„Orkusalan harmar mjög að félagið sé dregið inn í umræðuna með þessum hætti enda ekkert sem félagið hefur til saka unnið,“ segir Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, í svari við spurningum er varða ráðningarferli nýs fjármálastjóra, Elísabetar Ýrar Sveinsdóttur.
Hún er meðal þeirra sem namibíska lögreglan bað Interpol um að hafa uppi á vegna rannsóknar á mútugreiðslum Samherja til namibískra áhrifamanna.
Stundin beindi því til Magnúsar hvort stjórnendur hefðu verið meðvitaðir um aðkomu Elísabetar Ýrar að millifærslum frá Kýpurfélögum Samherja til leynifélags James Hatuikulipi, stjórnarformanns namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor, í Dúbaí. James hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í lok árs 2019 vegna málsins. Magnús svaraði engri af þeim spurningum sem Stundin beindi til hans en sagði þess í stað að „[f]aglega var staðið að ráðningunni í samvinnu við ráðningarstofu okkar VinnVinn“.
„Orkusalan harmar mjög að félagið sé dregið inn í umræðuna með þessum hætti enda ekkert sem félagið hefur til saka unnið“
Upplýsingar um áhuga namibískra lögregluyfirvalda á Elísabetu Ýr komu fram í skjölum sem lögð fyrir fyrir dómara á síðasta ári. Í beiðninni til Interpol sagðist lögreglan gruna hana og níu aðra nafngreinda starfsmenn Samherja um lögbrot. Hún er þó ekki meðal þeirra þriggja sem saksóknari í Namibíu hefur viljað ákæra í því máli sem nú er til meðferðar fyrir dómstólum. Það er aftur á móti Ingvar Júlíusson, en þau tvö samþykktu millifærslurnar til Dúbaí-félagsins Tundavala.
Athugasemdir