Hún er öryrki sem reynir að framfleyta sér með vinnu eins og hún getur. Kremena flutti frá Búlgaríu til Íslands fyrir 27 árum og lýsir hér veruleika sínum og reynslu í verkefni Öryrkjabandalagsins, Við erum hér líka.
Kremena saknar gömlu Kremenu sem var hrifnæm og sá fegurðina í börnum og blómum. Þessi sem var frumleg og uppátækjasöm og átti sína drauma. Kremena kemur frá Búlgaríu og segir fólkið sitt vera ástríðufullt, þau hlæja hátt og tala mikið. Hún og vinkonur hennar tali yfirleitt allar í einu yfir hvor aðra þegar þær hittast og fari létt með það. „Mig dreymir hins vegar ekkert lengur af því draumar mínir eru ekki að rætast. Ekkert er að breytast“ segir Kremena.
„Hvernig hefur þú það Kremena?“ spyr læknirinn. „Ég finn fyrir grátinum innra með mér en leyfi honum ekki að stjórna, ég held tilfinningunum í skefjum.“ Þannig svarar Kremena og þetta vill læknirinn heyra. „Gott“ segir læknirinn. Kremena hlýðir lækninum og heldur tilfinningum sínum niðri. Hún segir hvorki „F... you“ eða „Love you“.
„Ég er flöt og öfgalaus, þannig vill umhverfið hafa mig. Mér er ráðlagt að vera ekki með tilfinningar þær gætu hleypt mér upp í maníu. Ég hef alveg séð fólk í alvöru maníu. Manía er hættulegt ástand fyrir veika manneskju, fólk missir raunveruleikatengsl og getur gert hættulega hluti sem ekki er hægt að taka aftur til baka.“
Missti tökin eftir framhjáhaldið
Veikindin byrjuðu þegar barnsfaðir hennar og sambýlismaður hélt fram hjá henni og fór að vera með öðrum konum. „Ég var alveg með þennan mann minn í guðatölu, ég þurfti hvorki netfang né bankareikning að hans mati. Ég bara vann á ungbarnaleikskólanum, elskaði vinnuna mína og launin fóru inn á reikninginn hans.
En þegar hann sveik mig var mér mjög brugðið. Ég átti ekki ekki von á þessu og eitthvað brotnaði innra með mér. Ég reifst og skammaðist og grét. Ég var auðvitað sturluð af reiði en veit ekki hvort hægt er að kalla það maníu. Ég braut hluti, en ég lagði ekki hendur á neinn.“
Hvíldarfrí á geðdeild
Þetta endaði með því að geðlæknir sem ég hafði kynnst í gegnum fæðingarþunglyndi nokkrum árum fyrr sannfærði mig um að leggjast inn á Geðdeild. Hann kynnti dvölina fyrir mér eins og hvíldarfrí frá heimiliserjunum. Ég féllst á þetta og pakkaði niður saumavélinni og sá fyrir mér að sauma og vera innan um fólk sem myndi skilja mig.
Þegar Kremena kom inn á Geðdeild Landsspítalans var saumavél ásamt farangri hennar gerð upptækt. Hún var látin skipta um föt og fara í spítala nærföt og slopp og stungið inn í hvítt herbergi og tómt ekkert nema rúm og eitt tímarit. Henni hafði verið skellt í nauðungarvist. Ég fékk ekki að hitta neinn og í næsta herbergi svaf vaktmaður en það var opið á milli okkar. Hámark í einangrunarvistun eru 48 klukkustundir og þegar mér var sleppt út fór ég aftur heim en helmingi verr á mig komin.
