Meghan, hertogaynjan af Sussex, greindi frá því í viðtali á dögunum að hún hefði glímt við sjálfsvígshugsanir. Hefur það orðið mörgum tilefni til að efast opinberlega um orð hennar, saka hana um lygar, forréttindablindu, athyglissýki og hvaðeina. Þessi umræða er áberandi í kommentakerfum, á samfélagsmiðlum og meira að segja í spjallþáttum og dagblöðum í Bretlandi.
Sjálfsvíg eru önnur algengasta dánarorsök ungmenna á aldrinum 15–24 á heimsvísu. Alls 336 Íslendingar hafa fallið fyrir eigin hendi á síðustu tuttugu árum, á sama tíma létust 190 í umferðarslysum.
Þegar við tölum um átak gegn sjálfsvígum á tyllidögum virðast flestir muna þá möntru að allir geta veikst. Sjúkdómar fara ekki í manngreiningarálit, hvort sem um er að ræða þunglyndi eða kransæðastíflu. Það skiptir engu máli hversu fullkomið líf einhvers kann að virðast að utan, margir í samfélaginu bera harm sinn í hljóði og stundum verður það til þess að draga þá til dauða þegar hjálp hefði auðveldlega geta verið í boði.
Hvernig ætli það sé fyrir unga manneskju, sem er að glíma við svo erfiðar hugsanir að hana langar hreinlega til að deyja, að lesa þau hrokafullu viðbrögð sem viðtalið við Meghan hefur vakið hjá sumum? Ætli það sé hvetjandi fyrir sömu manneskju til að opna sig og leita sér aðstoðar? Eða óttast hún kannski frekar að lítið verði gert úr vandanum og hún kölluð dramadrottning?
Sú umræða sem nú á sér stað um veikindi Meghan er ógeðfelld og fyrst og fremst lífshættuleg. Hún gerir lítið úr einum alvarlegasta sjúkdómi samtímans, letur fólk sem af honum þjáist til að leita sér hjálpar og ýtir undir löngu úreltar staðalmyndir um andleg veikindi og þá sem af þeim þjást.
Sama hvað okkur finnst um kóngafólk, eða fólk yfirhöfuð, þá á enginn skilið að missa líf sitt eða ástvina sinna út af þöggun og skömm. Þegar fólk leitar sér aðstoðar vegna lífshættulegra veikinda er það skylda okkar sem samfélag að leggja við hlustir og hlúa að þeim sem þjást. Höfum í huga alla sem eiga um sárt að binda og lesa orð okkar; hvort sem það er í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi. Við eigum að vera komin lengra en þetta.
Athugasemdir