Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Fordæma aðför stórfyrirtækisins Samherja að mannorði Helga Seljan

Út­gerð­ar­fyr­ir­tæk­ið Sam­herji sak­ar Helga Selj­an ým­ist um að hafa átt við eða fals­að skýrslu sem hann hafi byggt á um­fjöll­un sína um meint brot Sam­herja á gjald­eyr­is­lög­um. Út­varps­stjóri og frétta­stjóri RÚV hafna áburði Sam­herja og for­dæma að­för stór­fyr­ir­tæk­is­ins að mann­orði hans.

Fordæma aðför stórfyrirtækisins Samherja að mannorði Helga Seljan
Segja um kerfisbundna atlögu gegn Helga að ræða Útvarpsstjóri og fréttastjóri RÚV segja umhugsunarvert hversu langt Samherji gengur í að sverta mannorð Helga Seljan til að verjast gagnrýninni umfjöllun um fyrirtækið.

Í myndbandi sem útgerðarfyrirtækið Samherji hefur látið gera og birt var á Youtube-síðu fyrirtækisins í morgun er því haldið fram að Helgi Seljan, fréttmaður Ríkisútvarpsins, hafi  árið 2012 byggt umfjöllun sína um meint brot Samherja á gjaldeyrislögum í Kastljósi á gögnum sem hafi verið röng, hann hafi ýmist breytt umræddum gögnum eða falsað þau.

Útvarpsstjóri og fréttastjóri Ríkisútvarpsins hafna ásökunum á hendur Helga og segja Samherja nú vega að mannorði hans og æru með tilhæfulausum ásökunum, í því skyni að verjast gagnrýninni umfjöllun um fyrirtækið.

Látið er að því liggja í myndbandinu að Helgi hafi falsað umrædd gögn, skýrslu sem hann sagði hafa verið unnin hjá Verðlagsstofu skiptaverðs árið 2010. Í myndbandinu er vísað til samskipta við Verðlagsstofu þar sem fram komi að Helgi hafi ekki fengið neinar slíkar upplýsingar frá stofunni og að engin skýrsla af því tagi sem Helgi hafi haldið fram að hann hefði undir höndum hefði verið samin. Þá halda Samherjamenn því einnig fram að Helgi hafi breytt skýrslunni, sem þó á ekki að hafa verið til að þeirra mati.

Í yfirlýsingu Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra og Rakelar Þorbergsdóttur, fréttastjóra RÚV, sem send var nú í hádeginu kemur fram að Ríkisútvarpið hafni ásökunum á hendur Helga, sem koma fram í myndbandinu, sem og í Fréttablaðinu í morgun, um að hann hafi falsað umrædd gögn. „Það er líklega einsdæmi að stórfyrirtæki leggi í persónulega herferð gegn blaðamanni með áratugareynslu. Þessi grófa árás þjónar þeim eina tilgangi að skaða mannorð fréttamanns RÚV, sem hefur hvorki falsað gögn né „átt við þau“ og trúverðugleika fréttastofunnar.“

Í myndbandi Samherja er fjallað um meinta aðkomu Helga að því að Seðlabankinn hóf rannsókn á meintum brotum sjávarútvegsfyrirtækisins á gjaldeyrislögum. Í Kastljósþætti Ríkisútvarpsins 27. mars 2012 var fjallað um upplýsingar sem Kastljós hefði aflað um að Samherji hefði á nokkurra ára tímabili selt fiskveiðiafla til dótturfyrirtækja sinna erlendis, fyrir hundruði milljóna króna, á lægra verði en gengur og gerist í sambærilegum viðskiptum. Með því hafi fyrirtækið brotið gegn gjaldeyrislögum.

Mál á hendur Samherja felld niður vegna formgalla

Að morgni 27. mars 2012 voru framkvæmdar umfangsmiklar húsleitir hjá Samherja á Akureyri og í Reykjavík en rannsókn Kastljóss var sögð hafa orðið kveikjan að rannsókn gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Sérstakur saksóknari fékk málið til meðferðar en endursendi málið til Seðlabankans og felldi niður sakamálarannsókn í því árið 2015. Ástæðan var tæknilegs eðlis en árið 2008, þegar reglur Seðlabankans um gjaldeyrismál voru settar, hafði farist fyrir að láta viðskiptaráðherra skrifa undir þær líkt og áskilið var í lögum. Því væru reglarnar ekki tækar sem refsiheimild.