Á þessum tímapunkti gaus á búlgarska Geysi og Kremena gerði allt til þess að misbjóða manninum sínum. „Ég var bæði reið og örvingluð og það versta sem ég gat gert honum var að eyða peningunum hans eða reyndar okkar. Ég fór út á lífið, með nánast öllum sem vildu vera með mér, borgaði það sem fólk fékk sér, mér var alveg sama um allt. Ég kom eina nóttina með þrjár ókunnugar konur með mér heim og pantaði mat fyrir okkur undir morgun. Þetta voru þrír mjög skrautlegir dagar og ég fór aftur inn á Geðdeild og aftur í einangrun.“
Nauðungarvistunin kærð
Kremena kærði nauðungarinnlögnina og komst að því að það var maðurinn hennar og geðlæknirinn sem höfðu kokkað saman og skrifað undir beiðnina um nauðungarinnlögn. „Ég var með kramið hjarta en ég var ekki hættuleg. Ég var kannski að kasta farsímum og eyða peningum en ekki að meiða fólk. Inni á Geðdeild er mjög veikt fólk og það var kona þarna sem tók upp stól og kastaði í mig og ég slapp naumlega með skrekkinn en ég spurði einmitt sjálfa mig hvort ekki einhver gæti skrifað undir nauðungarvist fyrir þessa konu sem var stórhættuleg.“
Kremena var svikin, í landi með lítið tengslanet, særð og niðurlægð. Öryggið og sjálfstraustið sem samband hennar við barnsföðurinn hafði veitt henni var byggt á sandi. Hún var að sökkva. Hún spilaði út, hún var kona með læti og henni var stungið inn á geðdeild. Konur í gegnum söguna sem voru með læti voru oft flokkaðar sem móðursjúkar og hysterískar. Kremena var bara að vakna við vondan draum að hún var í vondu hjónabandi þar sem valdahlutföllin voru mjög skökk og það var hægt að stinga henni inn í nauðungarvist án hennar samþykkis.
Kremenu fannst enginn hlusta á sig né taka neitt mark á sér. Á móti fór hún í verkfall og neitaði að tala annað en búlgörsku þrátt fyrir sína ágætis íslensku og spítalinn þurfti að útvega sér túlk til þess að ná sambandi við þessa vonsviknu konu. Hún vildi ekki tala við neinn nema yfirlækninn. Þórður yfirlæknir náði til hennar og sannfærði hana loksins til þess að vera áfram og hvíla sig. Hún tók upp saumavélina og kom sér fyrir. Þetta var mjög góður tími, ég fékk að fara út í sund og fór í sjoppuna fyrir hina sjúklingana. Ég pantaði pizzur á línuna á og skipti út blómunum á geðdeildinni sem voru farin að fölna og pantaði ný. Ég hélt áfram að hefna mín á sambýlismanninum og eyða peningunum okkar.
„Ég er einkabarn foreldra minna, fæddist langt fyrir tímann. Foreldrar mínir dekruðu mig og ég þurfti lítið að hafa fyrir lífinu framan af. Mamma og tengdamamma pössuðu elsta barnið okkar á meðan ég var í kvikmyndaskóla í Sofíu en að loknu námi sagði pabbi mér að kvikmyndagerð væri ekki starf fyrir konur. Ég kláraði tæknilegt nám í kvikmyndagerð og hann sá fyrir sér að starf við kvikmyndagerð þýddi mikla fjarveru og myndi bitna á fjölskyldulífinu.“
Kremena hafði eignast dóttur sína og árið 1993 bauðst barnsföðurnum föst vinna á Íslandi og fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Kremena kynntist vinnusama búlgarska samfélaginu hér heima og henni var ekki til setunnar boðið og fór að vinna og lengst af starfaði hún við Ungbarnadeildina í Hlíðarenda. „Tvímælalaust bestu ár ævi minnar, ég elska börn og vann á Ungbarnadeildinni í átta ár, sem var dásamlegur tími.“
Í risíbúð með börnin
Við misstum húsið okkar í hruninu og skiljum endanlega árið 2010. Ég flutti í 37 fm risíbúð með strákana okkar og borgaði 187 þúsund krónur í leigu á mánuði. Maðurinn og barnsfaðir fór án þess að horfa um öxl og við höfum lítið haft af honum að segja síðan. Ég reyndi fyrst að vinna fyrir fjölskyldunni eða mér og drengjunum en á þessum tíma var ég mjög illa á mig komin. Ég hrundi, ég gat ekki sett einn fót fram fyrir hinn, ég gat ekki lengur borið mig uppi og ég fór á öryrkjabætur.
Kremena er undirsett búsetuskerðingu og fær skertar bætur eða 67% af því hún fæddist ekki á Íslandi. Alveg sama þótt að hún hafi búið á Íslandi meiri hluta ævi sinnar og fætt hér tvo drengi og alið upp þrjú börn. Hún nær ekki endum saman nema með því að vinna ásamt öryrkjabótunum og vinnan er jafn nauðsynleg til þess að halda heilsu og sjálfsvirðingu í góðum málum, segir Kremena.
