Mistök voru gerð við framkvæmdir á vegum veitna við Suðurgötu og olli það vatnstjóni í byggingum Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.
„Mistök voru gerð við framkvæmdir á vegum Veitna við Suðurgötu sem ollu því að stofnlögn vatns fór í sundur þannig að vatn flæddi inn í byggingar Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningu Veitna. „Verið er að endurnýja lögnina og veggur lokahúss, sem styður við hana, var rofinn of snemma í verkinu. Þar sem enn var þrýstingur á lögninni fór hún í sundur á samskeytum með þessum afleiðingum.“
Er þetta niðurstaða greiningar starfsfólks Veitna á atvikinu. „Veitur eru með frjálsa ábyrgðatryggingu og hefur tryggingarfélagi Veitna verið kynntar bráðabirgðaniðurstöður greininga. Einnig hefur verið fundað með forsvarsfólki Háskóla Íslands og öðrum hagaðilum,“ segir í tilkynningunni.
Skera þarf úr um bótaábyrgð vegna tjónsins á verksviði tryggingarfélaga, segir ennfremur. Mat á því liggur ekki fyrir.
„Veitum þykir miður að mistökin hafi valdið þessu tjóni og raskað starfi Háskólans. Fyrirtækið hefur boðið fram aðstoð til að tjónið og truflun á skólastarfi verði sem minnst. Atvikið er litið alvarlegum augum innan Veitna og er þegar hafin rýni á verklagi og samskiptum allra sem að framkvæmdum á vegum fyrirtækisins koma.“
Athugasemdir