Í september árið 2016 lagði Seðlabankinn 15 milljóna króna stjórnvaldssekt á Samhefja vegna brota á gjaldeyrislögum, um skil á erlendum gjaldeyri. Í apríl 2017 komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að bankanum hefði ekki verið heimilt að leggja sektina á fyrirtækið og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu 8. nóvember 2018. Ástæðan væri sú að Samherji hefði mátt binda réttmætar væntingar við að málið hefði verið látið niður falla, með vísan til bréfaskipta félagsins og Seðlabankans á meðan málið var til meðferðar hjá sérstökum saksóknara. Ekki var tekin afstaða til annarra þátta málsins og hvorki sagt af eða á um hvort fyrirtækið hefði brotið lög, þar eð ekki væri ástæða til að skoða aðrar málsástæður.

Byggt á upptöku sem var gerð án vitundar Helga

Í myndbandi Samherja er því haldið fram að rannsókn Seðlabankans hafi hafist vegna þess að Helgi Seljan hafi gengið á fund gjaldeyriseftirlits bankans með gögn sem hafi verið röng og ýjað að því að Helgi hafi falsað skýrsluna. Yfirskrift myndbandsins er „Skýrslan sem aldrei var til.“

Byggja Samherjamenn á upptöku af fundi Helga og Jóns Óttars Ólafssonar, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns og starfsmanns Samherja, sem var tekin upp án vitundar Helga. Í upptökunni kemur fram að Helgi hafi haft undir höndum skýrslu frá Verðlagsstofu sem hann byggði á. „Ég vissi náttúrulega hvaðan þessir pappírar komu frá Verðlagsstofu og ég vissi að þeir voru alveg legit, ég var búinn að komast að því. Það tók mig svolítinn tíma reyndar af því að þetta var ómerkt sko, en þetta var undirritað af þessari konu,“ heyrist Helgi segja í upptökunni.

„Ég vissi náttúrulega hvaðan þessir pappírar komu frá Verðlagsstofu og ég vissi að þeir voru alveg legit, ég var búinn að komast að því“

Samherjamenn vísa hins vegar til samskipta við Verðlagsstofu þar sem fullyrt er að engin skýrsla af þessu tagi hafi verið gerð þar innanhúss. Þá halda Samherjamenn því fram að Helgi hafi mögulega átt við skýrsluna, breytt henni eða falsað, og byggja það á eftirfarandi orðum hans úr sömu upptöku: „Gögnin voru þannig að ég var búinn að þurfa að eiga við sko, hérna, skýrsluna.“ Framhaldið á samtalinu er ekki birt og ekki kemur fram hvernig Helgi þurfti að eiga við umrædda skýrslu. Rétt er að benda á að ekki er óalgengt að blaðamenn sem fá í sínar hendur gögn þurfi að gera á þeim breytingar áður en þeir sýna öðrum gögnin, til að mynda að má út nöfn sem geti opinberað heimildarmenn.

Segja að Helgi hafi breytt skýrslunni og að hún hafi aldrei verið til

Þá halda Samherjamenn því ýmist fram að Helgi hafi átt við, breytt, skýrslunni, eða að hún hafi hreinlega ekki verið til, í það minnsta ekki sem skýrsla samin af neinum innan Verðlagsstofu. Það byggja þeir á samskiptum við Verðlagsstofu sem neitar fyrir að skýrsla af þessu tagi hafi verið samin þar innanhúss  „Við veltum því oft fyrir okkur af hverju þessi skýrsla var til dæmis ekki grundvallargagn í húsleitarkröfu Seðlabankans til Héraðsdóms Reykjavíkur. Nú vitum við ástæðuna, hún var aldrei til,“ segir Jón Óttar í myndbandinu. Samherjamenn virðast því bæði halda því fram að Helgi hafi breytt skýrslu sem hann hafði í höndunum en líka að hún hafi ekki verið til.

Leikandi í Namibíumálinu viðmælandi í myndbandinu

Jón Óttar var ráðinn til Samherja árið 2014 og var meðal annars háttsettur í starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Kveikur, Stundin, Al Jazeera og Wikileaks fjölluðu í nóvember í fyrra um mútugreiðslur Samherja til að komast yfir hestamakrílskvóta í Namibíu. Helgi Seljan er fréttamaður Kveiks og vann umfjöllun fréttaskýringarþáttarins um mútugreiðslur Samherja ásamt þeim Aðalsteini Kjartanssyni og Stefáni Drengssyni.

