,,Vaxtarmöguleikarnir í fiskeldi til framtíðar eru í slíkum sjálfbærum lausnum," segir í ársreikningi norska laxeldisfyrirtækisins Norway Royal Salmon, sem er meirihlutaeigandi í íslenska laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish. Höfuðstöðvar Arctic Fish eru á Ísafirði en fyrirtækið stundar sjókvíaeldi á eldislaxi og regnbogasilungi inni í nokkrum fjörðum á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í ársreikningi Norway Salmon sem skilað var til ársreikningarskrárinnar í Noregi í vor.
Í staðhæfingu norska laxeldisfyrirtækisins er vísað til þess að fyrirtækið þróar nú nýjar lausnir í laxeldi í Noregi þar sem sjókvíar fyrirtækisins eru staðsettar úti á rúmsjó, langt frá landi, en ekki inni í norskum fjörðum. Þetta er gert til að ,,takmarka fótspor laxeldisins í umhverfinu" eins og segir í ársreikningi fyrirtækisins. Þessi lausn kallast Arctic Offshore Farming og segir Norway Salmon að hún tryggi ,,góða velferð fiskanna" og sé ,,sjálfbær lausn".
Arctic Fish og Veiga
Fyrirtækið Arctic Fish á Ísafirði hefur verið nokkuð til umræðu á liðnum dögum eftir að kajakræðarinn Veiga Grétarsdóttor tók upp myndbönd af afmynduðum eldislöxum í sjókvíum fyrirtækisins, sem og í sjókvíum Arnarlax, núna í vor. Myndirnar voru sýndar á RÚV um liðna helgi.
Stjórnendur Arctic Fish voru ósáttir við Veigu og hringdu í hana, nánar tiltekið Daníel Jakobsson, og lýsu yfir óánægju sinni með uppátæki hennar. Arctic Fish telur meðal annars að Veiga hafi brotið sóttvarnarlög með myndatökunni.
Veiga sagðist í viðtali við Stundina fyrr í vikunni hafa orðið fyrir ákveðinni hugljómun þegar hún sá afmyndaða regnbogasilunga í eldiskví í Skutulsfirði og að hún hafi í kjölfarið ákveðið að taka upp myndir í laxeldiskvíum í Dýrafirði og Arnarfirði, meðal annars hjá Arctic Fish. ,,Það sem blasti við mér var ekki fögur sjón,” sagði Veiga við Stundina en varð landsþekkt þegar hún sigldi kringum Ísland á kajak árið 2019 en með því vildi hún meðal annars vekja athygli á rusli og ástandi sjávar við Íslandsstrendur. Myndirnar af afmynduðu löxunum sem Veiga tók eru þær fyrstu sem birtast opinberlega úr íslensku laxeldi.
Athygli vekur að Arctic Fish styrkti Veigu í þeim leiðangri, ásamt fjölmörgum öðrum fyrirtækjum og notaði nafn hennar meðal annars í markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Þegar hún kom til Ísafjarðar skrifaði Arctic Fish á Facebook-síðu sína. ,,Vinkona okkar hún Veiga Grétarsdóttir mun koma til Ísafjarðar á morgun! Mun Veiga þá ljúka við hringferð sína í kringum Ísland á kayak, en þess ber að geta að hún er bæði fyrst allra kvenna til að róa hringinn sem og fyrst allra til að klára hringinn rangsælis. Að vera á móti straumnum kallar á styrkleika, þrautseigju, og skýran koll. Allt kostir sem vinkona okkar býr svo sannarlega yfir."
Eftir að Veiga tók upp myndirnar í sjókvíum Arnarlax sendi félagið hins vegar frá sér tilkynningu þar sem það sagði að einungis lítill hluti af eldisfiskunum í sjókvíunum væru afmyndaðir og að Veiga hefði gerst sek um lögbrot. ,,Á þeim tíma sem umrædd myndskeið eiga að hafa verið tekin upp voru sennilega um 5 milljónir fiska í kvíum á Vestfjörðum. Særðir fiskar, eins og sjást á umræddum myndum eru algjör undantekning og lýsa með engum hætti ástandi í eldiskvíum fyrirtækisins. Nánast öll framleiðsla félagsins, um 99% fer enda í hæstu gæðaflokka," sagði fyrirtækið í fréttatilkynningu.
