Stjórnarformaður laxeldisfyrirtækisins Arnarlax, Kjartan Ólafsson, á tæplega 700 milljóna króna hlut í laxeldisfyrirtækinu og eru 500 milljónir fjármagnaðar með kúluláni frá stærsta eiganda Arnarlax, Salmar AS. Þetta kemur fram í ársreikningi eignarhaldsfélags Kjartans, Gyðu ehf., sem heldur utan um hlutabréfaeign hans í Arnarlaxi, fyrir árið 2019. Ársreikningurinn varð nýlega aðgengilegur í gegnum ársreikningaskrá Ríkisskattstjóra. Kjartan þarf hvorki að greiða vexti né afborganir af láninu frá Salmar fyrir árið 2025 þegar allt lánið auk vaxta skal greiðast upp. Tilgangur starfsemi Gyðu er að halda utan um þessi hlutabréf Kjartans: „Félagið er eignarhaldsfélag utan um hlutabréfaeign í Arnarlax A/S.“
Með þessum hætti þá hefur Kjartan persónulega fjárhagslega hagsmuni af því að vöxtur Arnarlax verði mikill á Íslandi á næstu árum og fyrirtækið bæði framleiði eins mikið af eldislaxi og mögulegt er og eins að fyrirtækið tryggi sér eins mikið af framleiðsuleyfum og hugsast getur. Upplýsingarnar um eignarhlut Kjartans í Arnarlaxi sýna hvernig hann og Salmar hafa veðjað á að uppgangur Arnarlax í laxeldi á Íslandi verði töluverður á næstu árum og er Kjartan helsti íslenski stjórnandi fyrirtækisins sem á að leiða þennan vöxt. Út frá ársreikningi Gyðu fyrir 2019 er ekki að sjá að önnur veð séu fyrir láninu til Kjartans en hlutabréfin sjálf í Gyðu ehf. sem Salmar AS fjármagnar.
Arnarlax var skráð á markað í Noregi fyrr á þessu ári og var umfram eftirspurn eftir hlutabréfum félagsins.
Kjartan og líkindin við starfsmann banka
Salmar AS á ríflegan meirihluta hlutabréfa í Arnarlaxi, eða 59,36 prósent, eftir að hafa keypt tvo stóra íslenska hluthafa, Tryggingamiðstöðina og eignarhaldsfélagið Fiskisund ehf., út í febrúar í fyrra. Í kjölfarið er Arnarlax skilgreint sem dótturfélag Salmar AS af því norska félagið ræður meirihluta hlutabréfa í því. Hlutverk Kjartans í starfsemi Arnarlax er mikilvægt þar sem hann er helsta andlit og talsmaður fyrirtækisins í fjölmiðlum á Íslandi og eins gagnvart löggjafarvaldinu ef svo ber undir. Fréttir hafa verið sagðar um þátttöku Kjartans í því að kynna laxeldi fyrir íslenskum þingmönnum.
„Ég vil ekki tjá mig í fjölmiðlum um persónuleg viðskipti fjölskyldunnar“
Líkja má stöðu Kjartans gagnvart Salmar við stöðu starfsmanns fjármálafyrirtækis á Íslandi fyrir hrunið 2008, til dæmis Kaupþings, þar sem hann fær áhættulítið lán frá eiganda Arnarlax sem byggir á þeirri forsendu að hlutabréfin hækki í verði. Ef það gerist þá hagnast Kjartan en ef það gerist ekki þá er persónuleg áhætta Kjartans takmörkuð.
Stundin hefur áður fjallað um viðskipti Kjartans og reynt að fá hann til að svara spurningum um fjárfestingu sína í Arnarlaxi en hann svaraði ekki erindi blaðsins.
Í eitt skipti sagði Kjartan að hann vildi ekki ræða um persónuleg fjármál fjölskyldu sinnar í fjölmiðlum. „Ég vil ekki tjá mig í fjölmiðlum um persónuleg viðskipti fjölskyldunnar.“
Kjartan vill að Ísland framleiði 500 þúsund tonn
Eins og Stundin hefur fjallað ítrekað um hefur staðið yfir hörð umræða um framtíð laxeldis á Íslandi á milli talsmanna laxeldisins, meðal annars Kjartans og Landssambands fiskeldisfyrirtækja, sem nú hafa gengið í eina sæng með Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), og Landssambands veiðifélaga (LV), ýmissa leigutaka laxveiðiáa og náttúruverndarsinna hins vegar.
