Joe Biden, frambjóðandi Demókrata, er hársbreidd frá því að geta lýst yfir sigri í forsetakosningunum sem fram fóru í Bandaríkjunum á þriðjudag. Leiðum Donald Trump, sitjandi forseta, til að sigra fækkar í sífellu og hefur hann nú þegar leitað á náðir dómstóla í nokkrum ríkjum til að reyna að stöðva talningu atkvæða.
Biden er nú talinn hafa sigrað í ríkjunum Wisconsin og Michigan og hafa fréttastofurnar AP, Politico og Fox News einnig lýst hann sigurvegara í Arizona. Er hann þar með kominn með 264 svokallaða kjörmenn, en frambjóðandi þarf stuðning 270 kjörmanna til að sigra.
Fréttastofur hafa ekki verið tilbúnar til að lýsa sigurvegara í Nevada, Georgíu, Norður-Karólínu og Pennsylvaníu. Enn er verið að telja atkvæði í þessum ríkjum, mestmegnis atkvæði úr póstkosningu, en í sumum þeirra er óheimilt að byrja að telja þau atkvæði fyrr en á kjördag. Fordæmalaus fjöldi kjósenda valdi að kjósa í pósti, að líkindum vegna COVID-19 faraldursins.
Hafa niðurstöður úr póstkosningunni sýnt að hún hefur verið Biden í vil, sérstaklega þegar talin hafa verið atkvæði frá þéttbýlum svæðum. Þannig var Trump yfir í bæði Wisconsin og Michigan lengi vel, en Biden náði forystu eftir því sem leið á talninguna. Biden hefur einnig þrengt að forskoti Trump í Pennsylvaníu og Georgíu með sama hætti.
Segist hann því sannfærður um að sigur verði í höfn þegar öll atkvæði hafa verið talin. Í raun dugar Biden að vinna Nevada, sem hann leiðir í nú þegar, til að fá þá 6 kjörmenn sem vantar upp í 270. Trump tapaði í ríkinu fyrir fjórum árum og er nú beðið eftir að talningu póstatkvæða ljúki.
Trump hefur aftur á móti haldið því ranglega fram að hann hafi unnið Pennsylvaníu, Georgíu og Norður-Karólínu. Í færslu á Twitter sagðist hann einnig vera sigurvegari í Michigan ef „í raun var fjölda atkvæða hent í leyni eins og víða hefur komið fram!“ Twitter merkti færslur hans sérstaklega sem misvísandi.
Athugasemdir