„It´s dejà vu all over again“
Þessi tilvitnun er eignuð Yogi Berra, einum magnaðasta hafnaboltaleikmanni sögunnar. Sennilega er hún rétt feðruð, því að Lawrence Peter Berra rataðist oft satt orð á munn. Jafnan fyrir slysni.
Mér líður iðulega eins og honum.
–– ––
Fyrir um tuttugu árum varð mér á að tuða opinberlega um að Samfylkingin gerði þá kröfu, að þeir sem vildu kjósa í prófkjöri flokksins í Reykjavík og væru ekki rétt skráðir til þátttöku – að mati flokksins – þyrftu að borga 500 krónur fyrir að greiða atkvæði.
Það eru um tólf hundruð krónur á gengi dagsins.
Núnú. Þetta þótti mér ekki alveg sanngjarnt, sérstaklega gagnvart þeim sem hafa minna á milli handanna en við hin. Til dæmis óvinnufærum og atvinnulausum.
Svo röflaði ég eitthvað um söguleg fordæmi. Jafnvel frá suðurríkjum Bandaríkjanna. Þar sem enn er reynt að takmarka möguleika fólks á því að greiða atkvæði. Og var lengi reynt með atkvæðissköttum.
Sumir vinir mínir í Samfylkingunni andmæltu þessum leiðindum hástöfum.
Einkum með tvennum rökum. Að þetta væri nú eiginlega engin fjárhæð og svo hinum, að enginn gæti talizt fullgildur félagi nema hann hefði greitt gjaldið til flokksins. Og hefði þar með atkvæðisrétt.
Af einhverjum ástæðum komu þessar mótbárur aðeins frá þeim vinum mínum, sem höfðu verið í Alþýðubandalaginu. Þeim var mjög umhugað um flokkinn og félagsgjöldin.
Og meðfylgjandi rétti fólks til þess að kjósa. Ef það hefði borgað.
Það var merkilegt sjónarmið flokks sem rakti uppruna sinn til þeirra, sem áttu stundum hvorki fyrir mat né húsnæði.
En látum það vera í bili.
–– ––
Framundan er landsfundur Samfylkingarinnar.
„Hann mun sennilega ekki sæta miklum tíðindum“
Um næstu helgi.
Hann mun sennilega ekki sæta miklum tíðindum.
Vinsæll formaður – og réttilega vinsæll – verður endurkjörinn, og málefnalega er varla að vænta mikilla frétta umfram það sem sagt hefur verið á þingi undanfarin misseri.
Að fenginni reynslu leyfi ég mér að fullyrða, að mesta athygli muni vekja varaformannskjör, sem kom óvænt upp.
Helga Vala Helgadóttir bauð sig fram gegn Heiðu Björgu Hilmisdóttur.
Og þangað beinist líka orkan innan flokksins.
Hvort sem það er nú sanngjarnt og skynsamlegt eða ekki. Um það dæmir hver fyrir sig.
En það verður semsagt nokkuð orkufrek kosning um varaformennsku í Samfylkingunni.
Sem ykkur flestum – sem eruð ekki innmúruð og innvígð – er samt væntanlega slétt sama um. Eða gætuð þið þulið upp úr ykkur svona rétt sem snöggvast hverjir eru varaformenn hinna flokkanna á þingi?
Og hvaða máli það skiptir?
–– ––
En við vorum að tala um Yogi Berra. Og dejà vu.
Rétt eins og fyrir tuttugu árum krefst Samfylkingin þess nú að fólk greiði fyrir atkvæðisrétt sinn.
„Ef þú vilt kjósa, þá þarftu að borga“
Það er ekki alveg nákvæm lýsing – landsfundarfulltrúar þurfa hins vegar að reiða fram fundargjald, annars geta þeir ekki greitt atkvæði. Sem er samt nokkurn veginn sama niðurstaða: Ef þú vilt kjósa, þá þarftu að borga.
Atkvæðisrétturinn kostar 2.000-3.000 krónur, eftir aðstæðum hvers og eins.
Það er alveg þokkaleg pizza, svo ég noti líkingamál sem Loga Einarssyni er tamt.
Sko.
Hér í gamla daga var bæði réttlætanlegt og nauðsynlegt að rukka landsfundargjald. Það kostaði heilan helling að halda slíka samkomu, leigja húsnæði, hljóðkerfi og alls kyns græjur, drappera og skreyta, og prenta ógrynnin öll af pappírum sem entust ekki sólarhringinn.
Ekki núna. Þessi landsfundur er rafrænn.
Vitaskuld þarf að borga tölvufólkinu – og áfram þau – en kostnaður við landsfundinn sjálfan er nánast enginn umfram það.
Samt er rukkað landsfundargjald upp á tvö til þrjú þúsund krónur.
Það er alveg umtalsverð fjárhæð fyrir þá sem þurfa að hugsa um allt sitt, hvort heldur þeir eru óvinnufærir eða atvinnuleitendur.
Skiptir þessi fjárhæð flokkinn máli? Skoðum það snöggvast.
Mér skilst að skráðir landsfundarfulltrúar séu um eitt þúsund.
Ef þeir greiða allir gjaldið – sem er allsendis óvíst – fær flokkurinn á bilinu tvær til þrjár milljónir inn á reikninginn sinn. Sú fjárhæð er talsvert innan við hálft prósent af tekjum flokksins árlega.
Auðvitað skipta þeir peningar einhverju máli. En hitt skiptir miklu meira máli.
–– ––
Bæði um prinsipp og praktík.
Samfylkingin rukkar fólk núna helmingi meira fyrir atkvæðisréttinn en hún reyndi að gera fyrir tuttugu árum.
Fyrir því eru engar efnislegar ástæður, að séð verði. Ekki kostnaður við fundarhaldið eða annað umstang.
Það er praktíkin.
Hitt er verra. Prinsippið.
Að flokkur jafnaðarmanna skuli krefjast greiðslu til þess að félagsmenn geti greitt atkvæði, jafnvel þótt ekki sé nema í varaformannskjöri sem fæstir skilja hvers vegna fer fram.
Það er eiginlega óskiljanlegt.
Eða eins og Yogi Berra hefði orðað það:
„I tell the kids, somebody’s gotta win, somebody’s gotta lose. Just don’t fight about it. Just try to get better.“
Það er ágætt prinsipp. Og áfram Yogi Berra.
Athugasemdir