„Ég mun taka þig niður ég mun vinna að því að drepa þig og claudio þú ert svo mikill lúser og þú veist það,“ skrifaði Róbert Wessmann, fjárfestir og forstjóri Alvogen, í sms-skilaboðum til fyrrverandi samstarfsmanns síns hjá Actavis í lok janúar 2016. Þetta kemur fram í gögnum sem Stundin hefur undir höndum. Róbert sendi manninum, Mark Keatley, og fyrrverandi forstjóra Actavis, Claudio Albrecht, þá fjölda sms-skilaboða þar sem hann hótaði þeim lífláti, sakaði þá um svik og jós yfir þá fúkyrðum af því Keatley hafði borið vitni fyrir hönd Björgólfs Thors Björgólfssonar í einu af deilumálum fjárfestanna. Róbert og Björgólfur Thor hafa eldað grátt silfur um árabil.
Í yfirlýsingu frá stjórn Alvogen kemur hins vegar fram að óháð nefnd og alþjóðleg lögfræðistofa hefðu farið yfir ásakanir á hendur Róberti. „Þá bentu engin gögn til þess að eitthvað væri athugavert við stjórnunarhætti Róberts.“ Í kjölfarið hefur náinn samstarfsmaður hans til 18 ára stigið fram og sagt Róbert hafa kýlt sig í andlitið fyrirvaralaust.
Málið sem fyrrverandi samstarfsmaður Róberts vitnaði í var skaðabótamál Björgólfs Thors gegn Róberti og viðskiptafélaga hans, Árna Harðarsyni, þar sem Björgólfur krafði þá um bætur upp á 2 milljónir evra vegna ætlaðra millifærsla þeirra á peningum sem þeir áttu sameiginlega í félaginu Mainsee 516.
Lára Ómarsdóttir, upplýsingafulltrúi fjárfestingarfélags Róberts, segir að fjárfestirinn geri sér grein fyrir því að það hafi verið mistök að senda sms-in: „Þetta voru mistök sem Róbert sá strax eftir og baðst afsökunar. Róbert gerir sér fullkomlega grein fyrir því að það var rangt af honum að senda skilaboðin og hann sá strax eftir því að hafa sent skilaboðin. Hann lærði af þessum mistökum og þetta hefur ekki gerst fyrr né síðar.“
33 sms-skilaboð með svívirðingum
Róbert sendi þeim Mark, sem var fjármálastóri Actavis þegar Róbert var forstjóri félagsins fram til ársins 2007, og Claudio samtals 33 sms-skilaboð á innan við sólarhring og hótaði þeim og fjölskyldum þeirra öllu illu. Róbert hafði reynt að hringja tvisvar sinnum til Mark Keatley eftir að hann hafði borið vitni í máli Björgólfs Thors gegn honum en Mark hafði ekki svarað.
Í kjölfarið hóf hann umræddar sms-sendingar. „Segðu halló til claudio ég mun ganga frá ykkur lygara skítahællinn þinn,“ sagði hann í sms-skilaboðum til Mark Keatleys 28. janúar. Lokaskilaboð Róberts til Claudio Albrechts voru að hann væri dauður: „Bottomlænið er að þú ert dauður ég lofa.“
Þeir Mark og Claudio ráku saman ráðgjafafyrirtæki í lyfjaiðnaði á þessum tíma, Albrech Prock and Partners, og virðist Róbert hafa litið svo á þeir væru sameiginlega í einhvers konar herferð gegn sér.
Á endanum, rúmum tveimur vikum eftir sms-sendingarnar, komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að Róbert og Árni þyrftu ekki að greiða Björgólfi Thor Björgólfssyni skaðabætur í málinu. Róbert hafði því betur gegn Björgólfi Thor í þessari rimmu þeirra og var sýknaður og vitnisburður Mark Keatleys var ekki afgerandi Björgólfi Thor í vil.
„Næst þegar við erum staðsettir í sömu borg skaltu fela þig skíthællinn þinn.“
Óttuðust um velferð sína
Eftir að hafa tekið við sms-skilaboðunum frá Róberti leituðu þeir Mark og Claudio til lögmannsstofu í London sem heitir Grosvenor Law. Lögmannsstofan sendi bréf um hótanir Róberts til bæði fjárfestisins sjálfs og eins til Alvogen. Í bréfinu til Róberts sagði meðal annars: „Við vísum til fjölda sérlega meiðandi, hatursfullra og hótandi sms-skilaboða. Umbjóðendur okkar eru eðlilega í sjokki yfir að hafa fengið þessi sms-skilaboð, þar sem settar eru fram fjölmargar rangar ásakanir gegn þeim sem og hótanir gegn öryggi þeirra. Eðli og tónn þessara sms-skilaboða gefur umbjóðendum okkar tilefni til að ætla að hegðun þín sé ekki rökrétt og að þú kunnir að grípa til aðgerða gegn þeim sem enn frekar kunna að ógna velferð þeirra, líkt og þú hefur hótað.“
Eitt af því sem Róbert hafði sagt í skilaboðum til Marks var: „Næst þegar við erum staðsettir í sömu borg skaltu fela þig skíthællinn þinn.“
Enska lögmannstofan lýsti því svo af hverju hátterni Róberts varðaði við lög Englands og Íslands . Lögmannsstofan sagði að Róbert kynni að sæta ákæru í Englandi vegna þess og jafnvel hljóta fangelsisdóm í allt að 2 ár þar sem um væri að ræða alvarlega áreitni. Einnig kom fram að sms-skilaboðin væru klárt tilefni til lögreglurannsóknar og eftir atvikum ákæru á Íslandi.
