„Menn eru bara að fara á taugum af því að þetta snýr að einhverjum blaðamönnum. Þið eruð svo sjálfhverfir, þið eruð svo ótrúlega miklir aumingjar, þið eruð alveg ótrúlegir,“ sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í útvarpsþætti Harmageddon í gær þar sem „skæruliðadeild“ Samherja var umræðuefnið. Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, var einnig til viðtals í þættinum.
Réttmæt vörn Samherja
Að mati Brynjars eru þau vinnubrögð „skæruliðadeildar“ Samherja sem Stundin og Kjarninn hafa fjallað um, réttmæt vörn fyrirtækisins. „Þetta er fyrirtæki sem er djöflast á alla daga,“ sagði Brynjar og hélt því svo fram að málið í heild sinni væri „nauðaómerkilegt“.
Stóra álitaefnið að hans mati sé það að gögnunum hafi verið stolið. „Stóra málið og siðleysið í þessu er að vera birta einhver gögn, stolin gögn um skoðanir fólks sín á milli,“ sagði hann. Ekkert af því sem birtist í umfjöllun Stundarinnar segir hann kalla á það að almenningur fái aðgang og sé upplýstur um þær aðferðir sem stjórnendur Samherja og starfsfólk á þeirra vegum hefur beitt bæði blaðamenn og aðra.
„Þið eruð svo ótrúlega miklir aumingjar, þið eruð alveg ótrúlegir“
Ástæðuna fyrir því að málið hafi vakið slíka athygli segir hann vera vegna þess að það snúi að blaðamönnum. „Það eru allir að beita sér í einhverju (...) en af því að þetta er Samherji og einhverjir blaðamenn þá fer allt á annan endann.“ Fyrr í viðtalinu sagðist hann ekki skilja þessa „viðkvæmni“ í blaðamönnum.
Brynjar spyr í viðtalinu hvað sé að því að skrifaðar hafi verið greinar í nafni Páls Steingrímssonar, skipstjóra Samherja, og að fjöldi fólks hafi komið að því. Þar að auki var hann spurður hvort hann teldi þetta eðlileg vinnubrögð hjá stjórnendum Samherja og hann svaraði að „ef ég tel blaðamanninn vera með óheiðarleg vinnubrögð, fara með rangindi, þá gagnrýni ég hann, þá fer ég bara beint í hann, hvað er að því?“ Hann segir mega gagnrýna blaðamenn „með öllum hætti“ og að þeir séu „alltof viðkvæmir“.
Sat hjá í atkvæðagreiðslu
Sama dag og viðtalið fór fram sat Brynjar hjá í atkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Í samtali við Fréttablaðið sagði Brynjar: „Um leið og menn samþykkja svona frumvarp er alltaf hætta á að þessi leið beinna ríkisstyrkja festist í sessi“ og bætti síðar við: „Svo kemur að því að framlögin duga ekki lengur til að halda lífinu í fjölmiðlum og þá kemur krafan um hærri styrki.“
Í áður umræddu viðtali við Harmageddon sagðist Brynjar átta sig á mikilvægi fjölmiðla en þeir væru ekki fjórða valdið eins og þeir hafa verið skilgreindir enda hefðu þeir „ekkert vald“.
Athugasemdir