Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra á fimmtudagsmorgun í hestaferð sem hún var í með föður sínum á Suðurlandi. Flogið var með hana til baka í fríið þegar fundurinn var hálfnaður.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir þetta. Flugstjóri þyrlunnar er nú í sóttkví þar sem hann reyndist í innri hring COVID-19 hópsmits á Hótel Rangá sem tilkynnt var um daginn eftir flugið. Hafði hann snætt þar helgina áður. Áslaug Arna var í ytri hring smitsins eftir kvöldverð ráðherra ríkisstjórnarinnar þar á þriðjudagskvöld.
Sjaldgæft er að Landhelgisgæslan fljúgi með ráðherra og þegar það gerist tengist það oftast störfum stofnunarinnar eða utanríkismálum, svo sem heimsóknum erlendra ráðamanna eða varnaræfingum. Var Áslaug Arna til dæmis viðstödd sjóbjörgunaræfingu í júní. Ásgeir segir að áhöfn hafi verið til staðar á fimmtudag vegna flugs með sérfræðinga Veðurstofunnar sem var á dagskrá síðar um daginn. Frumkvæðið um að bjóða ráðherra hafi komið frá Landhelgisgæslunni, en Áslaug Arna er æðsti yfirmaður stofnunarinnar í krafti embættis síns.
„Við erum í góðu samstarfi við dómsmálaráðherra,“ segir Ásgeir. „Þar sem við vorum á flugi um Suðurlandið buðum við dómsmálaráðherra að slást með í för. Það er algengt að flug með ráðamenn séu sett innan svona verkefna eða æfingar, það er í þau fáu skiptin sem er flogið með ráðamenn.“
„Við erum í góðu samstarfi við dómsmálaráðherra“
Fundurinn sem Áslaug Arna sótti í Reykjavík var samráðsfundur Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra vegna COVID-19 faraldursins til lengri tíma litið sem bar titilinn „Að lifa með veirunni“. Fundurinn var unninn í samstarfi við forsætis- og dómsmálaráðuneytið, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var ekki viðstödd.
Áslaug Arna var ekki meðal ræðumanna á fundinum. Samvæmt heimildum Stundarinnar hlýddi hún á ræður, en yfirgaf fundinn um það leyti sem starf vinnuhópa fór af stað. Fundinum var streymt á netinu og fjöldi fundarmanna takmarkaður vegna sóttvarnarregla.
Reyndust bæði tengd hópsmitinu á Hótel Rangá
Ásgeir staðfestir að flugstjóri þyrlunnar sem flutti Áslaugu Örnu sé nú í sóttkví eftir að hafa borðað morgunmat ásamt eiginkonu sinni á Hótel Rangá sunnudaginn 16. ágúst. „Hann er búinn að fara í eitt próf og það kom vel út,“ segir hann.
Ásgeir segir flugstjórann hafa verið í hinum svokallaða „innri hóp“ sem þurfti að fara í fjórtán daga sóttkví vegna hópsmitsins. Ekki var talin ástæða til að prófa aðra meðlimi áhafnarinnar eftir samráð við sóttvarnaryfirvöld, að sögn Ásgeirs. „Allir sem að koma um borð í þyrlurnar okkar þurfa að vera með grímur og hanska,“ segir Ásgeir. „Það var í þessu tilfelli eins og í öðrum flugum að slíkar varúðarráðstafanir voru viðhafðar. Því það skiptir miklu máli.“
Ráðherrar úr ríkisstjórninni voru hins vegar í „ytri hóp“ hópsmitsins eftir kvöldverð þeirra á Hótel Rangá á þriðjudag. Tilkynnt var um hópsmitið á föstudaginn og hafa ráðherrar viðhaft smitgát síðan.
Ásgeir segir sóttkví flugstjórans því ekki tengjast því að hann hafi flogið með ráðherra eftir að hún snæddi á Hótel Rangá. „Annars væri öll áhöfnin í sóttkví,“ segir hann.
Í hestaferð fyrir og eftir Reykjavíkurflugið
Þyrlan fór í loftið frá Reykjavík klukkan 7:00 á fimmtudagsmorgun og sótti ráðherra í Reynisfjöru samkvæmt flugskýrslu. Komið var aftur til Reykjavíkur klukkan 8:40, en fundurinn á Hótel Hilton Nordica hófst klukkan 9:00. Farið var aftur í loftið klukkan 11:06, en samkvæmt dagskrá var starf vinnuhópa á fundinum þá nýhafið. Fundinum lauk klukkan 13:00 og dvaldi því Áslaug Arna ekki nema hálfan fundartímann í mesta lagi. Að þessu loknu fór þyrlan og sótti sérfræðinga Veðurstofunnar í Húsafell í Borgarfirði.
Ráðherra var á Suðurlandi ásamt föður sínum, Sigurbirni Magnússyni, lögmanni og stjórnarformanni útgáfufélags Morgunblaðsins, eins og sjá má á síðu hennar á samfélagsmiðlinum Instagram. Fóru þau meðal annars að Dyrhólaey, Hjörleifshöfða og Hafursey. Þurfti Áslaug Arna að hverfa snemma úr ferðinni á föstudag eftir að upplýst var um hópsmitið á Hótel Rangá sem hún tengdist eftir kvöldverð ríkisstjórnarinnar á þriðjudagskvöld. „Það var dýrmætt að ná smá sól og hestbaki með pabba þó það hafi orðið stutt í báða enda,“ skrifaði hún á Instagram.
Athugasemdir