Þá kom enn frekar fram að þeir Mark og Claudio gætu krafist skaðabóta af Róberti vegna málsins.
Lára Ómarsdóttir segir að Róber Wessman hafi ekki greitt þeim Claudio og Robert peninga fyrir að þegja um málið. „Nei hann hafði hins vegar samband við þá og baðst afsökunar á framferði sínu.“
Enska lögmannsstofan beindi einnig erindi sínum til stjórnar Alvogen fyrir hönd þeirra Marks og Claudios þar sem mat hennar var að Alvogen væri samábyrgt fyrir hegðun Róberts. Í bréfinu til stórnar Alvogen sagði: „Við vekjum athygli ykkar á því þar sem umbjóðendur okkar hafa áhyggjur af því að háttsettur stjórnandi, í reynd andlit fyrirtækis ykkar út á við gagnvart markaðnum, skuli hafa samband við umbjóðendur okkar, sem einnig eru sérfræðingar á lyfjamarkaði, með þeim hætti og þeim tóni sem hann gerði.“
Lögmannsstofan sagði við stjórn Alvogen að umbjóðendur þeirra litu svo á að ef hótanir Róberts myndu halda áfram þá myndu þeir grípa til viðeigandi ráðstafana gagnvart Alvogen. „Við vonum að þess gerist ekki þörf og að þið munið geta haft eftirlit með og stjórnað hátterni forstjóra ykkar með viðeigandi hætti,“ segir í bréfinu.
„Ég vil nota þetta tækifæri til að heils hugar biðja Hr. Keatley og Hr. Albrecht afsökunar á því að valdið þeim hugarangri í síðustu viku.“
Róbert baðst afsökunar
Í gögnunum sem Stundin hefur undir höndum eru einnig bréf frá Róberti Wessman og stjórn Alvogen. Í bréfinu frá stjórn Alvogen, sem Árni Harðarson lögmaður skrifar fyrir hönd félagsins, kemur fram að stjórnin líti málið „alvarlegum“ augum. „Við fullvissum ykkur um að við hjá Alvogen Group lítum málið mjög alvarlegum augum.“
Samt sem áður taldi stjórnin að það væri Róberts sjálfs að svara fyrir það jafnvel þó að hann væri forstjóri félagsins.
Róbert baðst afsökunar á hegðun sinni með bréfi til ensku lögmannsstofunnar þann 3. febrúar 2016. „Ég vil nota þetta tækifæri til að heils hugar biðja Hr. Keatley og Hr. Albrecht afsökunar á því að valdið þeim hugarangri í síðustu viku.“ Róbert hét því svo að hafa ekki samband við þá aftur með neinum hætti.
Vill að Róbert hætti sem forstóri Alvogen
Halldór Kristmannsson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Alvogen og talsmaður Róberts til margra ára, sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hann kemur inn á efni sms-skilaboðanna til Albrechts og Keatley án þess þó að ræða þau í smáatriðum. Morgunblaðið greindi fyrst fjölmiðla frá yfirlýsingunni í blaði sínu í dag.
Halldór telur að Róbert eigi að láta af störfum sem forstjóri Alvogen vegna þessa máls og annarra sem hann hefur orðið vitni að í störfum sínum fyrir hann. „Ég tel að morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir, er varða meinta óvildarmenn og ærumeiðingar í þeirra garð, sé í raun óverjandi hegðun forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hæfi hans sem stjórnanda. Hinsvegar vona ég að þessi fyrirtæki blómstri í framtíðinni, þannig að ég sem hluthafi, geti verið stoltur af framgangi þeirra,“ segir Halldór í yfirlýsingunni.
Halldór telur að niðurstaða Alvogen á starfsháttum Róberts Wessman, sem greint var frá í síðustu viku, sé „hvítþvottur“.
Róbert segir tilgang Halldórs fjárhagslegan
Róbert Wessman sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem hann sagði að stjórn Alvogen hefði látið skoða ásakanir Halldórs á hendur honum og ekki talið rétt að aðhafast neitt. Hann telur hvata Halldórs vera fjárhagslega: „Það er augljóst af bréfasendingum lögmanna Halldórs, Quinn Emanuel, að ásakanir hans eru gerðar í fjárhagslegum tilgangi enda koma þar fram kröfur um greiðslur til handa honum. Eins og fram hefur komið var fengin óháð alþjóðleg lögmannsstofa til að fara ofan í saumana á kvörtunum Halldórs. Talað var við tugi starfsmanna og farið yfir fjölda gagna og niðurstaðan var skýr. Til að tryggja enn betur trúverðugleika þeirrar skoðunar sem fram fór var önnur óháð lögmannsstofa fengin til að fara yfir ferli skoðunarinnar og staðfesta þá.Fyrir mig eru þessar ásakanir mjög mikil vonbrigði enda vegið að mínum starfsheiðri og persónu. Mér þykir mjög miður að samstarfi okkar Halldórs til 18 ára hafi lokið með þessum hætti,“ segir Róbert.
Athugasemdir