Eftir að Sigríður Elín Ásmundsdóttir sagði frá alvarlegu einelti í garð sonar hennar, hins ellefu ára gamla Ólivers sem gengið hefur í Sjálandsskóla í Garðabæ, hefur fjöldi fólks haft samband til að stappa í hann stálinu.
Á meðal þeirra eru tónlistarmaðurinn Ingó veðurguð, handboltamaðurinn Björgvin Páll Gústavsson, knattspyrnulandsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir.
Drengurinn hefur reglulega hringt grátandi heim og ákvað móðir hans að opna á umræðuna um einelti eftir að hún heyrði hann lýsa því við vin sinn í síma að hann langaði til að deyja.
Brosir nú hringinn
„Ólíver brosir hringinn eftir að hafa fengið símtöl og skilaboð frá þeim sem hann dýrkar og dáir mest í lífinu,“ segir Sigríður Elín í Facebook-færslu í kvöld.
„Takk Ingó Veðurguð fyrir að hringja og stappa í hann stálinu,“ segir hún. „Takk Jón Daði og íslenska landsliðið í fótbolta fyrir hjartnæm skilaboð til Ólívers, hann fékk kusk í augað og trúði varla sínum eigin augum. Takk Aron Einar, Ólíver missti andlitið þegar fyrirliði íslenska landsliðsins sendi honum skilaboð og sagðist vilja heyra í honum. Takk Björgvin Páll Gústavsson fyrir einlægt og uppbyggjandi spjall við Ólíver, hann er mjög spenntur að hitta þig á vellinum og spila við þig, hann ætlar sko ekki að tapa fyrir þér! Takk Aron Pálmarsson fyrir peppið og spjallið og ÁFRAM FH! Takk Ævar vísindamaður, ævintýragjarna guttanum mínum finnst þetta frábær hugmynd hjá þér. Takk ALLIR! Það er magnað að upplifa þetta góða, fallega í lífinu eftir langavarandi niðurbrot.“
Skólastjórnendur hörmuðu stöðuna
Eftir að frásögnin kom fram sendu skólastjórnendur í Sjálandsskóla frá sér yfirlýsingu og sögðust „harma þá stöðu sem upp er komin vegna eineltismáls sem fjallað hefur verið um á opinberum vettvangi“. Þeir sögðu að „unnið hefði verið eftir eineltisáætlun Garðabæjar síðan tilkynning til skólans barst um þetta tiltekna mál“. „Skólinn getur ekki tjáð sig um mál einstaka nemenda en mikilvægt er að það komi fram að unnið hefur verið með nemendum skólans í félagsfærni og vináttuþjálfun um langt skeið. Meðal annars hafa allir kennarar skólans sótt námskeið hjá KVAN þar sem kennarar geta sótt í verkfærakistu til að efla og þjálfa félagsleg samskipti. Þeirri vinnu verður haldið áfram í skólanum í samvinnu við fræðslusvið Garðabæjar. Skólinn hefur lagt sig fram um að vinna öll eineltismál og samskiptamál sem upp koma faglega og af festu.“
Sigríður Elín tiltekur að þau hafi fengið símtal frá menntamálaráðherra, sem fer með skólamál í ríkisstjórn Íslands. „Takk menntamálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir fyrir að hringja og sýna stuðning í verki með því að ætla að taka fastar á eineltismálum í skólakerfinu og finna betri lausnir sem virka fyrir börnin og unglingana okkar. Og gleymum ekki að allir þeir sem standa með Ólíver í baráttunni standa með öllum öðrum börnum þarna úti sem eru að upplifa það sama.“
Athugasemdir