Þrjú störf
Í dag sinnir Kremena þrem mismunandi hlutastörfum ásamt því að kenna Samba í Hlutverkasetrinu. Hún skúrar hjá Geðhjálp, afgreiðir í Barnaloppunni og er vinaliði hjá Borginni, sem þýðir að hún hittir reglulega konur í vanda með geðheilsu sína sem þurfa stuðning og félagsskap líkt og hún þurfti verulega sjálf á sínum tíma.
Það var ekki fyrr en ég kom í Hlutverkasetrið árið 2012 að hlutirnir fóru að gerast. Í Hlutverkasetrinu hitti ég fólk sem talaði við mig, talaði við Kremenu, en ekki bara við sjúkdóminn minn. Þetta var upp úr og eftir kreppu og í Hlutverkasetrið kom fullt af fólki sem hafði misst heilsuna í kjölfarið á Hruninu, fólk sem hittist í setrinu í bland við flóttafólk sem var að koma eða bíða. Þetta var þverskurður af samfélaginu og það var verið að framkvæma eitthvað í öllum herbergjum. Fólk að nudda og gera neglur, iðka jóga og dansa Samba. Smá saman endurheimti Kremena brot af sínum gömlu kröftum og lífsneista sínum og fór að skoða í kringum sig.
En um samskipti hennar við TR segir Kremena er sama sagan og oft áður í lífi hennar. Henni finnst ekki eins og henni sé tekið sem fullveðja manneskju. „Vandamálið er það að ég veit aldrei hvað ég má vinna mikið eða lítið til þess að dæmið gangi upp. Mér gengur afar illa að fá nákvæmar upplýsingar. Ég fæ ekki að tala við fólkið sem reiknar út og tekur ákvarðanirnar. Þau sitja ofar í húsinu. Ég tala við þjónustufulltrúana niðri sem sjá bara hvað stendur á skjánum. Ég vildi að hver mánaðamót þyrftu ekki að vera eins og rússnesk rúlletta. Ég veit aldrei hvað TR sendir mér, hvort að ég skuldi þeim eða hvort að þeir borgi mér yfirhöfuð eitthvað.“
Línudans heilsu og fjármála
Kremenu dreymir um að TR komi fram við hana eins og fullgilda manneskju með tilfinningar og hjarta. Í staðinn finnst henni öllu vera haldið leyndu fyrir henni eins og hún væri glæpakona.
„Ég hef spurt þrisvar sömu spurningar í sömu vikunni og fengið þrjú mismunandi svör og þetta gerir manneskju eins og mig mjög órólega. Ég vildi svo óska þess að starfsmenn TR myndu halda námskeið fyrir skjólstæðinga sína og leggja sig fram við að útskýra fyrir okkur hvernig við eigum að lifa og hvað við megum vinna mikið. Þetta er flókið. Ef ég vinn of mikið þá er ég komin í skuld við TR. Ég er ekki með heilsu til þess vinna og vera án TR eða lágmarksöryggis. Ég þarf að velta hverri einustu krónu og er sífellt á nálum yfir útlögðum kostnaði. Ég hafði loksins safnað fyrir legsteini handa mömmu en í Covid komst ég ekki út að setja hann upp og eins og fjárhagsstaðan er núna þori ég varla að kaupa steininn.“
Heilsan og fjármálin er allt viðkvæmur línudans og Kremenu finnst hún vera að dansa á jarðsprengjusvæði það er sem hún tiplar á milli hættunnar að missa tekjur eða missa tökin á geðheilsunni. Hún má ekki finna til og hrífast með eða hafa stórar skoðanir þá gæti heilsan farið úr böndunum og fólkið í kringum hana verður tortryggið og hefur orð á því að hún þurfi að passa sig, hún gæti farið í maníu. En eins og Kremena segir þá er ekki hægt að lifa án drauma og væntinga og það er vandi hennar í dag. Hana langar ekki að vera bara með hluta af tilfinningum sínum. Hana langar að vera fullveðja og heil manneskja með fullt hús af tilfinningum.
„Í haust mun Hlutaverkasetrið örugglega fyllast aftur í atvinnuleysinu. Ég er stressuð yfir vetrinum. Þessi tugþúsund sem missa vinnuna eiga líka eftir að missa heilsuna og sumir eiga eftir að falla fyrir eigin hendi. Hlutverkasetrið er eins og kirkjan sem tekur við okkur þegar allt annað er horfið,“ segir Kremena.
Frásögnin er hluti af greinaröð Öryrkjabandalags Íslands, Við erum hér líka. Höfundur texta og ljósmynda er Alda Lóa Leifsdóttir.
Athugasemdir