Hundruð athugasemda hafa borist við frumvarp forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda. Þorri athugasemdanna snýr að því að þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingar frá 2012 hafi verið hunsuð, breytingarnar eigi ekki að vera í höndum formanna stjórnmálaflokka og ferlið fari því gegn lýðræðislegum vilja þjóðarinnar.
Frumvarpið, sem kynnt er af hálfu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, var birt í samráðsgátt í lok júní og lauk umsagnarfresti í gær. Alls bárust 214 umsagnir, flestar þeirra undir lok ferlisins og flestar harðorðar um ferlið sem liggur að grundvelli fyrirhugaðs frumvarps. „Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn,“ er leiðandi stef í umsögnunum.
Í frumvarpinu er mælt fyrir um fjölda breytinga á stjórnarskránni, sem formenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi hafa fundað um frá 2018. Samkvæmt frumvarpinu verður kjörtímabil forseta lengt í sex ár, en sami maður má aðeins sitja í embætti í tvö kjörtímabil, alls 12 ár. Ákvæði um ríkisstjórnarfundi er breytt, samhæfingarhlutverk forsætisráðherra styrkt og þingræðisreglan bundin í stjórnarskrá. Ríkissaksóknara yrði falið að fara með ákæruvald vegna ætlaðra embættisbrota ráðherra, í stað þess að Alþingi gefi út ákæru og Landsdómur fari með slík mál. Þá yrði Alþingi heimilað að fella niður lög eftir að forseti synjar þeim staðfestingar samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar, í stað þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.
Meira en helmingur athugasemdanna komu inn síðasta daginn í samráðsferlinu, það er í gær, miðvikudaginn 22. júlí. „Þjóðin samþykkti nýja stjórnarskrá 2012,“ skrifar Hjálmar Georg Theódórsson. „Lögfestið hana þegar í stað og hættið þessu fúski.“
Á meðal þeirra sem skrifa athugasemdir eru fulltrúar sem sátu í stjórnlagaráði árið 2011 og skiluðu drögum að nýrri stjórnarskrá til Alþingis. Þeirra á meðal eru Vilhjálmur Þorsteinsson, Katrín Oddsdóttir, Þorkell Helgason og Örn Bárður Jónsson.
„Vilji þjóðarinnar er sá að gagna út frá tillögu stjórnlagaráðs“
„Enginn kaus ykkur til stjórnlagaþings eða stjórnlagaráðs, enginn hefur gefið ykkur umboð til að vanvirða þær tillögur sem þjóðin samþykkti í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012, og er enn óafgreidd af Alþingi, 8 árum síðar,“ skrifar Örn Bárður. „Þið voruð kosin til þess, af þjóðinni, að afgreiða vilja þjóðarinnar, sem er uppspretta valdsins og er yfir ykkur öllum. Vilji þjóðarinnar er sá að gagna út frá tillögu stjórnlagaráðs. Yfirgnæfandi meirihluti samþykkti til að mynda greinina um auðlindir í þjóðareigu eða 83%.“
Maria Elvira Mendez Pinedo, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, birtir athugasemd þar sem hún reynir að draga saman það sem komið hefur fram í umsögnunum. „Ásamt lögmæti (legality) og réttlæti/réttmæti (justice/fairness) er kannski tími til kominn að búa til íslenskt orð sem á að endurspegla kröfuna sem flestar athugasemdir hér eru að kalla eftir (legitimacy),“ skrifar hún. „Þetta er krafan um að lög og stjórnarskrá séu upphaflega samþykkt af þjóðinni og allar götur síðan, enda komi þau þjóðinni til góða. Orðið „legitimacy“ sem slíkt er ekki til í íslensku lagamáli, þar sem fræðimenn töldu samþykki þjóðarinnar skipta takmörkuðu máli. Er kannski „lýðmæti“ orðið sem vantar hér?“
Athugasemdir