Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

SFS munu ekki beita Hraðfrystihúsið Gunnvöru viðurlögum

Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi von­ast til að fram­ganga stjórn­enda hjá Hrað­frysti­hús­inu Gunn­vöru valdi því ekki að sam­fé­lags­stefna í sjáv­ar­út­vegi bíði hnekki af. Fyr­ir­tæki verði hins veg­ar að haga sér með for­svar­an­leg­um hætti gagn­vart starfs­fólki.

SFS munu ekki beita Hraðfrystihúsið Gunnvöru viðurlögum
Fyrirtæki þurfa að haga sér með forsvaranlegum hætti Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) munu ekki, og geta ekki, beitt Hraðfrystihúsið Gunnvöru viðurlögum fyrir að hafa brotið gegn samfélagsstefnu í sjávarútvegi með framgöngu sinni gagnvart skipverjum Júlíusar Geirmundssonar. Heiðrún Lind Marteinsdóttir er framkvæmdastjóri SFS. Mynd: Heiða Helgadóttir

Hraðfrystihúsið Gunnvör verður ekki beitt viðurlögum af hálfu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), þrátt fyrir að fyrirtækið hafi augljóslega brotið gegn samfélagsstefnu SFS. Slíkt sé ekki í verkahring SFS. Hraðfrystihúsið Gunnvör verður eftir sem áður aðili að samfélagsstefnunni. „En það er á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að innleiða stefnuna og framfylgja. Því það er til lítils að undirgangast stefnu ef ekki á að fara eftir henni,“ segir í svari SFS við fyrirspurn Stundarinnar.

Víðtækt Covid-19 smit kom upp í togaranum Júlíusi Geirmundssyni í síðasta veiðitúr togarans. Allt í allt hefur verið staðfest að 22 af 25 skipverjum smituðust af kórónaveirunni. Veikindin munu hafa komið upp strax á fystu dögum veiðitúrsins og lagst þungt á suma af skipverjunum. Þrátt fyrir það voru menn, samkvæmt lýsingum skipverja, látnir vinna áfram, sumir hverjir fárveikir. Skortur var á verkjalyfjum í skipinu og beiðnir skipverja um að haldið yrði í land vegna veikindanna voru hunsaðar. Skipverjum var meinað að tjá sig um málið af útgerðinni.

Hegðunin nú í samræmi við það sem áður hefur verið

„Hegðun HG [Hraðfrystihússins Gunnvarar] í þessum kórónuvírusskandal núna er í nákvæmu samræmi við hegðun fyrirtækisins gagnvart starfsmönnum hvað varðar öryggi og heilsu starfsmanna í fortíðinni,“ sagði Arnar Hilmarsson, 21 árs skipverji á Júlíusi Geirmundssyni, í viðtali við Ríkisútvarpið síðastliðinn laugardag.

„Það er ekki í verkahring að SFS að beita aðildarfélög viðurlögum“

Hraðfrystihúsið Gunnvör hefur undirritað samfélagsstefnu SFS en í henni er meðal annars tiltekið að stjórnendum fyrirtækjanna sem undirritað hafa stefnuna sé „ljós sú ábyrgð sem við berum gagnvart starfsfólki okkar og við höfum virðingu að leiðarljósi í öllum okkar samskiptum.“ Enn fremur segir: „Við leggjum áherslu á heilsu og öryggi starfsfólks og vinnum markvisst að því að draga úr hættu við vinnu og í starfsumhverfi.“

SFS segir málið sýna þörfina á samfélagsstefnu

Í svari SFS við fyrirspurn Stundarinnar um það hvort framganga stjórnenda Gunnvarar muni hafa einhverjar afleiðingar, í ljósi þess að fyrirtækið hafi undirritað samfélagsstefnunu, kemur fram að málið verði rætt á vettvangi samtakanna og einnig sérstaklega við fyrirtækið. „Stefnan er sett til þess að vera til leiðbeiningar fyrir fyrirtækin. Þetta atvik fyrir vestan sýnir þörfina á því að stefna sé til staðar sem veitir leiðsögn um ábyrgð og skyldur fyrirtækja gagnvart starfsmönnum,“ segir í skriflegu svari við fyrirspurninni.

Þá segir einnig í svarinu að Gunnvör geti eftir sem áður verið aðili að samfélagsstefnu sjávarútvegsins. „Stefnan er sett til þess að fyrirtæki geti gert betur. Það er alltaf svigrúm til þess og þá er nauðsynlegt að hafa stefnu og leiðbeiningu til að styðjast við.“

„Það er til lítils að undirgangast stefnu ef ekki á að fara eftir henni“

Engin viðurlög eru við því að brjóta gegn umræddri samfélagsstefnu, að því er kemur fram í svari SFS. „Það er ekki í verkahring SFS að beita aðildarfélög viðurlögum, enda ekki á færi samtakanna. Samfélagsstefnan er stefna hvers fyrirtækis fyrir sig og er ætlað að vera fyrirtækjunum leiðsögn um hvernig gera megi betur og sýn á hvernig sjávarútvegur við ætlum að vera til framtíðar.“

Innan SFS vonast fólk til þess að samfélagsstefna sjávarútvegsins hafi ekki beðið hnekki af framgöngu forsvarsmanna Gunnvarar í garð skipverja á Júlíusi Geirmundssyni. „Vonandi ekki. Það mætti kannski frekar segja að atvikið fyrir vestan sýni fram á þörf slíkrar stefnu, því það skiptir máli hvernig fyrirtæki haga sér gagnvart sínu starfsfólki og samfélaginu almennt. Það er það sem lögð er áherslu á í stefnunni; að fyrirtæki hagi sér með forsvaranlegum hætti.“

Sem fyrr er nefnt hyggst SFS ræða málið við forsvarsmenn Gunnvarar. Í samfélagsstefnunni kemur fram að hún verði uppfærð eftir því sem þurfa þykir. „En það er á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að innleiða stefnuna og framfylgja. Því það er til lítils að undirgangast stefnu ef ekki á að fara eftir henni,“ segir í svari SFS.

 

 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Íslendingar þurfi að ákveða hvar þeir staðsetja sig: „Þetta eru mjög válegir tímar“
3
ViðtalBandaríki Trumps

Ís­lend­ing­ar þurfi að ákveða hvar þeir stað­setja sig: „Þetta eru mjög vá­leg­ir tím­ar“

Pól­skipti hafa átt sér stað í vest­rænu varn­ar­sam­starfi með skyndi­legri stefnu­breyt­ingu Banda­ríkj­anna í ut­an­rík­is­mál­um, seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hern­að­ar­sagn­fræð­ing­ur. Hætta geti steðj­að að Ís­landi en Banda­rík­in hafi sýnt að þau séu óút­reikn­an­leg og beri ekki virð­ingu fyr­ir leik­regl­um al­þjóða­kerf­is­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
4
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár