Arturas Leimontas var rétt í þessu dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir manndráp. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Arturas var dæmdur fyrir að hafa hrint öðrum manni fram af svölum í Úlfársdal í desember 2019 með þeim afleiðingum að maðurinn lést.
Þegar lögregla kom á vettvang þann 8. desember árið 2019 lá brotaþoli stórslasaður og meðvitundarlaus fyrir neðan svalirnar sem honum hafði verið hrint af. Þá var hann fluttur á sjúkrahús en skömmu síðar úrskurðaður látinn.
Lögreglumenn fóru þá inn í húsið og hittu þar Arturas sem var mjög ölvaður og með nýlega áverka. Skömmu eftir það brutu lögreglumenn sér leið inn í íbúð hans og handtóku þar fjóra aðila ásamt honum.
Við skýrslutöku hafði komið fram að mikil ólæti og rifrildi höfðu heyrst frá íbúðinni skömmu áður en brotaþoli féll niður af svölunum. Arturas og brotarþoli höfðu þá verið að rífast inn í íbúðinni þar sem Arturas hafði löðrungað brotaþola áður en þeir færðu rifrildið út á svalir.
Skömmu síðar heyrðu vitni öskur og skell og eitt vitnanna sá Arturas standa einan eftir á svölunum.
Réttarmeinarfræðingur taldi slys ólíklegt
Við rannsókn málsins sviðsetti lögregla vettvanginn að viðstaddri lögreglu, prófessor í vélaverkfræði, réttameinarfræðingi og verjanda kærða. Átta sinnum létu þeir brúðu í líki mannsins sem lést falla með ýmsum aðferðum úr sömu hæð og yfir jafn hátt handrið og svalirnar á umræddri íbúð til þess að leiða í ljós hvort að maðurinn hefði getað dottið niður svalirnar.
Niðurstöður réttameinafræðings leiddu í ljós að ólíklegt hafi verið að um slys hafi verið að ræða. Annað hvort hafi maðurinn hoppað fram af svölunum eða annar aðili hefði komið að máli.
Athugasemdir