Föstudaginn 6. nóvember hengdi Martyna Dobrowolska upp borða sem hangir fyrir utan heimili hennar að Sólvallagötu þar sem sjónum er beint að sendiherra Póllands sem býr beint á móti. Á borðanum er varpað fram þeirri spurningu hvar sendiherrann sé nú þegar pólskum konum er stefnt í hættu vegna löggjafar um þungunarrof.
Martyna segir að í kjölfarið hafi leigusalinn tjáð henni að lögreglan hefði haft samband vegna kvörtunar frá sendiherra Póllands, Gerard Pokruszyński, vegna borðans. Stundin fjallaði um málið og óskaði eftir viðbrögðum frá sendiherranum, sem svaraði ekki fyrirspurn blaðsins. Í yfirlýsingu á vefsíðu pólska sendiráðsins sem birt var þann 12. nóvember er frásögn Martynu af afskiptum sendiherrans sögð vera lygi.
Þar segir Pokruszyński að mótmæli séu eðlileg. „Í lýðræðisríki eins og Póllandi og Íslandi hafa allir rétt á því að mótmæla og tjá skoðun sína, og það væri hneykslismál“ ef sendiherra myndi láta fjarlægja slíkan borða með valdi. Lögreglan hafi hins vegar verið kölluð til vegna „innrásar á einkalóð sendiherrans“ sem er vernduð með alþjóðalögum.
Innrásin var lagning í einkastæði
Stundin hafði samband við lögregluna og var tjáð að engin kvörtun hafi verið bókuð frá sendiherra vegna borðans, en að haft hafi verið samband við Martynu vegna þess að búið var að leggja í einkastæði sendiherrans. Sambýlisfólk Martynu segir í samtali við Stundina að lögregluþjónn hafi bankað upp á hjá þeim að kvöldi þess 6. nóvember út af bílastæðinu. Í því samtali hafi hann minnst á að þau þyrftu að fjarlægja borðann. Þegar lögregluþjónninn var spurður hvaða lög þau væru að brjóta með því að hengja borðann upp á lögregluþjónninn að hafa sagt að hann vissi það ekki en ætlaði að komast að því. Nágranni þeirra varð einnig vitni að þessum samskiptum.
Martyna segir að hún hafi fengið meðbyr með mótmælaverkinu úr pólska samfélaginu. Eftir að hafa ráðfært sig við lögfræðinga hefur hún ákveðið að fjarlægja ekki borðann heldur leyfa honum að vera.
Sendiherra Póllands hefur áður látið íslenskan fréttaflutning sig varða. Í nóvember 2018 sendi hann bréf á skrifstofu forseta Íslands, skrifstofu forsætisráðherra og ritstjórn Stundarinnar þar sem hann kvartaði undan umfjöllun Stundarinnar um sjálfstæðisgöngu í Póllandi þar sem leiðtogar Póllands gengu með nýnasistum. „Ég vona að þetta muni ekki valda alvarlegum afleiðingum og muni ekki byggja upp tregðu á milli samlanda okkar,“ skrifaði Pokruszynski þá og krafði blaðið um afsökunarbeiðni.
Athugasemdir