Jón Óttar Ólafsson

Forsvarsmenn Samherja hafa haldið því fram að Jón Óttar hafi verið sendur til Namibíu árið 2016 til að taka starfsemina í gegn. Hann var þvert á móti í innsta hring Namibíuveiðanna og starfaði með Jóhannesi Stefánssyni, sem síðar gerðist uppljóstrari, að verkefnum þar sem kvóti hafði fengist frá namibískum yfirvöldum með mútugreiðslum. Jón Óttar sat fundi með namibískum mútuþegum Samherja og fékk afrit af tölvupóstum þar sem rætt var um greiðslur í skattaskjól. 

Aðrir viðmælendur í myndbandi Samherja eru einnig tengdir Samherja. Garðar Gíslason lögmaður sem rætt er við hefur gætt hagsmuna fyrirtækisins og Jóhannes Pálsson, sem kynntur er sem fyrrverandi framkvæmdastjóri framleiðslu og markaðsmála Síldarvinnslunnar er meðeigandi Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, í eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem aftur er stór eigandi Síldarvinnslunnar.  

Garðar ásamt SamherjafólkiGarðar Gíslason er aftastur í hópi Samherjafólks á leið til fundar í Seðlabankanum. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri er fremstur fyrir miðju.

Boða áframhaldandi umfjöllun um vinnubrögð Helga

Í lokin á myndbandi Samherja er fullyrt að Ríkisútvarpið hafi aldrei gefið fyrirtækinu kost á að gera athugasemdir við efni Kastljóssþáttarins árið 2012 og ásakanir á hendur Samherja áður en þær birtust. „Þetta var ekki í síðasta skipti sem Ríkisútvarpið og Helgi Seljan beittu þessum vinnubrögðum. Framhald í næsta þætti...“ segir í niðurlagi myndbandsins.

Leiða má líkum á að í næsta þætti eða þáttum verði haldið á loft málsvörn Samherja vegna Namibíumálsins. Fyrirtækið hefur enda leitað víða eftir liðsinni til að verjast neikvæðri umfjöllun um það mál, meðal annars með því að ráða Håkon Borud, fyrrverandi fréttastjóra Aftenposten og meðeiganda ráðgjafafyrirtækisins First House, til að sinna krísustjórnun. Þá réð fyrirtækið lögmanninn og fréttamanninn fyrrverandi, Þorbjörn Þórðarson, til ráðgjafar einnig og fullyrt er að hann eigi stærstan þátt í myndbandinu sem hér hefur verið fjallað um.

RÚV hafnar ásökununum fortakslaust

Í yfirlýsingu forsvarsmanna Ríkisútvarpsins er ásökunum Samherja á hendur Helga hafnað sem röngum. „Kerfisbundin atlaga gegn fréttamiðlum til að verjast gagnrýninni umfjöllun er ekki ný af nálinni en sú aðferð sem Samherji beitir nú gengur mun lengra en þekkst hefur hér á landi. Það er umhugsunarvert.

„RÚV fordæmir þessa aðför sem gerð er að fréttamanninum með tilhæfulausum ásökunum“

Helgi Seljan er einn öflugasti rannsóknarblaðamaður landsins og hefur kallað yfir sig reiði hagsmunaðila með vinnu sinni, og nú herferð stórfyrirtækis gegn mannorði hans og æru. RÚV fordæmir þessa aðför sem gerð er að fréttamanninum með tilhæfulausum ásökunum.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Á ekki von á 50 milljónum eftir jólin
1
ÚttektJólin

Á ekki von á 50 millj­ón­um eft­ir jól­in

Nokk­ur af þekkt­ustu nöfn­un­um í ís­lensku tón­list­ar­sen­unni gefa nú út svo­köll­uð texta­verk, prent­uð mynd­verk með texta­brot­um úr lög­um sín­um. Helgi Björns­son seg­ir að marg­ir hafi kom­ið að máli við sig um að fram­leiða svona verk eft­ir að svip­uð verk frá Bubba Mort­hens fóru að selj­ast í bíl­förm­um. Rapp­ar­inn Emm­sjé Gauti seg­ir texta­verk­in þægi­legri sölu­vöru til að­dá­enda en ein­hverj­ar hettupeys­ur sem fylli hálfa íbúð­ina.
Efaðist í átta ár um að hún gæti eignast börn
4
ViðtalMóðursýkiskastið

