Framkvæmdastjóri endurskoðunarfyrirtækisins KPMG segir að það hafi verið ákvörðun Samherja að skipta um endurskoðendafyrirtæki eftir að útgerðarfélagið hafði átt í áralöngum viðskiptum við KPMG.
Breyting Samherja á endurskoðandafyrirtæki ber upp í kjölfar þess að útgerðarfélagið er nú til rannsóknar á Íslandi vegna mútugreiðslna í Namibíu á árunum 2012 til 2019 en KPMG var endurskoðandi félagsins á þessu tímabili. Rannsóknir á málinu, eða öngum þess, standa einnig yfir í Namibíu og Noregi.
Í svari til Stundarinnar segir framkvæmdastjóri KPMG, Jón S. Helgason, að ákvörðunin um að hætta viðskiptum við endurskoðendafyrirtækið hafi verið Samherja: „Það var ákvörðun Samherja að skipta um endurskoðunarfyrirtæki, að öðru leyti er KPMG bundið trúnaði um viðskiptavini sína.“
Ekki liggur fyrir af hverju Samherji tók þessa ákvörðun og ekki liggur fyrir hvort hún hafi verið vegna spurninga og eða þrýstings frá KPMG vegna rannsóknarinnar á Samherja vegna Namibíumálsins. Eins og kemur fram í svari segist félagið vera bundið trúnaði gagnvart viðskiptavinum sínum.
Samherji hefur ekki svarað ítrekuðu erindi Stundarinnar um af hverju félagið skiptir um endurskoðanda eftir áralanga tryggð við KPMG.
Ef fyrirtæki sætir rannsóknum vegna lögbrota getur falist áhætta í því fyrir endurskoðanda fyrirtækisins að hafa það sem viðskiptavin. Þá getur endurskoðendafyrirtækið eftir atvikum dregist inn í rannsóknina á fyrirtækinu og jafnvel orðið hluti hennar. Slíkar tengingar geta verið sérstaklega erfiðar fyrir stærri endurskoðendafyrirtæki eins og til dæmis KPMG sem eru með alþjóðlegt orðspor að verja.
KPMG kom náið að útgerð Samherja í Namibíu og skrifaði meðal annars minnisblað um ætlaða starfsmannaleigu sem Samherji hugðist stofna til að halda utan um mannahald á skipum sínum þar í landi sem og annars staðar. Starfsmaður KPMG á Akureyri sem endurskoðaði ársreikninga Samherji fór meðal annars einu sinni þangað suðureftir í heimsókn vegna vinnu sinnar og svo framvegis.
Skiluðu síðustu þremur ársreikningum í gær
Eins og Stundin greindi frá á þriðjudaginn þá er lítt þekkt endurskoðendafyrirtæki á Íslandi, BDO ehf., tekið við endurskoðun hluta félaga Samherja, meðal annars félaginu sem heldur utan um Namibíustarfsemi útgerðarinnar sem og eignarhaldsfélög á Kýpur.
Á heimasíðu BDO ehf. í byrjun vikunnar voru starfsmenn félagsins sagðir vera þrír, þar af einn löggiltur endurskoðandi, en nú hefur verið heimasíðan verið uppfærð og starfsmenn eru sagðir vera 22, þar af fimm löggiltir endurskoðendur. Til samanburðar vinna 266 starfsmenn hjá KPMG á Íslandi.
Þar til í gær hafði BDO ehf. ekki skilað ársreikningum þriggja síðustu rekstrarára, allt frá 2016, líkt og lög gera ráð fyrir að fyrirtæki geri. Ársreikningum áranna 2017, 2018 og 2019 var hins vegar öllum skilað til embættis ríkisskattstjóra þann 28. október 2020, í gær, eftir að fjallað hafði verið um fyrirtækið í fjölmiðlum. Félög sem ekki skila ársreikningum á réttum tíma til ríkisskattstjóra þurfa að greiða sektir vegna þessa. Ekki er algengt að endurskoðendafyrirtækjum láist að skila ársreikningum um starfsemi sína.
„Við erum ungt endurskoðunarfyrirtæki á Íslandi“
Samkvæmt upplýsingum hjá ríkisskattstjóra hefur BDO ehf. sinnt ýmis konar verkefnum öðrum en reikningshaldi og bókhaldi í gegnum árin. Meðal annars leigu á öðrum ótöldum vélum og búnaði, hugbúnaðargerð, öðrum vöruflutningum á vegum, smásölu póstverslana um netið og ljósmyndaþjónustu auk þess sem dótturfélag þess hefur verið í fjárhættu- og veðmálastarfsemi og sinnt lagningu gólf- og veggefna samkvæmt virðisaukaskattsnúmerum sem fyrirtækin hafa fengið í gegnum árin.
Alþjóðlegur risi en lítið félag á Íslandi
Í tölvupósti frá almannatengli til Stundarinnar, sem sendur er fyrir hönd BDO ehf., kemur fram að fyrirtækið á Íslandi sé hluti af BDO International, fimmtu stærstu endurskoðendakeðju í heimi á eftir Ernst og Young, PwC, Deloitte og KPMG og að fyrirtækið starfi í 167 löndum. Saga fyrirtækisins á Íslandi er hins vegar stutt eins og segir á heimasíðu þess: „Við erum ungt endurskoðunarfyrirtæki á Íslandi sem veitir alhliða þjónustu á sviði endurskoðunar og ráðgjafar.“
Félagið var með rúmlega 200 milljóna króna tekjur í fyrra og ríflega 8 milljóna króna tap. Til samanburðar var KPMG með ríflega 5 milljarða króna tekjur og rúmlega 300 milljóna króna hagnað. Því má segja að það sé vægast sagt ólíku saman að jafna þegar umsvif þessara tveggja endurskoðendafyrirtækja eru borin saman og enn sem komið er telst óljóst af hverju Samherji velur að skipta um endurskoðendafyrirtæki með þessum hætti.
Stundin náði ekki tali af Þorláki Björnssyni, framkvæmdastjóra BDO ehf., á Íslandi við vinnslu fréttarinnar.
Hefur dregist inn í sakamál útgerða
Athygli vekur að erlend félög BDO hafa dregist inn í rannsóknir erlendis á bókhaldi útgerðarfélaga.
Í byrjun október sagði breska blaðið The Guardian frá því að spænska BDO hafi verið dæmt til að greiða 115 milljóna pund sekt til spænska ríkisins fyrir að hafa falsað bókhald spænska útgerðarfyrirtækisins Pescanova á árunum 2010 til 2012. Pescanova, sem er frá héraðinu Galisíu, hefur meðal annars stundað fiskveiðar í Namibíu líkt og Samherji, eins og Stundin hefur fjallað um.
Dómstóllinn á Spáni komst að því að BDO hefði falsað bókhald Pescanova til að fela skuldir félagsins og hefði því meðal annars brotið gegn fjárfestum Pescanova með því að fegra stöðu félagsins. Þá var endurskoðandi BDO dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi vegna málsins.
BDO á Spáni hefur sagt að félagið muni áfrýja niðurstöðunni og að fyrirtækið hafi verið leiksoppur Pescanova sem hafi misnotað traust þess.
Þessi saga um BDO á Spáni sýnir meðal annars hvaða afleiðingar það getur haft fyrir endurskoðendafyrirtæki eins og BDO eða KPMG að dragast inn í rannsóknir á efnahagsbrotum fyrirtækja og einnig mögulega af hverju það getur þjónað viðskiptahagsmunum endurskoðendafyrirtækja að hætta að vinna fyrir viðkomandi fyrirtæki.
Athugasemdir