Jonas Vogel, pistlahöfundur fyrir sænska dagblaðið Gautaborgarpóstinn, birti í morgun pistil þar sem hann hrósar Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni, hástert fyrir árangur hans í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn hér á landi.
Þá bendir hann á að árin 2016 og 2018 hafi Ísland náð stórkostlegum árangri í fótbolta með aðstoð Svía, nánar tiltekið Lars Lagerbäck landsliðsþjálfara, og að „nú er komið að okkur að biðja Ísland um hjálp“ með því að lána Þórólf í staðinn. „Að skipta á fótboltaþjálfara fyrir sóttvarnalækni væri dæmi um gott Norðurlandasamstarf“
Í sárri þörf fyrir nýjan sóttvarnalækni
Ennfremur segir Jonas að Svíþjóð sé í sárri þörf fyrir nýjan sóttvarnalækni með hartnær fimmtán þúsund dauðsföll þar í landi sökum faraldursins.
„Það sem Svíðþjóð þarf á að halda er sóttvarnalæknir eins og hinn íslenski Þórólf Guðnason.“
Jonas hrósar Þórólfi fyrir að hafa leitt þá vinnu sem hefur að hans mati skilað sér í því að halda smitum í lágmarki með „vönduðum jöfnum aðgerðum“. Nú þegar smittölur fara hækkandi á Íslandi segir hann landann vera að undirbúa nýjar ráðstafanir. „Með þessum hætti hefur verið komið í veg fyrir mikla þjáningu og mörgum lífum hefur verið bjargað.“
Athugasemdir