Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur lagt fram drög að frumvarpi um heildarendurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof. Í frumvarpinu er lagt til að fæðingarorlof verði aukið úr tíu mánuðum í tólf. Hvort foreldri um sig hefur rétt á sex mánaða orlofi en einn mánuður er framseljanlegur. Félagsfræðiprófessor segir frumvarpið framsækið og stórt skref í átt að kynjajafnrétti.
Drögin að frumvarpinu byggja á ráðgjöf nefndar sem ráðherrann skipaði í ágúst 2019 til þess að endurhugsa núverandi löggjöf. Þau hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningi gefst færi á að koma fram ábendingum og tillögum.
Samkvæmt vefsíðu Stjórnarráðsins er gert ráð fyrir því að frumvarpsdrögin muni taka breytingum í samræmi við þær athugasemdir sem berast frá almenningi í gegnum gáttina.
Lög í takt við samtímann
Ásmundur segir á vefsíðu stjórnarráðsins það mikið fagnaðarefni að drögin séu komin í gáttina þar sem tuttugu ár eru frá staðfestingu núgildandi laga og sé tími til að aðlaga þau að samtímanum. „Við viljum áfram skapa gott umhverfi fyrir fólk sem eignast börn og gera þeim kleift að njóta dýrmætra stunda með barninu á fyrstu mánuðum þess, og þetta frumvarp verður stórt skref í þá átt,“ segir hann.
Núverandi lög um fæðingarorlof veita rétt til tíu mánaða orlofs þar sem hvort foreldri um sig hefur þrjá óframseljanlega mánuði, en tveir mánuðir eru frjálsir til ráðstöfunar. Talsverður kynjahalli ríkir á ráðstöfum þessa mánaða og eru konur mun líklegri til að nýta þá en karlar.
Til hefur verið lagt að fæðingarorlof verði lengt úr tíu mánuðum í tólf mánuði fyrir foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur frá 1. janúar 2021. Þá verður sjálfstæður réttur hvors foreldris fyrir sig sex mánuði. Einn mánuður verður hins vegar frjáls til ráðstöfunar svo annað foreldrið getur tekið sjö mánuði og hitt fimm mánuði. Markmið lagabreytinganna er að tryggja foreldrum viðverutíma með barninu til jafns, ásamt því að jafna kjöl kynjanna á vinnumarkaði.
Ráðstafanir í formi yfirfærslu réttinda og fæðingarstyrks eru einnig gerðar til að mæta aðstæðum þar sem öðru foreldri er af einhverjum ástæðum ekki fært að nýta rétt sinn innan kerfisins. Dæmi um slíkar aðstæður væru ef faðerni barns er óstaðfest fyrir lögum eða ef foreldri sætir nálgunarbanni eða hefur verið fjarlægt af heimili.
Dr. Ingólfur V. Gíslason, félagsfræðingur, hefur sérhæft sig í málefnum sem tengjast fæðingarorlofi og föðurhlutverkinu. Hann segir frumvarpið vera framsækið skref í átt að kynjajafnrétti, rétt eins og núgildandi lög voru á þeim tíma sem þau voru sett árið 2000. „Það er haldið áfram á sömu braut og þar var mörkuð, þar sem áherslan er á að báðir foreldrar komi að uppeldi og umönnun afkvæma sinna frá fyrstu tíð,“ segir hann.
Jafnrétti á ólíkum sviðum tilverunnar
Ingólfur segir frumvarpið ná til ólíkra þátta í lífi fólks, jafnt innan fjölskyldu og heimilis sem á atvinnumarkaði og í opinberu lífi. Hann segir mikilvægt fyrir jafnrétti að styrkja hefðbundna kvenlega eiginleika í lífi og tilveru karla á sama hátt og konur hafa tekið á sig vissa karllæga eiginleika á opinbera sviðinu. „Þetta er hugsað út frá nokkrum vinklum að mínu viti. Eitt er náttúrulega það að hérlendis jafnt og annars staðar hefur verið ljóst að tilvera kvenna hefur færst nær því sem einkenndi hefðbundið líf karla. Það gengur ekki að það eitt gerist heldur þarf líka að færa kvenleika í líf karla, að færa það nær því sem hefur einkennt hefðbundið líf kvenna. Það er eitt af því sem þetta frumvarp styður við og ýtir undir,“ segir Ingólfur.