Í þessari umræðu mætast sterkir hagsmunahópar með rúm fjárráð því laxeldismennirnir og margir hagsmunaaðilar í laxveiði eru afar fjársterkir. Einn helsti gagnrýnandi laxeldisins opinberlega er Óttarr Ingvason, eigandi Haffjarðarár sem er ein besta og dýrasta laxveiðiá landsins.
Talsmenn laxeldis tala um jákvæðar efnahagslegar afleiðingar þess, sköpun starfa í greininni á Íslandi, afleidd störf og þá miklu eftirspurn sem er eftir eldislaxi á mörkuðum heimsins og nota þeir gjarnan Noreg, stærsta framleiðanda á eldislaxi í heiminum, sem jákvætt dæmi um þessa iðngrein. Þá benda talsmenn laxeldis á byggðaþróun og eflingu landsbyggðarinnar sem jákvæða afleiðingu af því þar sem þessi starfsemi fer utan höfuðborgarsvæðisins.
Andstæðingar laxeldisins tala hins vegar um slæm áhrif laxeldisins á náttúru Íslands, mögulega blöndun norsks eldislax við villta íslenska laxastofna og þá neikvæðu erfðablöndun sem í þessu getur falist, auk þess sem þeir halda þeirri staðreynd á lofti að hagnaðurinn í íslensku laxeldi lendi í vösum Norðmanna, sem eru stærstu hluthafar þess. Þá hafa þeir gagnrýnt að gjaldtakan af notkun auðlindarinnar sem sjórinn við Ísland er sé lítil.
„Því felast mikil tækifæri fyrir Íslendinga í að rækta fisk á bláu ökrunum okkar með stóraukinni áherslu á fiskeldi“
Kjartan hefur verið einn helsti talsmaður aukins laxeldis í þessari umræðu síðastliðin ár. Hann hefur talað fyrir því að Ísland framleiði allt að 500 þúsund tonn af eldislaxi, sem er tæplega 19-földun miðað við þá nærri 27 þúsund tonna framleiðslu sem var í landinu í fyrra. Kjartan hefur sagt að mikil tækifæri felist í „bláum ökrum“ Íslands. „Því felast mikil tækifæri fyrir Íslendinga í að rækta fisk á bláu ökrunum okkar með stóraukinni áherslu á fiskeldi. Skýr stefna og markmiðasetning yfirvalda er nauðsynleg til að byggja ofan á þekkingu okkar og reynslu í sölu og framleiðslu sjávarafurða og tryggja þannig stöðu okkar sem leiðandi sjávarútvegsþjóð í heiminum til framtíðar.“
Kjartan hefur hagnast vel
Kjartan hefur sjálfur hagnast ágætlega á þeim uppgangi sem verið hefur í laxeldi á Íslandi á liðnum árum jafnvel þó að sá hagnaður sé takmarkaður þegar litið er til þess hver hagnaður hans gæti orðið með síðustu viðskiptum hans með láninu frá Salmar. Í ársreikningi Gyðu ehf. kemur fram að félagið greiddi 40 milljóna króna arð til móðurfélagsins, Bergs fjárfestingar, í fyrra.
Berg fjárfesting hagnaðist um 70 milljónir króna í fyrra, meðal annars út af 40 milljóna króna arðgreiðslu frá Gyðu, og ráðgerði að greiða út 25 milljóna króna arð í ár vegna þess. Í fyrra greiddi Berg út 20 millljóna króna í arð út vegna rekstrarársins 2018.
Þessar arðgreiðslur bætast við arð sem Kjartan hefur tekið út úr laxeldisauðlindini þar á undan en árið 2017 seldi hann hlutabréf í Arnarlaxi fyrir tæplega 340 milljónir króna og greiddi móðurfélag þess út 125 milljóna króna arð til Kjartans vegna þessa.
Kjartan er því, enn sem komið er, einn af fáum á Íslandi sem hefur náð að hagnast á laxeldi í sjókvíum við Ísland.
Athugasemdir