Ritstjóri fréttavefs Eyjamanna, Eyjar.net, hefur stofnað til undirskriftarsöfnunar til þess að fá þeirri ákvörðun hnekkt að afbóka Ingó Veðurguð úr brekkusöngnum á komandi Þjóðhátíð, í kjölfar þess að á þriðja tug umkvartana og ásakana á hendur Ingó um kynferðislega hegðun eða brot gegn ungum stúlkum og konum, voru birtar voru á TikTok-aðgangi hópsins Öfga.
Mótmæla „dómstól götunnar“
Við undirskriftasöfnuina segir: „Við undirrituð skorum á þjóðhátíðarnefnd ÍBV að endurskoða ákvörðun sína um að afbóka Ingólf Þórarinsson á Þjóðhátíð 2021. Það er ótækt með öllu að dómstóll götunnar stjórni því hverjir komi fram á viðburðum á Íslandi. Engin kæra liggur fyrir og því er engin rannsókn í gangi.“
Tryggvi Már Sæmundsson, ritstjóri Eyjar.net, sem boðaði til undirskriftasöfnunarinnar, birti grein á vefnum þar sem hann fullyrti að ekkert hefði breyst frá því ákvörðun var tekin um að afboða Ingó.
„Í gær tilkynnti þjóðhátíðarnefnd að Ingólfur Þórarinsson kæmi ekki fram á Þjóðhátíð í ár. Með fylgdi texti um að þessi ákvörðun nefndarinnar svaraði fyrir sig sjálf og yrði ekki rædd frekar af hennar hálfu. Ekkert nýtt hafði komið fram í umræðunni um málið milli þess að Ingó var tilkynntur til leiks þar til að nefndin bognaði og tilkynnti um afbókun listamannsins,“ segir hann og bætir við að engir þolendur hafi afhjúpað sig. „Engin meint fórnarlömb hafa stigið fram. Meira að segja öfgahópurinn segist ekki hafa nafngreint neinn. Hvorki meinta þolendur né meintan geranda. Kjarni málsins er þessi: Það er ótækt með öllu að dómstóll götunnar stjórni því hverjir komi fram á viðburðum á Íslandi. Engin kæra liggur fyrir og því er engin rannsókn í gangi af hálfu lögreglunnar. Því er það mikilvægt að landsmenn aðstoði þjóðhátíðarnefnd ÍBV að endurskoða þá ákvörðun um að afbóka Ingó á Þjóðhátíð. Það er gert með því að skrifa undir undirskriftarlista sem aðgengilegur er hér.“
Undirskriftalisti og frásagnir af Ingó
Frá því að ákvörðun Þjóðhátíðarnefndar var kynnt hefur hópurinn Öfgar hins vegar birt á þriðja tug frásagna stúlkna sem spanna allt frá mikilli ágengni gagnvart stúlkum undir lögaldri að nauðgun.
Auk þess undirrituðu 130 nafngreindar konur undirskriftalista þar sem skorað var á þjóðhátíðarnefnd að afturkalla boð til Ingós.
Hópurinn Öfgar berst hins vegar fyrir réttinum til að mega segja frá reynslu kvenna nafnlaust, enda hafi Ingó ekki verið nafngreindur og enginn raunhæfur farvegur til fyrir þolendur kynferðisbrota í flestum tilfellum.
„Við munum aldrei rjúfa trúnað við þær sem hafa treyst okkur fyrir frásögnum sínum. Þolendur hafa rétt á að segja sínar sögur, nafnlausar eða undir nafni, án þess að almenningur heimti nafngreiningu á meintum geranda og að hann sér ákærður og dreginn fyrir dóm. Með þessum frásögnum erum við að benda á kerfisbundið vandamál í samfélaginu og þeim veruleika sem konur búa við. Nauðgunarmenning og kynferðisbundið ofbeldi eru samfélagsleg vandamál og hefur dómskerfið algjörlega brugðist þolendum. Viðbrögð samfélagsins á internetinu undirstrikar það vel hvers vegna þolendur ofbeldis segja ekki frá fyrr en löngu eftir að brot hefur átt sér stað og fara ekki dómsleiðina.“
Fyrir liggur að lítið brot þeirra kynferðisbrota sem konur greina frá leiðir til ákæru eða sakfellingar.
Hættur að sinna gæslu
Á Facebook-síðu Eyjamanna, Heimakletti, segir flutningabílstjóri frá Selfossi frá því að hann muni hætta að starfa að gæslu í sjálfboðastarfi á Þjóðhátíð, ásamt hópi fólks. „Undanfarin 8 ár hef ég verið með 15 manna gæsluhóp á sunnudagskvöldum á Þjóðhátíð. Eftir ákvörðun þjóðhátíðarnefndar um að útiloka veðurguðinn frá brekkusöngnum án raunverulegrar ástæðu og taka mark á óstaðfestum sögusögnum á netinu, þá hef ég ákveðið að enginn komi á mínum vegum til gæslu þetta árið,“ segir hann.
Umræður í hópnum eru í báðar áttir. Hins vegar þakkar kona honum fyrir „enda höfum við lítið við gæsluliða að gera sem taka ekki mark á þolendum kynferðisofbeldis“ og önnur segist hafa farið út með hópi hans en telji hann ekki réttan aðila til að leiða starfið. „Ég hef farið út sem hluti af þínum hóp Baldur, og eftir þessi skrif held ég að eyjamenn séu betur settir en ekki að þú sleppir því að mæta með þinn hóp. Ef þetta er viðhorfið gegn þolendum ofbeldis þá ert þú ekki maðurinn til að sinna gæslustörfum í dalnum.“
Þá hafa aðstandendur hlaðvarpsþáttarins Elds og brennisteins, sem hefur verið aðgengilegur á Vísi.is, ákveðið hætta framleiðslu á þættinum eftir umræðu þeirra um meinta nauðgunarmenningu í Eyjum, þar sem rætt var um hvort það væri íþrótt að nauðga konum af meginlandinu.
Athugasemdir