Aflandseldi er framtíðin en vilja stóraukið eldi í fjörðum Íslands
Samtímis vinnur Arctic Fish að því að stórauka laxeldi sitt inni í fjörðum Vestfjarða jafnvel þó að Norway Royal Salmon virðist vera meðvitað um að slíkt sjókvíaeldi svo nálægt landi er ekki framtíðin. Í ársreikningi Norway Royal Salmon kemur fram að Arctic Fish sé í dag með leyfi til að framleiða 17.100 tonn af eldislaxi á ári í Ísafjarðardjúpi, Dýrafirði og Tálkna- og Patreksfirði og að félagið hafi sótt um leyfi til að framleiða 14.800 tonn til viðbótar í þessum fjörðum sem og í Arnarfirði. Samanlagt gæti Arctic Fish því verið með leyfi til að framleiða tæplega 32.000 þúsund tonn af eldislaxi í þessum fjörðum.
Út frá ársreikningi Norway Royal Salmon er því ljóst að á sama tíma og félagið vinnur að því að þróa þessar aflandalausnir ætla fyrirtækið líka að halda áfram að finna ný lönd fyrir strandeldi sitt, meðal annars Arctic Fish og Vestfirðina. Á sama tíma og Norway Royal Salmon segir að möguleikar laxeldisins í heiminum á að vaxa til framtíðar séu í aflandseldinu þá séu líka vaxtamöguleikar í strandeldinu á Íslandi: ,,Arctich Fish er staðsett á Vestfjörðunum á Íslandi þar sem eru góð skilyrði fyrir fiskeldi og vaxtarmöguleikar til framtíðar eru miklir," segir í ársreikningnum. Þessir vaxtarmöguleikar eru í strandeldi en ekki aflandseldi.
Forstjórinn: Náttúran ráði för
Fyrirtækið segir hins vegar ekki í ársreikningum að strandeldið sem Arctic Fish stundar í sjókvíum sé ,,sjálfbært" og að þetta sé framleiðsluaðferð á eldislaxi sem feli í sér minnsta ,,fótsporið í umhverfinu". Þetta eru einkunnir sem fyrirtækið velur fyrir hina nýju framleiðsluaðferð sem það er að þróa ásamt öðrum laxeldisfyrirtækjum, meðal annars Salmar AS, norskum eiganda Arnarlax á Bíldudal. Aflandseldið.
,, Við erum sannfærðir um að sjálfbær framleiðsla á laxi er mikilvægur liður að því að tryggja verðmætasköpun okkar til framtíðar"
Um þetta segir forstjóri Norway Royal Salmon, Charles Høstlund, í ársreikningnum: ,,Hjá Norway Royal Salmon höfum við mikinn metnað fyrir því að framleiða næringarríkan lax í hæsta gæðaflokki en með eins smá fótspori í umhverfinu og við getum eða eins og við orðum það þá erum við ,,Guided by nature". Við erum sannfærðir um að sjálfbær framleiðsla á laxi er mikilvægur liður að því að tryggja verðmætasköpun okkar til framtíðar," segir hann í erindi sínu í ársreikningnum.
Miðað við orð fyrirtækisins sjálfs í ársreikningnum þá mun sjálfbær framleiðsla á laxi í framtíðinni byggja á því að notast við aflandseldi en ekki þess konar strandeldi sem fyrirtækið hefur stundað hingað til og sem Arctic viss er nú að byggja upp í stórum stíl á Vestfjörðum og sem fyrirtækið hefur gagnrýnt Veigu Grétarsdóttur fyrir að fjalla um.
Athugasemdir