Aukin þátttaka feðra hafi jákvæð áhrif
Um breytingar á aðkomu kynjanna að uppeldi barna sinna segir hann að stefnan hafi verið í átt að aukinni þátttöku karla. „Það er auðvitað eitthvað sem hefur verið að gerast, um 90% íslenskra feðra nýta þann rétt sem þeir hafa til orlofs og taka það sem þeir einir geta nýtt. Það þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þeir muni ekki nýta þetta. Feður vilja almennt mjög gjarnan koma að umönnun barna sinna. Við höfum séð það í okkar rannsóknum - bæði í því sem ég og Guðný Björk Eydal og Ásdís Arnaldsdóttir höfum gert og í því sem aðrir fræðimenn hafa kannað - að þetta hefur jákvæð áhrif á öllum sviðum. Ég veit ekki um neitt neikvætt sem birtist í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru árið 2000. Feður á Íslandi eru virkari en þeir hafa nokkurn tíma áður verið, ekki bara á meðan fæðingarorlofinu stendur heldur í lífi barna sinna eftir það. Við höfum skoðað umönnun foreldra á börnum frá því þau fæðast í könnun sem við höfum keyrt fjórum sinnum og það sést að hún verður alltaf jafnari. Jöfnunaráhrifin eru skýr.“
„Feður vilja almennt mjög gjarnan koma að umönnun barna sinna“
Hann segir að gæta megi fleiri jákvæðra áhrifa af völdum jafnari nýtingu foreldra á fæðingarorlofsréttinum. „Aðrir fræðimenn hafa komist að því að það hefur dregið úr skilnuðum. Þar sem faðir nýtir sér fæðingarorlof eru líkindi á skilnaði minni en hjá þeim sem nýta ekki orlofsréttinn. Það hefur einnig sést í alþjóðlegri rannsókn að ungmennisem hafa notið góðs af þessum lögum eigaauðveldara með að koma til feðra sinna með vandamál sem á þeim brenna. Íslenskar mæður hafa alltaf verið í toppi, þetta hefur ekki haft nein neikvæð áhrif á það, en íslenskir feður eru núna komnir í topp á alþjóðlegum mælikvarða,“ segir hann.
Möguleg lausn á kynjuðum launamuni
Kynjaður launamunur hefur verið viðamikið og krefjandi verkefni fyrir samfélagið. Ingólfur segir jafnari þátttöku feðra í umönnun barna sinna vera líklega til þess að jafna kjöl kvenna á vinnumarkaði þar sem rannsóknir sýni að ein megin ástæða fyrir lægri launakjörum kvenna liggi í þeirri viðleitni að konur á barneignaraldri séu óáreiðanlegri starfskraftar. „Síðan höfum við séð að það hefur dregið tölvert úr kynbundnum launamun á Íslandi. Hvort að það sé bein afleiðing af lögunum frá 2000 getum við ekki sagt, en það er mjög líklegt einfaldlega vegna þess að atvinnurekendur hafa ekki sama tilefni til þess að mismuna á grundvelli kyns ef þeir geta gengið út frá því að ung kona og ungur karl séu jafn líkleg til þess að taka sér fæðingarorlof og í jöfnu hlutfalli. Rannsóknir hafa sýnt að það eru tvær megin ástæður fyrir kynbundum launamun. Annars vegar er það kynjaskiptingin á vinnumarkaðinum í heild og hins vegar er það umhyggjuábyrgðin sem konur hafa axlað í mun ríkari mæli heldur en karlar. Afleiðingar laganna frá árinu 2000 hafa verið mjög miklar fyrir íslenskt samfélag, en allar mjög jákvæðar sem við vitum af. Það er lang líklegast að sama verði með þetta framhald,“ segir hann að lokum.
Athugasemdir