Ísland greiðir Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) tæpar tvær milljónir króna vegna fyrsta áfanga í úttekt stofnunarinnar á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir í þróunarlöndum. Samningur þess efnis var undirritaður 18. nóvember síðastliðinn.
Eftir umfjöllun Stundarinnar, Kveiks og Al Jazeera um mútugreiðslur og óeðlilega viðskiptahætti útferðarfyrirtækisins Samherja í Namibíu í nóvember 2019 samþykkti ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur aðgerðaáætlun í sjö liðum sem ráðast átti í til að auka traust á íslensku atvinnulífi. Ein þeirra aðgerða var að Ísland hefði frumkvæði að því að FAO ynni úttekt á umræddum viðskiptaháttum. Hugmyndin var sú að á grundvelli úttektarinnar myndi FAO síðan vinna tillögur til úrbóta „í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum, gegn spillingu, mútum og peningaþvætti.“
Gert ráð fyrir að fyrsti áfangi klárist á næstu mánuðum
Samningurinn felur í sér að FAO mun vinna í það minnsta fyrsta áfanga úttektarinnar, sem er kortlagning á þeim fiskveiðisamningum sem um er að ræða. Stefnt er að því að áfangarnir í úttektinni verði fjórir og byggi útfærsla hvers áfanga á niðurstöðum næsta áfanga á undan. Samkvæmt svari frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu við fyrirspurn Stundarinnar felur það ekki í sér upptalningu á slíkum samningum heldur greining á því hvernig slíkir samningar séu, það er að segja hvað þeir eigi sameiginlegt og hvað sé ólíkt með þeim, með tilliti til mismunandi svæðisbundinna aðstæðna, auk greiningar á helstu efnisatriðum samninganna.
$15.000
„Að mati FAO er ekki fyrir hendi slík greining á fiskveiðisamningum og því er þessi vinna nauðsynleg forsenda fyrir frekara starf í þessu sambandi og skýrir viðfangsefnið frekar með því að skoða mismunandi gerðir og eðli fiskveiðisamninga á mismunandi stöðum og svæðum heimsins,“ segir í svari ráðuneytisins.
Ekki eru tímamörk á því í samningi Íslands og FAO hvenær úttektinni skuli lokið en þó er gert ráð fyrir að fyrsta áfanga hennar verði lokið á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Ákvörðun um næstu skref verður svo tekin á grunni niðurstaðna fyrsta áfanga.
Mögulega leitað til annarra ríkja og stofnana um samstarf
Ísland greiðir FAO tæpar tvær milljónir króna, 15.000 dollara, vegna þessa fyrsta áfanga úttektarinnar. Kostnaður við síðari áfanga verði metinn í tengslum við útfærslu þeirra þegar að því kemur. Til greina kemur, samkvæmt svari ráðuneytisins, að leita eftir samstarfi við önnur ríki og stofnanir þegar vinna við síðari áfanga úttektarinnar hefst. Fram hefur komið að úttektin verði unnin í tengslum við annað verkefni sem nú þegar er í gangi hjá stofnuninnni.
Hjá FAO var Árni M. Mathiesen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, fjármálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, aðstoðarframkvæmdastjóri og stýrði deild sem snýr að málefnum sem varða ólöglegar fiskveiðar, meðal annars. Árni hefur hins vegar látið af störfum hjá stofnuninni og mun það hafa gerst nú í kringum síðustu áramót.
Í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Hönnu Katrínar Friðriksson, þingkonu Viðreisnar, frá því í nóvember á síðasta ári, kemur fram að talið var eðlilegt að leita til FAO með verkefnið sökum þess að þar væri til staðar best sérfræðiþekking á málaflokknum.
Í umfjöllun Stundarinnar og Kveiks í nóvember 2019 kom fram að Samherji hefði greitt hundruð milljóna króna í mútur til stjórnmálamanna og tengdra aðila í Namibíu til að fá í hendur fiskveiðikvóta þar í landi. Málið er til rannsóknar í nokkrum löndum, þar á meðal á Íslandi þar sem sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja hafa réttarstöðu sakborninga í rannsókn héraðssaksóknara.
Athugasemdir