Aðeins tók tvo daga að hreinsa nýtt vegglistaverk frá Skiltamálun Reykjavíkur af vegg við bílaplan á Skúlagötu, sem lengi hefur verið undirlagður veggjakroti.
Listaverkið var staðsett við bílaplan sem er á lóð í eigu ríkisins á milli Sölvhólsgötu og Skúlagötu, við hlið Sjávarútvegshússins sem hýsir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, þar sem sjávarútvegsráðherrann Kristján Þór Júlíusson er til húsa ásamt ráðuneyti sínu.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar var verkið fjarlægt að beiðni Rekstrarfélags Stjórnarráðsins.
Listaverk með ákall
Stjórnarskrárfélagið birti um helgina mynd og myndband af nýju vegglistaverki með áletruninni: „Hvar er nýja stjórnarskráin?“
„Þetta magnaða listaverk hefur risið á vegg við Sjávarútvegshúsið, sem árum saman hefur verið útkrotaður og til lítillar prýði,“ sagði í stöðufærslu félagsins.
Listaverkið vakti nokkra athygli á samfélagsmiðlum um helgina. Það var Skiltamálun Reykjavíkur sem stóð að gerð listaverksins. Ákallið kallast á við herferð sem farið hefur fram á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #hvar, þar sem stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að hafa ekki farið eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 um að tillögur stjórnlagaráðs yrðu grundvöllur nýrrar stjórnarskrár.
Listaverk eða skemmdarverk?
Upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg kannaðist ekki við að borgin hefði látið fjarlægja verkið, þegar Stundin hafði samband. Lóðin, þar sem veggurinn liggur, er í eigu ríkisins. Hjá Ríkiseignum náðist samband við umsjónarmann annarrar fasteignar. „Ég sá þetta bara í blöðunum. Mér fannst þetta bara töff. Ég er saklaus,“ sagði hann. Hann taldi þó líklegt að farið hefði verið með listaverkið eins og annað veggjakrot, það hefði verið fjarlægt til þess að forðast að slíkt athæfi myndi dreifa sér.
Aðgerðin var framkvæmd af háþrýstiþvottafélaginu Allt-af ehf, sem skráð er í Baugakór í Kópavogi. Aðspurður hver hefði farið fram á að listaverkið yrði fjarlægt sagðist forsvarsmaður félagsins hafa fengið beiðni frá Rekstrarfélagi Stjórnarráðsins fyrr í dag. „Ja, þetta er svo sem ekki listaverk. Þetta hljóta að vera skemmdarverk, að krota á eigur annarra,“ sagði hann.
Þá sagði forsvarsmaðurinn að veggjakrot hefði áður verið fjarlægt af sama vegg.
Tók upp hjá sjálfum sér að gera verkið
Narfi Þorsteinsson, hjá Skiltamálun Reykjavíkur, sem hefur mikla reynslu af skiltamálun, skreytingum, list- og auglýsingamálun og auglýsingateikningum, sagðist í samtali við Stundina ekki hafa gert listaverkið að undirlagi neins annars. Hann hafi eingöngu viljað sýna samstöðu. Narfi fylgdist með í dag þegar listaverkið var fjarlægt.
Myndir sýna að fyrir gerð vegglistaverksins höfuð svokölluð „tögg“ verið langdvölum á veggnum, merki tiltekinna veggjakrotara.
Rekstrarfélag Stjórnarráðsins, sem staðsett er í Skuggasundi og heitir nú heitir Umbra - þjonustumiðstöð Stjórnarráðsins, svarar ekki í síma eftir klukkan fjögur.
Rekstrarfélagið heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Hlutverk félagsins, samkvæmt vefsíðu þess, er að „gera ráðuneytunum kleift að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni“. Þá er framtíðarsýn félagsins tilgreind sem svo að það „bindi ráðuneytin saman í eina heild með framúrskarandi þjónustu og fjölbreyttum lausnum.“
Ekki liggur hins vegar endanlega fyrir staðfesting á því hver fór fram á að listaverkið við hlið Sjávarútvegshússins með ákalli um nýja stjórnarskrá yrði fjarlægt. Fyrirspurn til félagsins með tölvupósti hefur ekki verið svarað.
Athugasemdir