Aðstæður á bráðamóttöku Landspítala eru með þeim hætti að þar er ekki hægt að uppfylla faglegar kröfur samkvæmt lögum, hvorki þegar kemur að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þar er veitt né þegar kemur að mönnun og ástandi húsnæðis. Sjúklingar sem þarfnast innlagnar á aðrar deildir þurfa oft og tíðum að bíða í hátt í sólarhring eftir tilfærslu, ómögulegt er að sinna sýkingarvörnum eins og þörf er á og hjúkrunarfræðingar þurfa að sinna allt of mörgum sjúklingum. Með þessu ástandi er heilsu og öryggi sjúklinga stefnt í hættu og starfsfólk er að gefast upp, brennur út í starfi eða hverfur frá störfum.
Hinn 17. desember 2018 sendi Alma Möller landlæknir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra minnisblað varðandi alvarlega stöðu á bráðamóttöku Landspítalans. Hafði Alma fengið ábendingu frá sérfræðilækni í bráðalækningum 6. desember sama ár þar sem kom fram að vegna mikils álags væri öryggi sjúklinga ógnað á bráðamóttökunni.
Athugasemdir