Atvinnurekendur héldu lífskjarasamningnum í gíslingu meðan þeir tóku ríkisstjórnina upp á löppunum og hristu skiptimynt úr vösum ráðherranna. Þeir höfðu nokkra milljarða upp úr krafsinu til viðbótar við það sem þeir höfðu þegar fengið. Flestum þótti nóg um aðfarirnar enda hafa stjórnvöld verið með útréttar hendur gagnvart atvinnulífinu í farsóttinni.
Það var þó einn maður sem fann sig knúinn til að setja ofan í við helstu gagnrýnendur gíslatökunnar, fyrrverandi forseti ASÍ mætti í viðtal í Morgunblaðinu til að segja okkur að honum hugnist ekki orðræða fyrrum félaga í verkalýðsbaráttunni.
Á myndinni með fréttinni birtist okkur maður með skegg sem einu sinni einkenndi róttæklinga öðrum fremur, hann er með rautt bindi og bakgrunnurinn er rauður. Og hann sér rautt, ekki yfir því að atvinnurekendur, sem hafa fengið mikla samfélagslega aðstoð í farsóttinni, vilji ráðast gegn samningum sem einkum sneru að hagsmunum þeirra lægst launuðu, nei, hann sér rautt yfir því að verkalýðshreyfingin sé ekki í nógu góðu talsambandi við SA.
Það þarf ekki mikla ályktunarhæfni til að sjá að þessi maður er einungis leikmunur í fréttinni. Hann er liðin tíð innan verkalýðshreyfingarinnar og nýtt fólk er tekið við.
„Við eigum nefnilega líka áhrifavalda sem hafa tekið að sér að verða vörumerki fyrir hugsjónir án þess að hafa þær“
En er Gylfi Arnbjörnsson áhrifavaldur innan hreyfingarinnar?
Eða má kannski ekki nota það orð nema um fólk sem skríður frammi fyrir myndavélum, á nærbuxunum, sleikjandi útum yfir nýju karamellujógúrtinni frá MS, eða sem tekur að sér að vera andlit nýja hægðalyfsins sem var að koma á markað og leysir öll vandamál mannkynsins?
Eða kannski er hann einmitt þess konar áhrifavaldur.
Eins og fólkið sem er tilbúið að breyta sér og heimilum sínum í risastór auglýsingaskilti, til að selja okkur bull og drasl.
Við eigum nefnilega líka áhrifavalda sem hafa tekið að sér að verða vörumerki fyrir hugsjónir án þess að hafa þær. Þannig var hann vörumerki verkalýðsbaráttu um langt skeið sem framkvæmdastjóri og síðar forseti ASÍ.
Hann var talsmaður verkalýðsbaráttu sem var rekin á forsendum atvinnurekenda. Hún fól í sér láglaunastefnu sem byggði á þeirri bjargföstu trú að hluti vinnuaflsins eigi ekki að geta framfleytt sér á launum sínum, annars fari fyrirtækin á hausinn. Hann gerði hagfræði atvinnurekenda að trúarkenningum og setti aldrei spurningarmerki við þær staðreyndir sem þar voru matreiddar.
Það er þetta vörumerki sem Mogginn er að gera út á.
Þetta var ekki vandi sem var einungis bundinn við verkalýðsforystuna. Fram að hruninu 2008 prédikuðu stjórnmálamenn, fjölmiðlar og verkalýðshreyfing, einum rómi, trúarsetningar nýfrjálshyggjunnar og öll gagnrýni á þessa ríkjandi hugmyndafræði var álitin stórhættuleg róttækni eða í besta falli barnaskapur.
Þannig var það staðreynd en ekki skoðun að hækkun lægstu launa ylli óðaverðbólgu, og staðreynd að ef atvinnuleysisbætur væru ekki fyrir neðan hungurmörk nennti enginn að vinna. Það var líka staðreynd að ef heilbrigðisþjónusta yrði gjaldfrjáls gerði fólk sér upp veikindi og lægi röflandi uppi á læknum. Og það er líka alkunna staðreynd í þessum hugmyndaheimi að ef útgerðarmenn þurfi að deila arðinum af fiskveiðum með eigendum auðlindarinnar fari útgerðin á hausinn og enginn nenni að veiða fiskinn.
Og síðast en ekki síst varð það sameiginlegt áhugamál verkalýðshreyfingarinnar og SA að knýja á um stórframkvæmdir með óafturkræfum náttúruspjöllum til að lokka hingað erlend fyrirtæki sem byggju við allt annað skattaumhverfi en þorri innlendra fyrirtækja.
Hrunið setti risastórt spurningarmerki við þetta gildismat en bara í stutta stund. Flestir stjórnmálamenn gömlu flokkanna skiluðu sér af fjalli eftir hrunið og fóru aftur að jarma kunnuglega fyrir húsbændur sína – þó ekki allir. Og verkalýðshreyfingin sat föst við sinn keip.
En á undanförnum árum hefur orðið vart við breytingu í orðræðunni, það eru komnir fram nýir og öðruvísi fjölmiðlar. Og nýja verkalýðshreyfingin, hún er sér á parti. Þar hefur náð undirtökunum fólk sem neitar að vera leikmunir fyrir atvinnurekendur. Umræðan er vissulega hörð og öfgakennd á stundum en núna er það ekki bara í aðra áttina.
En misskiptingin er samt að vaxa þótt talsmönnum hennar hafi fækkað.
Talsmaður atvinnurekenda, sem sakaði verkalýðsfélögin um óbilgirni þegar þau neituðu að „eiga samtal“ um að bakka með lífskjarasamninginn, brást reiður við orðalagi spyrjanda í Kastljósi, sem líkti framgöngu SA við hótanir og pókerspil. Halldór Benjamín vildi fremur nota orðalagið ábyrg afstaða og ósk um samtal. Hann hrósaði stjórnvöldum fyrir að hafa þróað samtalið við atvinnurekendur, eftir að þau létu 25 milljarða af hendi af fjármunum almennings til að bjarga lífskjarasamningnum, meðal annars því sem á að standa straum af atvinnuleysisbótum og fæðingaorlofi. Þá fannst honum innkoma fyrrum forseta ASÍ áhugaverð.
Það seig hins vegar aftur á ógæfuhlið spyrjandans þegar honum varð á að spyrja hvað gerðist þegar fyrirtækin yrðu aftur aflögufær, hvað þau ætluðu þá að leggja af mörkum. Hvort gjöld og skattar yrðu hækkuð til að fjármagna tóman ríkissjóð? Það þótti greinilega óviðeigandi spurning.
Það var engin ósk eftir slíku samtali.
Samtök atvinnulífsins hafa lagst eindregið gegn hækkun atvinnuleysisbóta því tekjur ríkissjóðs séu svo takmarkaðar. Á sama tíma berast fréttir af því að atvinnnulausir á Suðurnesjum standi í biðröð eftir matargjöfum, en 20 prósent íbúa í Reykjanesbæ eru atvinnulaus.
Og yfir þessu ástandi vomir önnur mjög óviðeigandi spurning eins og svart regnský sem hótar að hella úr skálum sínum og spilla fína kaffiboðinu hjá SA.
Hvernig hafa stærstu fyrirtæki á Íslandi mætt þessu ástandi með því að draga úr launakostnaði stjórnenda? Halldór Benjamín ætti líka að útskýra fyrir þessu fólki milliðalaust, af hverju það eigi að líða skort meðan hann og vinir hans hafi margar milljónir á mánuði þótt fyrirtækin séu á framfæri ríkisins.
En það er sjálfsagt engin ósk eftir slíku (óviðeigandi) samtali.
Athugasemdir