Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið telur að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra hafi ekki brotið gegn siðareglum ráðherra með veru sinni í myndaseríu á Instagram sem kostuð var af Icelandair Hotels.
Þórdís sótti vinafagnað sem fjölmiðlakonan og áhrifavaldurinn Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir stóð fyrir á sunnudag. Nutu Eva og þrjár vinkonur hennar fjárhagslega góðs af þessu samkvæmt samkomulagi við Icelandair Hotels, en fylgjendur Evu á Instagram eru 34 þúsund talsins. Myndir af þeim öllum saman ásamt ráðherra voru birtar á samfélagsmiðlinum í myndaseríu sem Eva hafði merkt sem samstarf við Icelandair Hotels.
Í svörum við fyrirspurn Stundarinnar til ráðuneytis Þórdísar kemur fram að ráðherra hafi greitt fullt verð fyrir sig á þessum degi. „Ráðuneytið telur að ekki hafi verið um að ræða brot á siðareglum.“
Í 4. grein siðareglna ráðherra er fjallað um háttsemi og framgöngu ráðherra. „Ráðherra forðast allt athæfi sem líklegt er til að vekja grunsemdir um að hann notfæri sér stöðu sína í eiginhagsmunaskyni.“
Þykir leitt að hafa tekið myndina
Gagnrýnt var um helgina að tveggja metra reglunnar um sóttvarnir hafi ekki verið gætt í samsætinu samkvæmt myndum sem birtust á samfélagsmiðlum. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir var spurður um athæfið á upplýsingafundi í gær. „Ég held hún hafi ekki verið að brjóta lögin en hefði mátt passa betur upp á tveggja metra regluna þarna,“ sagði hann.
Þá sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, að athæfi Þórdísar hafi verið óheppilegt. Sjálf sagði hún við RÚV í gær að myndatakan hefði verið óþarfi. „Ég skil vel hvernig þetta kom við fólk og þessi myndataka af okkur saman í einum hópi, þrátt fyrir að strangt til tekið skiljist mér að það sé ekki brot á reglum, þá var hún óþarfi og við hefðum ekki átt að taka hana, og mér þykir það leitt. Ég átta mig á því að ég er í framlínu og þetta er risastórt verkefni og okkur líður öllum alls konar,“ sagði Þórdís.
„[...] þá var hún óþarfi og við hefðum ekki átt að taka hana, og mér þykir það leitt“
Í auglýsingu heilbrigðisráðherra frá 30. júlí um takmörkun á samkomum vegna farsóttar er kveðið skýrt á um tveggja metra regluna. Reglurnar voru hertar vegna fjölgunar kórónaveirusmita. „Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, m.a. þeirri sem talin er upp í 3. gr., skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.“
Í siðareglum ráðherra er kveðið á um háttsemi og framgöngu ráðherra í 4. grein: „Ráðherra gætir þess að rýra ekki virðingu embættis síns með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við manngildi og mannréttindi.“
Athugasemdir