Frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á máli Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, hefur verið kærð til Landsréttar. Þetta staðfestir Anna Barbara Andradóttir, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara.
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá máli embættisins gegn Jóni Baldvini vegna meintra kynferðisbrota gegn Carmen Jóhannsdóttur á Spáni í júní 2018. Ákæruefnið er ekki refsivert samkvæmt spænskum lögum að mati dómsins.
Héraðssaksóknari hefur hins vegar kært úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.
Jóni Baldvini er gefið að sök að hafa laugardaginn 16. júní 2018 á heimili sínu í Salobreña á Spáni strokið utanklæða rass Carmenar, sem var gestur á heimili hans. Greindi Stundin í upphafi árs 2019 frá framburði hennar og fleiri kvenna um kynferðislega áreitni. Krefur hún Jón Baldvin um eina milljón í miskabætur, en hann krafðist frávísunar og málsvarnalauna úr ríkissjóði sem héraðsdómur veitti honum með úrskurðinum í gær, rúmlega 917 þúsund krónur í málsvarnarlaun Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns hans.
Héraðsdómur vísaði málinu frá þar sem ekki væri sýnt fram á að háttsemin væri refsiverð samkvæmt spænskum lögum. Ekki væri unnt að refsa Jóni Baldvini eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot sem eru framin þar sem refsivald annars ríkis nær til.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari segir í úrskurði sínum að spænska lagagreinin sé mikið frábrugðin íslensku lagaákvæði um kynferðislega misnotkun. „Er það mat dómsins að ákærði beri að njóta vafans um þetta og ber því að taka kröfu hans til greina og vísa málinu frá dómi.“
Athugasemdir