Ef­að­ist í átta ár um að hún gæti eign­ast börn

Elísa Ósk Lína­dótt­ir var 19 ára þeg­ar kven­sjúk­dóma­lækn­ir greindi hana með PCOS og sagði henni að drífa í barneign­um. Eng­ar ráð­legg­ing­ar um henn­ar eig­in heilsu fylgdu og Elísa fór af stað í frjó­sem­is­með­ferð­ir með þá­ver­andi kær­ast­an­um sín­um. „Ég var ekk­ert til­bú­in í að verða mamma,“ seg­ir Elísa sem ef­að­ist í kjöl­far­ið um að hún myndi geta eign­ast börn.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
2
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Rak 90 prósent starfsfólks fyrir að skrópa á morgunfund
4
Fréttir

Rak 90 pró­sent starfs­fólks fyr­ir að skrópa á morg­un­fund

Bald­vin Odds­son, ung­ur ís­lensk­ur at­hafna­mað­ur, rat­aði ný­ver­ið í frétt­ir í Banda­ríkj­un­um fyr­ir að reka 99 starfs­menn úr sprota­fyr­ir­tæki sem hann stofn­aði og rek­ur. Fram­kvæmda­stjór­inn mun hafa ver­ið ósátt­ur við slaka mæt­ingu á morg­un­fund, þar sem að­eins ell­efu af 110 starfs­mönn­um meld­uðu sig, og til­kynnti þeim sem voru fjar­ver­andi að þau væru rek­in.
„Ég kalla þetta svítuna“
5
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Ég kalla þetta svít­una“

Vil­berg Guð­munds­son hef­ur bú­ið í hús­bíl í níu ár. Hann og þá­ver­andi kon­an hans ákváðu þá að selja íbúð­ina sína og keyptu hús­bíl á Flórída. Þau skildu síð­ar og hann er að fóta sig á nýj­an hátt. Vil­berg er einn þeirra sem býr í hjól­hýsa­byggð­inni við Sæv­ar­höfða. „Ég skil ekki af hverju við mátt­um ekki vera áfram í Laug­ar­daln­um,“ seg­ir hann.

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur en verður send úr landi
3
Fréttir

Til­nefnd sem framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur en verð­ur send úr landi

Til stend­ur að hin sýr­lenska Rima Charaf Eddine Nasr verði send úr landi. Hún var á dög­un­um ein af tíu sem til­nefnd voru til verð­laun­anna Framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur í ár. Til­nefn­ing­una fékk hún fyr­ir sjálf­boða­liða­störf sem hún hef­ur unn­ið með börn­um. Hér á hún for­eldra og systkini en ein­ung­is á að vísa Rimu og syst­ur henn­ar úr landi.
Ný ógn við haförninn rís á Íslandi
5
Vindorkumál

Ný ógn við haförn­inn rís á Ís­landi

Hafern­ir falla blóð­ug­ir og vængja­laus­ir til jarð­ar í vindorku­ver­um Nor­egs sem mörg hver voru reist í og við bú­svæði þeirra og helstu flug­leið­ir. Hætt­an var þekkt áð­ur en ver­in risu og nú súpa Norð­menn seyð­ið af því. Sag­an gæti end­ur­tek­ið sig á Ís­landi því mörg þeirra fjöru­tíu vindorku­vera sem áform­að er að reisa hér yrðu á slóð­um hafarna. Þess­ara stór­vöxnu rán­fugla sem ómæld vinna hef­ur far­ið í að vernda í heila öld.
Innsæi Karenar öskraði: „Það er eitthvað að“
6
ViðtalMóðursýkiskastið

Inn­sæi Kar­en­ar öskr­aði: „Það er eitt­hvað að“

Þeg­ar Kar­en Ösp Frið­riks­dótt­ir lá sár­kval­in á kvenna­deild Land­spít­ala ár­ið 2019 var hún sök­uð um verkjalyfjafíkn. Hún hafði þá ver­ið verkj­uð síð­an hún var níu ára. Geð­lækn­ir leiddi að því lík­um að verk­ir henn­ar tengd­ust gervióléttu. Tveim­ur ár­um síð­ar fékk hún loks stað­fest­ingu á því að hún væri með lík­am­leg­an sjúk­dóm. Hún von­ar að heil­brigðis­kerf­ið og sam­fé­lag­ið læri af henn­ar sögu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár