikningar
Þessum dæmum er ætlað að skýra hvers vegna þurrar tölur um þróun framleiðslu og tekna frá einu ári til annars segja ekki nema hálfa sögu. Við þurfum einnig að vita um ástand landsins og miðanna, velferð fólksins og vantaldar tekjur og eignir. Ef tekjur manna vaxa en umhverfinu hrakar ættu umhverfisspjöllin að réttu lagi að koma til frádráttar í þjóðhagsreikningum svo sem að er stefnt með grænum þjóðhagsreikningum. Með líku lagi ætti minnkandi ofbeit að minnka frádráttinn. Sama á við um marga aðra þætti. Lýðræðisspjöll, spilling og misskipting ættu að réttu lagi að koma til frádráttar í grænum þjóðhagsreikningum ekki síður en önnur umhverfisspjöll. Væri ólaunuð vinna kvenna tekin með í reikninginn, myndi heimsframleiðslan aukast um þriðjung eða þar um bil samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna frá 1995. Þarna er verk að vinna handa hagstofum heimsins, verk sem er ekki langt á veg komið þótt vandinn blasi við.
Fólksflutningar
Skoðum nú enn einn anga þessa máls. Íbúum Íslands hefur fjölgað. Við vorum 227 þúsund 1980 og erum nú 369 þúsund. Þessi fjölgun um 142 þúsund manns leynir breyttri samsetningu mannfjöldans. Á þessum 40 árum hafa 450 íslenzkir ríkisborgarar flutt úr landi á hverju ári að jafnaði umfram fjölda þeirra íslenzku ríkisborgara sem hafa flutt aftur heim. Þetta heitir að greiða atkvæði með fótunum. Á sama tíma hafa 1.400 erlendir ríkisborgarar flutt til Íslands á hverju ári að jafnaði umfram fjölda þeirra erlendu ríkisborgara sem hafa flutt úr landi. Þannig stendur á því að 950 manns hafa flutt til Íslands umfram fjölda brottfluttra á hverju ári að jafnaði þennan tíma, eða 38.000 manns samanlagt. Því stafar röskur fjörðungur af fjölgun landsmanna frá 1980 af aðflutningi erlends fólks til landsins umfram brottflutning íslenzkra ríkisborgara. Afgangurinn stafar af barnsfæðingum umfram dauðsföll.
Mynd 3 sýnir að flest árin hafa fleiri íslenzkir ríkisborgarar flutt burt af landinu en aftur heim. Það er umhugsunar- og áhyggjuefni í svo fámennu landi. Aðeins tvisvar hafa fleiri erlendir ríkisborgarar flutt burt af landinu en til landsins og það var 1992 og síðan aftur eftir hrun, 2009-2011. Aðflutningur erlends fólks ætti flestum að vera fagnaðarefni í fámenninu að því gefnu að vel sé á málum haldið.
Erlendir ríkisborgarar voru á bilinu 1%–2% af íbúafjölda landsins 1950–1999 en þeim hefur frá aldamótum fjölgað upp í 14%. Fyrir aldamótin voru 5% allra landsmanna fædd erlendis en nú er hlutfallið 18% og er hærra en í mörgum nálægum löndum. Talan fyrir Danmörku er 10%, talan fyrir Bandaríkin og Bretland er 14%, norska talan er 16% og sænska talan er 20%.
Samsetning mannfjöldans í landinu og þá um leið mannaflans á vinnumarkaði hefur því breytzt mjög frá aldamótum. Án þess að hægt sé að svo stöddu að staðhæfa neitt um orsök og afleiðingu vekur það athygli að hlutfall mannaflans sem hefur ekki sótt framhaldsskóla er hærra á Íslandi en í hinum löndunum sem talin voru að framan. Á Íslandi hafa 22% mannaflans engu námi lokið eftir grunnskóla borið saman við 18% í Danmörku og Noregi, 16% í Svíþjóð, 20% á Bretlandi og 9% í Bandaríkjunum. Kannski er íslenzka talan hærri en tölur hinna vegna þess að þeir íslenzku ríkisborgarar sem hverfa úr landi eiga lengri skólagöngu að baki en þeir erlendu ríkisborgarar sem flykkjast til Íslands. Sé svo þarf einnig að huga að því að margir erlendir ríkisborgarar á Íslandi vinna störf sem virðast ekki hæfa menntun þeirra, þjálfun og reynslu til fulls, verkfræðingar sem aka leigubílum og áfram. Einnig þarna er verk að vinna handa Hagstofu Íslands.
Þau gefa lífinu lit
Hvað sem öllum staðtölum um fjölgun erlends fólks á Íslandi líður virðist ríkja víðtæk sátt um þá skoðun meðal heimamanna að allt þetta fólk hafi á heildina litið gert landinu gott. Hvar væru sjúkrahúsin og dvalarheimilin ef erlends vinnuafls nyti ekki við? Hvar væri byggingabransinn og hvar væru veitingahúsin? – og þannig mætti lengi telja. Fjölbreytni gefur lífinu lit. Eða eins og segir í aðfaraorðum nýju stjórnarskrárinnar: „Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.“
Þetta er einnig tilfinning og reynsla grannþjóða okkar yfirleitt þótt þar hafi sums staðar borið skugga á vegna þess að sumum heimamönnum þykir sem sumir nýbúar hafi ekki lagt sig nóg fram um að semja sig að háttum innfæddra. Það má til sanns vegar færa. Hér á hún við gestgjafareglan sem Kristján Hreinsson, skáld og heimspekingur, hefur lýst með skýrum rökum: Gestirnir þurfa að semja sig að reglum gestgjafans.
Athugasemdir