Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Fjórir hafa látist eftir að hafa fengið bóluefni en 18 látast að meðaltali í viku

Bólu­setn­ing­arn­ar verða rann­sak­að­ar vegna fjög­urra and­láta bólu­settra. 18 ein­stak­ling­ar lát­ast hins veg­ar í hverri viku í hópn­um sem fékk fyrst bólu­efn­ið.

Fjórir hafa látist eftir að hafa fengið bóluefni en 18 látast að meðaltali í viku
Bólusetning Í síðustu viku voru hafnar bólusetningar á heilbrigðisstarfsmönnum og fólki í áhættuhópum. Hér er bólusett á Suðurlandsbraut. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Mynd: Heiða Helgadóttir

Frá því bólusetningar vegna covid-19 hófust fyrir viku hafa fjórir einstaklingar látist í kjölfar þess að hafa fengið bóluefni Pfizer. Þetta segir þó ekki alla söguna, því í forgangshópi vegna bólusetninga látast að meðaltali 18 manns á hverri viku.

Í sameiginlegri tilkynningu frá landlækni, sóttvarnalækni og Lyfjastofnun kemur fram að óháð rannsókn verði gerð á aukaverkunum bóluefnis Pfizer, sem hefur verið notað frá 29. desember. Á sama tíma kemur hins vegar fram að ekki sé líklegt orsakasamhengi milli andláta og bóluefnis. 

„Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort líklegt sé að þessi alvarlegu atvik tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. Eins og sakir standa bendir ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé þarna á milli. Þess ber að geta að sá hópur sem bólusettur var með fyrstu sendingu bóluefnisins samanstendur af öldruðum og hrumum einstaklingum sem dvelja á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða eru í dagdvöl.“

Þá kemur fram að rannsóknin verði gerð af tveimur sérfróðum læknum á sviði öldrunar og að henni verði hraðað eins og kostur er, þannig að frumniðurstöður liggi fyrir innan viku til tíu daga.

Ekki kemur fram í fréttatilkynningunni hversu margir úr mengi þeirra sem dvelja á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða eru í dagdvöl hafa fengið bóluefnið. Stundin hefur sent fyrirspurn þess efnis.

Þá kemur ekki heldur fram hversu margir í þeim hópi hafa látist síðustu vikuna og þar af leiðandi hvort andlát séu fleiri en í meðalviku. Því er ekki hægt að álykta um fylgni milli bólusetninga og andláta, hvað þá orsakasamhengi.

29 hafa látist af völdum covid-19 á Íslandi og voru allir yfir 60 ára aldri fyrir utan einn, en 20 þeirra yfir áttræðu. Líkur á andliti við greint smit eru 16% fyrir 80 til 89 ára en 18% fyrir 90 ára og eldri, en ekki eru öll smit greind og því öruggt að dánarhlutfall er lægra. Flest andlátin í haustbylgju covid-19 á Íslandi komu til vegna hópsmits á öldrunarlækningadeild Landspítalans á Landakoti.

Fram hefur komið að þremur vikum eftir bólusetningu eigi sér stað seinni sprauta af bóluefninu. Engar breytingar hafa orðið á áformum heilbrigðisyfirvalda um bólusetningar.

Tilkynning um rannsókn

Fréttatilkynning landlæknis, sóttvarnalæknis og Lyfjastofnunar í heild

Lyfjastofnun hefur verið tilkynnt um fimm alvarlegar aukaverkanir, þar af fjögur andlát, sem hugsanlega kunna að tengjast bólusetningu við SARS-CoV-2 veirunni. Í öllum tilfellunum erum að ræða aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og sem búa á hjúkrunarheimilum. Í ljósi þess að um nýtt bóluefni er að ræða hafa landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ákveðið að fá óháða aðila til að fara gaumgæfilega yfir þessi fimm alvarlegu atvik.

Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort líklegt sé að þessi alvarlegu atvik tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. Eins og sakir standa bendir ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé þarna á milli. Þess ber að geta að sá hópur sem bólusettur var með fyrstu sendingu bóluefnisins samanstendur af öldruðum og hrumum einstaklingum sem dvelja á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða eru í dagdvöl. Hafa ber í huga að að jafnaði látast 18 einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum á viku hverri. Rannsóknin verður gerð af tveimur sérfróðum læknum á sviði öldrunar og verður henni hraðað eins og kostur er. Stefnt er að því að frumniðurstöður liggi fyrir innan viku til 10 daga.

Jafnframt hefur verið kallað eftir upplýsingum frá Norðurlöndunum og frá Lyfjastofnun Evrópu um hvort sjá megi aukna tíðni dauðsfalla hjá eldri einstaklingum sem hafa verið bólusettir í öðrum Evrópulöndum undanfarna daga og vikur. Þá fer fram sérstök tölfræðigreining á dauðsföllum í þessum hópi á vegum embættis landlæknis.

Vakin er athygli á því að allar íslenskar tilkynningar um mögulegar aukaverkanir lyfja eru skráðar í miðlægan gagnagrunn sem Lyfjastofnun Evrópu heldur úti til frekari greiningar, með það að markmiði að tryggja svo kostur er gæði og öryggi lyfja. Fyrir Íslands hönd tekur Lyfjastofnun virkan þátt í þeirri vinnu.

Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir verður skoðað hvort breyta þurfi nálgun að bólusetningum eldri einstaklinga.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Mest lesið

Júlía Margrét Alexandersdóttir
5
Það sem ég hef lært

Júlía Margrét Alexandersdóttir

Ekki hlusta á allt sem heil­inn seg­ir þér

Júlía Mar­grét Al­ex­and­ers­dótt­ir hef­ur lif­að með geð­hvörf­um í 15 ár. Hún hef­ur kljáðst við dekksta lit þung­lynd­is og fund­ið fyr­ir und­ur­vellíð­an í man­íu. Í ferl­inu hef­ur Júlía lært að stund­um á hvorki hjart­að né heil­inn at­kvæð­is­rétt. „Stund­um eru það annarra manna heil­ar og annarra manna hjörtu sem vita best.“

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár